Whoopi Goldberg hefur aldrei farið í launkofa með það að hún reyki gras og noti kannabis í lækningaskyni. Nú er hún í samvinnu við aðra konu Maya Elisabeth búin að stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í vörum unnum úr kannabisplöntunni. Vörurnar eru ætlaðar konum sérstaklega og ætlað að lina þjáningar þeirra meðan á blæðingum stendur.
Fyrirtækið sem heitir Whoopi & Maya býður upp á sætindi, olíur, remedíur, áburð og jafnvel freyðibað unnið úr kannabis plöntunni, sem þær segja að hafi mjög slakandi og verkjastillandi áhrif.
„Ef víma er ekki endilega það sem þú ert að sækjast eftir, þá eru vörurnar okkar sem eru hannaðar sérstaklega til að lina verki eitthvað fyrir þig,“ segir Whoopi.
„Vörurnar okkar passa í handtöskuna,“ heldur Whoopi áfram „þú getur borið áburðinn á kviðinn og neðra bakið þegar verkirnir eru sem verstir, þú getur fengið þér te eða kakó sem slær á krampana og svo lagst í slakandi bað þegar heim er komið og allt án þess að verða verklaus eins og einhver grashaus.“
Whoopi hefur sjálf notað Kannabis í lækningaskyni í mörg ár en hún þjáist af höfuðverkjum og kýs það fram yfir það að éta lófafylli af verkjatöflum í viku hverri.
En afhverju er Kannabis gott gegn verkjum? Það er Maya sem situr fyrir svörum.
„Kannabis er frábært verkjalyf og þegar þú notar það útvortis þá hefur það áhrif á taugaendana í þjáðum svæðum líkamans. Kannabis er notað af mörgum sem glíma við langvinna verki með frábærum árangri.“
Hver eru virku efnin í Kannabis sem hafa áhrif á verki?
„Virka efnið CBD dregur úr bólgum og verkjum og THC er einnig verkjastillandi og saman hafa efnin góða virkni til að lina þjáningar sem fylgja blæðingum kvenna.“
Til gamans: Viktoría drottning notaði víst marijuanatinktúru þegar hún þjáðist af tíðaverkjum og krömpum sér til heilsubótar.