KVENNABLAÐIÐ

Hvernig virkar dáleiðslumeðferð?

Dáleiðslumeðferð hefur ekki verið útbreidd hérlendis og því lítið þekkt af almenningi. Á síðari árum hefur áhugi á því að nýta dáleiðslu í geðrænni meðferð aukist verulega. Árið 2001 var endurvakið félag fagfólks í heilbrigðisstéttum til eflingar á notkun dáleiðslu. Markmið félagsins er m.a. að stuðla að framgangi, þróun og hagnýtingu dáleiðslu sem aðferðar í meðferð. Félagið heitir Dáleiðslufélag Íslands og er formaður þess Ingólfur Sveinsson geðlæknir. Heiðursfélagi dáleiðslufélagisins er Jakob Jónasson geðlæknir sem lengst hefur stundað dáleiðslumeðferð hér á landi eða í rúma þrjá áratugi. Hann kenndi þessar aðferðir innan heilbrigðisstétta um árabil og hefur því lagt mest af mörkum til eflingar dáleiðslumeðferðar á Íslandi.

images-2

Vitað er að dáleiðsla eða mjög áþekk fyrirbæri hafa þekkst í ýmsum samfélögum fornaldar (Young, 1986). Að lækna fólk í einhvers konar leiðsluástandi er ein af elstu listgreinum læknisfræðinnar. Þetta var stundað á meðal frumstæðra manna sem staðfastlega trúðu því að leiðsluástandið eða transinn væri guðlegur og að kraftaverkalækningar væru trúarlegs eðlis (Hartland, 1971).

images-4

Á síðustu öld urðu miklar breytingar á stöðu dáleiðslu hún færðist smám saman úr heimi galdra og furðufyrirbæra yfir í heim tilrauna og vísinda. Sumir telja sögu nútímadáleiðslunnar hefjast á átjándu öld þegar austurríski læknirinn Franz Anton Mesmer (1734-1815) kom fram með kenningar sínar um ,,dýrslegt segulmagn”.

Hann taldi sig hafa fundið upp nokkurs konar segulkraft sem hann gæti notað til að lækna fólk af margs konar meinum.

Það voru svo breskir læknar sem komu dáleiðslunni á vísindalegri grundvöll. James Braid (1795-1860) kom fram með fyrstu sálfræðilegu skýringuna á dáleiðslu þ.e. að hún verði fyrir tilstilli sefjana eða endurtekinna fyrirmæla. Hann lagði til orðið ,,hypnosis” en Hypnos var grískur guð, sonur næturinnar og faðir draumanna (Hörður Þorgilsson, 1993, bls. 619).

images

Sigmund Freud (1856-1939) notaði dáleiðslu fram til ársins 1896 en þróaði þá kenningar um sálgreiningu. Síðustu áratugina hefur þróun dáleiðslu á öllum sviðum orðið mest í Bandaríkjunum. Clark L. Hull (1884-1952) sálfræðingur gerði margar vísindarannsóknir á dáleiðslu. Milton H. Erickson (1901-1980) var nemandi hans en honum ekki sammála um aðferðir. Hull notaði hefðbundnar aðferðir (Lynn&Ruhe, 1991). Nálgun Ericksons var leyfandi fremur en stýrandi og innleiðsla og sefjanir sniðnar að þörfum, gildum og persónulegum einkennum hvers og eins. Hann lagði áherslu á innri styrk og getu einstaklingsins og eðlislæga hæfni hans til mikilvirkra breytinga. Nálgunin er mjög fjölbreytileg með það að markmiði að breyta á óbeinan hátt hegðun, tilfinningum og viðhorfum. Síðustu áratugina hafa vinsældir dáleiðslumeðferðar er byggir á aðferðum Ericksons aukist gífurlega (Edgett & Edgett, 1995).

Auglýsing

Hefðbundin dáleiðsla leggur áherslu á sefnæmi sem grundvöll fyrir virkni sefjunar en fylgjendur Ericksons leggja áherslu á mikilvægi undirvitundarinnar. Þó að nýrri aðferðir í dáleiðslu séu í mörgu frábrugðnar þeim hefðbundnu er mikilvægt að hafa í huga að þessar nálganir deila mörgu sameiginlegu (Lynn&Ruhe, 1991).

Á sviði dáleiðslu erum við að verða vitni að svipaðri þróun og hefur orðið almennt í sálrænni meðferð þar sem fjöldi meðferðarstefna hafa sprottið upp. Mismunandi nálganir í dáleiðslumeðferð eru einnig að þróast (Hammond, 1990). Dáleiðsla hefur hinn óvenjulega eiginleika að sameina einbeitingu og slökun sem gerir það mögulegt að einbeita sér að einhverju sem verulega truflar og veldur spennu og vera á sama tíma í slökunarástandi. Þetta felur í sér klofning eða aðskilnað mismunandi hluta meðvitundar. Slík reynsla getur brotið tengslin á milli hugmyndar, minningar eða hugsunar og meðfylgjandi kvíða og spennu (Karle, 1988).

images-3

Við höfum tvö megin stig meðvitundar vöku og svefn. Breytt meðvitund er mismunandi stig vökuástands. Dáleiðsla er eitt af þessum breyttu stigum meðvitundarinnar þar sem athygli er eindregið beint inn á við og starfsemi hægra heilahvels er talin ríkjandi.

Í leiðslunni fer fram mikil innri starfsemi en einstaklingurinn er vakandi (Robels, 1998). Það er hægt að vera í leiðslu án þess að vera í slökun en slökun huga og líkama eru algengustu einkenni sem einstaklingar tengja dáleiðslu (Yapko, 1995).

Kenningar um klofning hugans (dissociation) eru ekki allar samhljóma. Klofningsfyrirbæri eru mjög algeng í daglegu lífi fólks og því er auðvelt að framkalla þau í leiðslu. Segja má að klofningur sé næstum alltaf hluti af dáleiðslunni. Þegar einn hluti huglægrar eða líkamlegrar reynslu einstaklingsins starfar óháð öðrum er talað um klofning. Ýmsir þættir í hverjum einstaklingi geta starfað óháðir að hluta til (Edgett & Edgett, 1995). Einnig eru klofningsfyrirbæri skilgreind sem hæfileikinn til að brjóta reynslu upp í þætti þar sem meðvitund er aukin um einn þátt en dregið úr henni á öðrum sviðum (Yapko, 1990). Dæmi um þetta gæti verið ef einhver er mjög upptekinn við lestur góðrar bókar og talað er til hans þá gæti hann svarað án þess að veita því sjálfur athygli eða muna eftir því síðar. Það má segja að dáleiðsla s é listin að styrkja athygli einstaklingsins og miðla hugmyndum á áhrifaríkan hátt. Á þennan hátt má auka áhugahvöt og breyta viðhorfum. Meginmarkmið í þessu ferli er að koma einstaklingi í leiðslu þar sem það er talið auðvelda innri vinnu og auka sefnæmi (suggestibility) (Hammond, 1990).

images-1

Skipta má dáleiðsluferlinu í þrjú stig sem eru innleiðing, dýpkun og meðferð. Slökun er ein af mörgum aðferðum sem notaðar eru til að innleiða dáleiðslu. Hún er fullkomlega eðlilegt og náttúrulegt ástand og allir hafa upplifað á einhvern hátt. Slökunin miðar að því að draga líkama og sál frá ytri áreitum til þess að komast í tengsl við dýpri svið hugans. Þegar slökunin eykst fer einstaklingurinn í leiðslu. Á slökun- og leiðslu er því stigs en ekki eðlismunur.

Við slökun kemst líkaminn í betra jafnvægi, þá hægir á öndun, hjartslætti, efnaskiptum, súrefnisnotkun, blóðþrýstingur lækkar og það dregur úr vöðvaspennu og virkni streituhormóna.

Í djúpri slökun eða leiðslu missir fólk hvorki meðvitund né stjórn á því sem það segir og gerir.

Leiðslufyrirbæri dáleiðslunnar er hægt að hagnýta við umönnun og meðhöndlun fólks almennt, t.d. til að lina spennu, milda kvíða, draga úr líkamlegum og tilfinningalegum sársauka, bæta svefn auk sérhæfðrar meðferðar við tilteknum geðrænum kvillum. Meðferðin miðar alltaf að því að styrkja einstaklinginn þ.e. innra öryggi hans, sjálfsvitund, sjálfsvirðingu og sjálfstraust, sem gefur honum nýja sýn á þá hæfileika sem hann býr yfir.

Úrvinnsla tilfinninga af ýmsum toga er stór þáttur í dáleiðslumeðferð og getur m.a. hjálpað einstaklingnum að sjá löngu liðna atburði í öðru ljósi. Það eitt og sér leiðir oft til aukins léttis og bætir líðan.

Auglýsing

Að rifja upp minningar og nálgast þær frá sjónarhóli persónunnar í nútíðinni getur á sama hátt hjálpað. Oft leysir þetta úr gömlum tilfinningahnútum auk þess sem það eykur skilning viðkomandi á eigin tilfinningum og styrk og þar með til aukinnar sjálfsþekkingar.

Dáleiðslumeðferð deilir mörgu sameiginlegu með hugrænni meðferð eða “Cognitive Therapy”. Í báðum tilvikum eru gildi atferlisþjálfunar grunnur þar sem einstaklingi er gert kleift að stíga út úr vanabundnum munstrum og einbeita sér að breyttum raunveruleika. Líklega er ljósasta dæmið um aðferðir dáleiðslunnar innan hugrænnar meðferðar hin mikla áhersla á notkun hugsýna (visualization) og huglægra mynda (imagery) (Yapko, 1992).

Þegar dáleiðsla er notuð í meðferð miðar hún alltaf að því að virkja mannlega möguleika, frekar en að ráðskast með eða stjórna hegðun.

Hún opnar inná ómeðvitaða hugsun og stuðlar að því að einstaklingurinn þrói sínar eigin aðferðir til þess að ráða við vanda sinn. Það má efla og styrkja þekkingarheim einstaklingsins í dáleiðslu með því að auka næmi hans og skynjun í leiðslunni sem síðar færist yfir á reynslu daglegs lífs. Árangur getur náðst vegna breytinga á skynjun annað hvort vegna þess að opnað hefur verið inn á nýja reynslu eða vegna breytinga á persónulegum skilningi sem tengist gamalli reynslu (Woodard, 1996). Að nota dáleiðslu getur verið áhrifaríkt og hjálpað mörgum á undraverðan hátt, en leysir ekki vanda allra fremur en önnur meðferðarform.

Grein af Doktor.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!