KVENNABLAÐIÐ

Þjáist þú af höfuðverkjum? Kíktu á þetta!

Nokkuð er deilt um tilvist hálshöfuðverkja, en læknar sem fást við meðhöndlun einstaklinga með höfuðverki hafa vitað af sambandi milli ástands háls og verkja.

Uppbygging hálsins

Hálsinn samanstendur af sjö hálsliðum sem tengjast saman með hryggþófa úr brjóski að framan og tveimur fasettuliðum að aftan. Liðþófinn virkar sem dempari á lóðrétta hreyfingu, fasettuliðirnir stýra snúningshreyfingu hálsliðanna og síðan eru liðbönd á milli hálsliðanna til enn frekari styrkingar. Margir vöðvar tengjast hálshryggnum, sem festast á höfuðkúpubotninn og tengjast niður á bolinn. Vöðvarnir eru til styrkingar auk þess að hreyfa hálsinn. Allir þessir líkamshlutar eru ríkulega nærðir af taugaendum sem leiða taugaboð um hálstaugar inn til mænu og senda upplýsingar um stöðu og sársauka. Hálstaugarnar eru 8 að tölu og næra hálsinn og efri útlimi bæði með tilliti til skynjunar, stöðu og hreyfingar. Fyrsta til fjórðu hálsskyntaugarnar fara um göt á milli hálshryggjarliðanna (foramina intervertebralis) og leiða boð til og frá miðtaugakerfinu. Þaðan halda þau áfram til heilabarkarins og við skynjum boðin sem venjulega snertingu eða undir sumum kringumstæðum sem verk. Verkir eru flókið samband líffræðilegra ferla sem tengjast náið tilfinningalegri upplifun. Verkir eru huglægir og þar af leiðandi ómögulegt að mæla þá sem slíka. Venjulega er þeim skipt í bráða verki og langvinna verki. Bráðir verkir eru hluti af líffræðilegu svari við áverka og hverfa þegar áverki grær. Langvinnir verkir hafa hinsvegar ekki líffræðilegan tilgang, orsök er óljós, þeir svara oft ekki venjulegri meðferð og valda sálrænum einkennum. Ef verkir eru viðvarandi í 3 til 6 mánuði eru þeir taldir vera langvinnir (e. chronic pain).

Hvernig verður hálshöfuðverkur til?

Þrenndartaugin (trigeminus) er skyntaug fyrir andlitið og hluta höfuðsins. Þessi taug hefur kjarna taugafrumubola í mænustofni sem teygir anga sína niður í efsta hluta mænunnar. Efstu hálstaugarnar fara inn til mænunnar og þar tengjast þeir kjarna þrenndartaugar. Vegna þessarar tengingar verður fyrirbærið að staðvilluverk, þ.e.a.s. verkirnir eiga upptök sín í hálsinum en eru skynjaðir sem höfuðverkur vegna leiðslu taugaboða.

Hver eru einkennin?

Helstu einkenni eru verkir, venjulega sljór stöðugur verkur í hnakka, gagnaugum, enni eða í kring um augun. Hann getur verið í hvaða samsetningu þessara einkenna sem er og er gjarnan aðeins öðru meginn, en það kemur fyrir að hann er beggja vegna. Það eru einnig einkenni frá hálsi svo sem verkir í hálsi, staðbundin eymsli eða versnun einkenna við hreyfingu á hálsi. Oft hefur einstaklingur með hálshöfuðverk orðið fyrir áverka á hálsi, s.s. hálshnykk (e. whiplash) í kjölfar umferðarslyss.

Greining

Höfuðverkir eru flokkaðir eftir einkennum í einstaka flokka. Þeir algengustu eru mígreni, höfuðtaugakveisa og spennuhöfuðverkur. Þessi flokkun var gerð af Alþjóða höfuðverkjafélaginu (e. International Headache Society (IHS)) og er almennt notuð sem viðmiðun við greiningu. Mígreni er talið stafa af truflun á blóðflæði í heila eða jafnvel heilastofni, en oft byrja slíkir höfuðverkir eftir áverka á hálsinn og fólk er greint með mígreni. Hefðbundin mígrenimeðferð gagnast ekki, en ef meðferðinni er beint að hálsinum og taugaboðin hamin, hverfur höfuðverkurinn. Sama fyrirbæri hefur einnig sést við höfuðtaugakveisu og spennuhöfuðverk. Það er þess vegna mikilvægt að greina þar á milli orsaka, því meðferðin er ólík og stjórnast af því hvort orsökin er sjúkdómsástand innan höfuðkúpunnar eða hálshryggs. Greining byggist á sjúkrasögu sjúklings og skoðun. Rannsóknir sem jafnan eru gerðar eru tölvusneiðmynd og segulómun af heila til að útiloka fyrirferðaraukningu innan höfuðkúpunnar. Segulómun, tölvusneiðmyndir og röntgenmyndir af hálsi eru gjarnan gerðar til að upplýsa um hugsanlega sjúkdóma á þessu svæði. Oftar en ekki eru niðurstöður allra þessarra rannsókna neikvæðar hjá einstaklingum með hálshöfuðverk. Deyfingar eru besta aðferðin til að greina hálshöfuðverki. Staðdeyfilyfjum er sprautað í viðkomandi vefi og sársaukaboðin eru stöðvuð áður en þau komast inn í miðtaugakerfið. Slíkar deyfingar eru tímabundnar og vara meðan staðdeyfilyfin virka, oftast aðeins í nokkra klukkutíma. Þær eru síðan notaðar til að segja til um hugsanlega lækningu. Þær deyfingar sem aðallega eru notaðar eru:

1) Hnakkataugadeyfing: Stærri hnakkataugin (lat. nervus occipitalis major) er eingöngu skyntaug sem nærir hnakkasvæðið og kemur frá 2. hálstauginni. Ef höfuðverkurinn hverfur eftir deyfinguna má sterklega álykta að verkirnir séu upprunnir frá hálsinum.

2) Fasettuliðadeyfing: Skemmd á fasettuliðunum er algeng orsök höfuðverkja, eftir hálshnykk (s.k. whiplash-áverka). Þessa deyfingu verður að gera með hjálp skyggnimagnara (röntgen myndavélar) því mikilvægt er að komast inn í liðinn og staðfesta rétta staðsetningu með inndælingu skuggaefnis. Það kemur fyrir að ekki er hægt að komast inn í liðina og þá er taugin sem kemur frá liðunum deyfð.

3) Ögrandi hryggþófamynd (provocative discography): Segulómun og aðrar rannsóknir gefa ekki góða mynd af hvort hryggþófarnir milli hryggjaliðanna eru orsök verkjanna, sérstaklega ef rof er í brjóskhringnum. Þá er nál stungið inn í miðju liðþófans og athugað hvort aukinn þrýstingur veldur verkjum, heill liðþófi er verkjalaus við inndælingu. Síðan er staðdeyfilyfi sprautað inn í liðþófann og athugað hvort það deyfir verkina. Þannig er hægt að ákvarða hvaða liðþófi er sökudólgurinn.

Hvaða meðferð stendur til boða?

Þar sem skemmd hefur orðið á ýmsum líkamshlutum, s.s. liðþófum, fasettuliðum, liðböndum og vöðvum, gróa þessir vefir því miður oft ekki. Af þeim sökum beinist meðferðin að því að stöðva sársaukaboðin áður en þau komast inn í mænuna og eru skynjuð sem verkir. Í byrjun er bólgueyðandi lyfjum gjarnan beitt og ef verkir verða viðvarandi er sjúkraþjálfun bætt við. Flestir einstakingar fá einhverja bót með þessari meðferð og geta haldið áfram að lifa eðlilegu lífi. Töluverður fjöldi heldur áfram að hafa viðvarandi einkenni sem valda langvinnum verkjum og öðrum verkjatengdum einkennum. Vöðvabólga er fylgifiskur, sem í byrjun er umhverfis áverkann, en breiðist síðar gjarnan út um fleiri svæði líkamans. Að síðustu verður ástandið það slæmt að áhrifa gætir á sálarlífið, oftast með geðdeyfð og vonleysi, sem að endingu kemur niður á líðan fjölskyldu, vina og jafnvel vinnufélaga.

Fólki með hálshöfuðverki er hægt að bjóða upp á meðferð ef allt annað hefur brugðist. Verkirnir lagast oft ekki fyrr en ráðist er á flutning taugaboðanna frá sársaukasvæðinu með deyfingum inn í viðkomandi liði eða liðþófa, byggt á skoðun læknis og útkomu rannsókna. Ef verkirnir hverfa eða minnka meira en 75% er talið að þeir skomi frá hálsinum. Næsta skref er inndæling stera og staðdeyfilyfja inn á þessi svæði. Ef árangur er ekki langvarandi er oft beitt hitameðferð á viðkomandi taugavef með útvarpsbylgjum (e. radiofrequency ablation). Þar myndast afmörkuð skemmd á viðkomandi taug, sem síðan vex aftur með tímanum og má þá endurtaka þetta eftir þörfum. Þessi aðferð er ekki sársaukafyllri en aðrar deyfingar og er innlagnar ekki þörf á sjúkrahús.

Niðurlag

Hálsinn er flókinn líkamshluti og mörg verkjavandamál eru vegna breytinga í hálshrygg og vöðvum. Nokkuð er deilt um tilvist hálshöfuðverkja, en læknar sem fást við meðhöndlun einstaklinga með höfuðverki hafa vitað af sambandi milli ástands háls og verkja. Nýverið viðurkenndi Alþjóða höfuðverkjafélagið hálshöfuðverki sem sérstakan flokk innan höfuðverkja flokkunarinnar. Það er talsverður fjöldi fólks með viðvarandi höfuðverki sem orsakast af sjúkdómum, sliti í hálsi eða eftir áverka. Hægt er að bjóða upp á greiningu með einföldum deyfingum og síðan meðferðarform sem dregur verulega úr verkjum og þjáningum viðkomandi. Segja má að langvinnir verkir séu alla jafna ekki læknanlegir, frekar að markmið verkjameðferðar sé að sefa kvalir einstakinga með langvinna verki, minnka lyfjatöku, auka lífsgæði, minnka ásókn í heilbrigðisþjónustuna og reyna eftir mætti að gera viðkomandi kleift að snúa aftur til vinnu, ef nokkur kostur er.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsuna!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!