KVENNABLAÐIÐ

Oprah og Michelle Obama eru með mikilvæg skilaboð til karlmanna

Sjálfstæði, leiðtogahæfni og hvernig karlmenn geta stutt konur enn frekar í baráttu sinni fyrir jafnrétti: Tvær áhrifamestu konur heims settust niður og spjölluðu í tæpan klukkutíma á Kvennaráðstefnu Bandaríkjanna á fimmtudaginn síðastliðinn og ræddu mikilvæg málefni.

Michelle ávarpaði 5200 konur sem sóttu ráðstefnuna og fræddi þær um hlutverk sitt sem senn er á enda í Hvíta húsinu. Nokkur atriði stóðu þó upp úr og verða þau talin upp hér. Hvetjum við jafnt karlmenn sem konur til að kynna sér helstu stefnumál kvenna árið 2016.

Þekktu sjálfa þig

„Okkar fyrsta verk sem konur er að kynnast okkur sjálfum,“ segir frú Obama. „Ég held oft á tíðum að við gerum það ekki. Við eyðum tíma okkar í að þóknast fólki, horfa út fyrir okkur til að skilgreina hverjar við erum, hlustum á skilaboð, ljósmyndir og þröngar skilgreiningar sem fólk setur okkur til að sjá hvar við stöndum sjálfar. Það er líka afskaplega mikilvægt fyrir litaðar konur. Okkar rammi er þröngur og ef við hlustum á aðra missum við af því að kynnast okkur.“

Verndaðu þitt svæði

Michelle minntist fyrsta dagsins þegar hún sendi dætur sínar, Sasha og Malia, í skóla þegar þau voru komin í Hvíta húsið: „Ég áttaði mig strax á því að mitt verk væri að undirbúa þær til að verða heilar og eðlilegar og fengju viðunandi umönnun í öllu þessu brjálæði. Og svo fór ég að skilja að ef ég ætti að vernda þær þyrfti ég í fyrsta lagi að vernda sjálfa mig og passa upp á tíma minn.“ Mörgum árum áður en Michelle fór í Hvíta húsið sagðist hún hafa skilið að ef hún tæki ekki stjórnina hvað varðar persónulegan tíma sinn og á sínu lífi myndi annað fólk „éta hann upp.“ „Ef þú setur þig sjálfa ekki í fyrsta sæti, dettur þú alltaf neðar og neðar á listann.“

Líkaðu við sjálfa þig

„Ég held að konur og ungar stúlkur þurfa að skilja að við þurfum að elska okkur sjálfar. Mér líkar vel við sjálfa mig. Mér hefur líkað við mig í langan tíma, þannig ég á gott samband við sjálfa mig,“ segir Michelle.

Auglýsing

Útilokaðu neikvætt fólk og tal

Oprah spurði Michelle hvernig forsetafrúin höndlaði neikvætt umtal og svaraði hún á þessa leið: „Þú átt ekki að lesa allt um þig sjálfa (talandi um samfélagsmiðlana). Ég meina, það er eins og þú myndir leyfa einhverjum að labba upp að þér og slá þig í andlitið. Þú myndir aldrei þola það og sitja bara og leyfa fólki það!“

Hlakkaðu til einhvers og ekki staðna

„Það eru mörg tímabil í lífinu, eins og hjá mér – verandi forsetafrú og að búa í Hvíta húsinu – en það er bara einn lítill þáttur í miklu stærra ævintýri sem ég veit ekki enn útkomuna á,“ sagði Michelle. „Og ég mun ekkert vita það fyrr en ég er öll. Lífið er stöðug þróun og ég held að þessi reynsla mín hafi hjálpað mér að sjá það. Þetta eru bara tímabil – misáhugaverð og misáhrifamikil…og það er fullt á leiðinni.“

Vertu á tánum

Lífið er ein stór vinna sem endar aldrei, vill forsetafrúin meina. „Við megum ekki verða værukærar og halda að nú séum við konur og allt sé í lagi. Því ég heyri þetta frá ungum konum. Margar þeirra hafa ekki fundið fyrir þeim fordómum og þjáðst eins og við sem eldri erum. Það þýðir samt ekki að það séu engin vandamál. Ég heyri þær segja: „Réttindi kvenna – við höfum þetta í hendi okkar. Ég bý nú þegar við jafnrétti…“ og þá hugsa ég: „Oh, bíddu bara. Þú munt fá að finna fyrir því.“ Hvetur hún því ungar konur til að vera á tánum og halda baráttunni áfram – kynna sér sögu kvenna því þannig getum við haldið áfram og náð enn frekari árangri.

Auglýsing

Oprah spurði svo Michelle hvaða skilaboð hún vildi senda til karlmanna: „Hvað geta þeir gert?“

„Verið betri. Verið betri í öllu,“ svarar Michelle ákveðin. „Verið betri feður. Guð minn góður, verið góðir feður sem elska dætur sínar og sýnið það fordæmi hvað það er að vera góður maður í þessum heimi – hvernig á að vera elskaður. Það er stærsta gjöfin sem karlmenn í mínu lífi hafa gefið mér hingað til.“

Við dynjandi lófaklapp hélt hún áfram:

„Verið betri eiginmenn. Þvoið upp. Ekki „passa“ börnin ykkar. Þú passar ekki þín eigin börn! Taktu þátt. Ekki hugsa þannig að þú farir í vinnu og komir heim og það geri þig að karlmanni.“

 

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!