KVENNABLAÐIÐ

Dýravernd á vegum Matvælastofnunar?

Guðfinna Kristinsdóttir skrifar: Matvælastofnun(MAST) sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.

MAST hefur verið gagnrýnt síðastliðin misseri mánuði vegna aðgerðarleysis í dýravelferðarmálum. Síðustu vikur hefur verið fjallað um húsnæði þar sem 100 kettir og 6 hundar bjuggu við mjög slæmar aðstæður án rennandi vatns.
Kettirnir margir blindir á öðru eða báðum augum eftir sýkingar, veikir af lungnabólgum, ormum, með sár eftir hundsbit og vannærðir. Hundarnir allir út í saur, ein með þrjú æxli á spenum, ormafullir, með ónýtar tennur og með hósta eða eyrnasýkingar.

Auglýsing
Eigandi dýranna hafði samband við Villiketti af fyrra bragði þegar aðstæður voru komnar úr böndunum í lok mars. Villikettir tilkynntu til Mast og byrjuðu að taka við veikustu dýrunum. Mast kom í eftirlitsferð 11. Apríl, sagði að dýrin „litu svona þokkalega út“ og gáfu eiganda 4 mánuði til að losa sig við dýrin án nokkurar aðstoðar við eiganda eða styrkja til sjálfboðaliða til að finna ný heimili eða tryggja dýrunum nauðsynlega læknisþjónustu.

Þessi vinnubrögð virðast vinna gegn dýravelferð. Það er ekki í hag dýranna að þurfa að þola slæmar aðstæður vegna eiganda sem augljóslega ræður ekki við aðstæður. Dýr eiga að fá að njóta vafans í svona málum, þeim ber að bjarga úr aðstæðum og koma þeim undir læknishendur. Finna þeim heimili eða fósturheimili sem kunna að taka við dýrum úr erfiðum aðstæðum og eru hæf til að aðlaga dýrið að venjulegu heimilislífi.

Auglýsing
Ég tók við 4 af 6 hundunum úr þessu húsi. Lyktin af þeim var ólýsanleg, margra mánaða samansafn af saur og hlandi í feldinum, gjörsamlega ónýtar tennur og tveir þeirra voru alvarlega hræddir við aðra hunda, fólk og hávaða.
Hundarnir neituðu að borða fyrst dagana, tíkin Myrra neitaði að koma út úr búrinu sínu í tvo daga, Hundarnir pissuðu eitur grænu og lítið sem ekkert skilaði sér í hægðum. Ég þurfti að handmata þá með hundamat sem var soðinn og kældur, þessi illa lyktandi leðja minnti helst á samblöndu af hafragraut og ælu en var það eina sem hundarnir gátu borðað sökum slæmra tannheilsu.
Hundarnir voru sendir á fósturheimili hér og þar hjá góðu fólki sem treysti sér til þess að taka við hundi sem lítið var vitað um heilsufarslega og hegðunarlega séð.

Þeir voru allir lamandi hræddir við fólk, sérstaklega karlmenn og vildu helst enga snertingu eða samneyti við fólk eða önnur dýr fyrst um sinn. Næstum tveim vikum seinna eru þrír hundar af fjórum á réttri braut. Einn hefur verið svæfður vegna þess að hann byrjaði að missa mátt í afturlöppunum og var of hræddur og gamall til að skynsamlegt væri að leggja á hann meðhöndlun.
Þeir voru allir frábærir karakterar sem áttu miklu betra skilið en aðstæðurnar sem þeir komu úr og eiga svo sannarlega betra skilið en svæfingu vegna vanhæfra eigenda.
Dýrin eiga skilið þá virðingu að þeim sé gefinn nýtt tækifæri í lífinu og vinnan við eftirlit, aðhald og eftirfylgni með málum er varða velferð dýra þyrfti að vera mikið meiri. Stofna þarf athvarf sem styrkt er af ríkinu og frjálsum framlögum eins og þekkist víða erlendis. Þetta athvarf væri starfrækt af sjálfboðaliðum sem tækju við dýrum úr slæmum aðstæðum, meta þau og endurhæfa til að geta farið í eðlilegar heimilisaðstæður.

Ég efast ekki um að einstaklingar innan Mast meina vel og séu dýravinir. En dýrin eru að gjalda fyrir úrræðaleysið með lífi sínu.

Fréttir um málið:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/21/mast_veitir_ekki_upplysingar/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/20/hundarnir_komnir_a_fosturheimili/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/13/sannreyna_ekki_hvar_dyrin_enda/
Einnig mæli ég með að fylgjast með heimasíðu Villikatta til að fylgast með málinu, því enn eru 2 hundar og 30 – 40 kettir eftir í húsinu þar sem Mast hefur ekki svarað Villiköttum um framvindu málsins.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!