Lára Kristín Brynjólfsdóttir var á hundasvæðinu á Geirsnefi með hundinn sinn, Bósa. Hún gekk fram á rör sem stóð upp úr grasinu, illa ryðgað og sprungið. Lára segir: „Rörið var klofið í miðju svo það myndaði tvo snarbeitta hnífa. Ég bað fólk um aðstoð við að fjarlægja rörið sem haggaðist ekki. Einhver sagði mér að þarna undir væri gamall bílakirkjugarður þannig stykkið væri of stórt til að losa.”
Lára velti fyrir sér hvað væri hægt að gera: „Í vetur var eitthvað um blóðug hundaför á klakanum og ég fór að velta fyrir mér hversu margir hundar hefðu skorið sig á þessu röri. Rörið var alveg falið en stendur núna vel upp úr grasinu.”
Lára segist hafa fundið til „með táslum hunda sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu.” Hún póstaði á Hundasamfélagið hvort einhver gæti fært stein sem væri á miðju túninu yfir rörið, hún sagði að grjótið væri stærra en hún gæti borið. „Það verður að gera eitthvað við þetta, ég get það ekki ein.”
Lára sagði svo frá því á Hundasamfélaginu að Bósi hefði nú tekið sig til, málað pústið og steininn með hvítum lit til að Reykjavíkurborg kæmi og liti á málið! „Mamman hringdi þangað og tilkynnti – nú er ekki hægt að hunsa hvíta fílinn á túninu!”
Lára varð svo ótrúlega hamingjusöm þegar það tók starfsmenn Reykjavíkurborgar bara einn dag að fjarlægja hættuna! Segir hún: „Þeim er greinilega ekki sama um voffalingana ÁFRAM ÞAU!” Hún er einstaklega ánægð fyrir hönd reykvískra hundeigenda: „Ég var búin að biðja svo marga um hjálp en allir ypptu bara öxlum. Ég náði í hvítan lit til að merkja svæðið, hringdi í Borgina og svo var þetta horfið næsta dag! Ég er svo stolt af borgarmönnum að koma! Bjóst svo sannarlega ekki við því!”