Ástralska „plus-size“ fyrirsætan Robyn Lawley er ákafur talsmaður þess að elska sig eins og maður er. Hún skrifaði sig á spjöld tískusögunnar þegar hún var fyrsta ódæmigerða stúlkan til að sitja fyrir hjá íþróttablaðinu Sports Illustrated.
Robyn hefur lent í ýmsu frá því hún hóf sinn feril – fólk hefur úthúðað henni á netinu fyrir að vera „feit“ – að hún hafi ekki bil milli læranna og sé stolt af húðslitinu sínu. Einnig vill hún ekki vera kölluð „plus-size“ eða í yfirstærð.
Segir Robyn að fólk hvái oft og segi að hún líti ekki út fyrir að vera í yfirstærð: „Ég passa ekki inn í þessar hugmyndir fólks um yfirstærð. Enda er hugtakið svo yfirgripsmikið – ef þú ætlar að segja að stelpur í stærð 8-18 séu í yfirstærð ertu að tala um meirihluta kvenna. Ég er reið út af þessu,“
Robyn hefur oft haft áhyggjur af þyngdinni og er hissa að sjá gamlar myndir af sér þar sem hún er svo grönn: „Það var samt aldrei nóg. Ég gat aldrei orðið nógu grönn. Ég var búin að prófa allt og að sjá þessar myndir minnti mig á að það er ferlegt fyrir stelpur á þessum aldri að líða svona. Ég var veikburða. Ég átti að vera í formi, með góða heilsu og njóta æskunnar. Ekki að svelta mig og fríka út yfir því allan daginn, alla daga.“
„Ég á dóttur sem ég vil ekki að fái þessar hugmyndir á heilann. Hún verður stór og íturvaxin eins og ég. Vigtin getur verið svo svakalegur óvinur þinn – það er ekki gott að vera í stórkostlegri yfirvigt og heldur ekki of léttur. Þetta snýst um að finna þína eðlilegu þyngd og halda þér í henni.“
Aðspurð segist Robyn oft hafa verið hafnað vegna þyngdarinnar: „Það er fáránlegt en ég hef verið bókuð og svo afbókuð strax og þeir vissu hversu þung ég væri. Þeir voru samt búnir að sjá myndir og allt. Þeir sögðu við umboðsmanninn minn að senda þeim aldrei myndir af mér aftur. Það er samt algert rugl því ég get ekki breytt beinabyggingunni minni – ég verð aldrei grennri en henni nemur. Ég veit að það er ekkert mál að breyta sniðum, tískuhúsin eru með 1000 saumakonur í vinnu hjá sér!“
Flott kona!