Maraþonhlauparann Dion Leonard grunaði ekki að hann myndi eignast besta vin í hinu alræmda 7 daga 250 kílómetra hlaupi yfir Gobi eyðimörkina í Asíu. Eftir að hafa hlaupið 125 kílómetra barst honum „liðsauki” í hundinum Gobi (hvað ætti hún annars að heita?!) sem er aðeins 18 mánaða gömul.
Eyðimörkin sem teygir sig yfir hluta Kína og Mongólíu er harla erfið yfirferðar og ekki á hvers manns færi að hlaupa þar yfir. Leonard man eftir að hafa séð flækingshundinn á sveimi í búðum hlauparanna á fyrsta deginum. Þegar hlaupið hófst ákvað þessi pínulitli, krúttlegi hundur að hlaupa með – og honum tókst að halda í við hlauparana þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Á öðrum degi hlaupsins náði hann Leonard og urðu þau strax óaðskiljanleg: „Ég held að henni hafi líkað guli liturinn á legghlífunum mínum! Hún ákvað að hlaupa með mér,” segir Leonard sem er 41 árs Skoti. „Þegar við komum í búðirnar elti hún mig strax – hún var búin að velja eiganda.”
Þessa viku hljóp Gobi með honum – hún hljóp oftast 20-30 metrum á undan og beið svo eftir honum: „Hún er pínulítil en með stórt hjarta,” segir Leonard í viðtali við 4 Deserts.
Í eitt skipti þurfi hann að bera hana yfir á sem var of breið til hún gæti komist yfir. Þrátt fyrir að tapa dýrmætum sekúndum vildi hann ekkert annað en hafa hana með sér: „Hún varð bara að fylgja mér alla leið.”
Enginn veit með vissu hvaðan Gobi kom – næsta þorp við búðirnar var í átta kílómetra fjarlægð. Hvort sem hún bar með sér sjúkdóma eða annað skipti engu máli: „Hundurinn var frægastur allra í hlaupinu. Gobi var á öllum samfélagsmiðlunum, stjarna hlaupsins. Hún var lukkutröllið og sýndi sama íþróttaanda og allir hinir í hlaupinu.”
Þegar hitastigið náði 52°C var henni bannað að hlaupa með. Hún fékk hinsvegar far í bíl á vegum hlaupins á síðustu stigum hlaupsins. Leonard vann silfurverðlaunin en gleðin veik snögglega þegar hann fékk að vita að hann gæti einfaldlega ekki tekið Gobi með heim til Skotlands.
Ættleiðingarferlið var afar langt og kostnaðarsamt en Dion Leonard vildi ekki gefa nýja, loðna ferfætlinginn upp á bátinn. Þegar hann kom heim fór hann á söfnunarsíðu sem kallast „Bring Gobi Home.” Hann þurfti að safna 5000 pundum fyrir lækniskostnaði og ferðalögum. Náði hann því marki á einungis 24 tímum þar sem Gobi var orðin stjarna og uppáhald margra sem fylgdust með hlaupinu. Safnaði hann um 10.000 pundum á örskömmum tíma.
Gobi þarf að fara til Beijing þar sem hún mun fara í einangrun í nokkra mánuði – áður en hún má ferðast til Skotlands. Leonard segir að þetta muni taka um hálft ár þar til hún verður loksins komin heim til hans, en það eina sem hann hugsar um er að vera aftur með þessari yndislegu litlu tík sem valdi hann sem eiganda.