Dulbjó sig sem hjúkrunarkonu og rændi þriggja daga gömlu barni: Suður-afrískur dómstóll hefur nú dæmt í máli 19 ára stúlku, Zephany Nurse, sem var rænt af sjúkrahúsi. 51 árs kona var handtekin árið 2015 eftir að margir tóku eftir að tvær stúlkur í menntaskóla voru ískyggilega líkar hvor annarri. Fjölskyldan lagðist í rannsóknarvinnu og með DNA prófi var sannað að stúlkan var í raun Zephany.
Foreldrar Zephany, þau Celeste og Morne Nurse, eignuðust stúlkuna og nefndu hana Zephany en nafnið sem mannræninginn gaf henni hefur ekki verið gefið upp til að vernda stúlkuna. Konan sem rændi henni hefur ekki verið nafngreind þar sem Zephany sjálf lítur ekki á líffræðilega foreldra sína sem raunverulega heldur konuna sem rændi henni. Hún hefur ákveðið að búa áfram með eiginmanni konunnar sem hún lítur á sem föður sinn.
Fyrir utan dómshúsið eftir að dómurinn var kveðinn upp sagði Marilyn, amma stúlkunnar, að hún væri ekki ánægð með lengd dómsins – hefði hann átt að vera þyngri. Vonast hún þó eftir að fjölskyldan geti myndað samband við Zephany.
Sagði dómarinn við dómsuppkvaðningu að mannræninginn hefði haft „allan tímann í heiminum“ til að skila barninu en hafi kosið að gera það ekki. Líffræðileg fjölskylda Zephany hélt árlega upp á afmælið hennar þannig ekki þótti líklegt að mannræninginn hafi ekki vitað að hennar væri leitað. Var þetta afar stórt mál í S-Afríku og gáfu foreldrarnir aldrei upp vonina að finna hana á lífi.
Sýndi mannræninginn enga iðrun og sagði að hún hefði ekki gert neitt rangt, hún væri raunverulegt fórnarlamb í málinu. Hún sagði sögu af konu á brautarstöð sem hefði afhent henni barnið, en þótti sú saga ekki líkleg. Konan hafi margoft reynt að eignast barn en allar tilraunir höfðu endað í fósturmissi. Sýndi konan engin viðbrögð þegar dómurinn var kveðinn upp yfir henni og var hann þyngri vegna engrar iðrunar og lyga konunnar.
Mannræninginn er saumakona sem ól Zaphany upp sem sína eigin. Bjó hún einungis nokkrum kílómetrum frá líffræðilegum foreldrum.
Heimild: BBC