Michalina Borowczyk-Jędrzeje er pólsk kona sem lætur ekki segja sér að eldri konur keyri of hægt í umferðinni. Hún er nýbúin að kaupa sér 2016 árgerðina af Subaru WRX STI, og hún fer á rúntinn á hverjum degi. Hefur hún vakið mikla athygli í Póllandi og út um allan heim. Þegar Michalina er tekin tali af fjölmiðlum segist hún alltaf hafa haft áhuga á bílum – frá því hún var lítil stelpa. Þar sem hún er nú komin á eftirlaun hefur hún allan tímann í heiminum til að rúnta um á nýja, flotta bílnum sínum.
Þessi Subaru er þó ekki fyrsti bíllinn hennar heldur hefur hún átt ýmsa í gegnum tíðina, s.s. Opel, BMW, Mazda og Hondu. Subaru hefur þó alltaf verið hennar uppáhaldstegund og safnaði hún í 13 ár til að eiga fyrir honum. Hann var ekki ódýr, kostaði 46.ooo Evrur (um 6,5 milljónir íslenskar).
„Ég elska hljóðið í vélinni,“ segir hún. „Hann malar, ég nýt þess að keyra hann. Þessi bíll hefur sál og hjarta og ég er alveg dolfallin yfir honum,“ segir Michalina. Hún er búsett í Katowice en keyrir oft í nærliggjandi bæji og borgir, s.s. Czestochowa, Krakow og Wroclaw.
Hún keyrir 10-14.000 kílómetra á ári sem hlýtur að teljast gott miðað við aldur! Ekki er ókeypis að reka bílinn en hún á sparnað og fær leigutekjur sem hjálpa henni að greiða fyrir hitt og þetta tengt bílnum.
Þetta ætti nú að sýna okkur að það þarf ekki að vera leiðinlegt að eldast! Ef þessi kona á níræðisaldrei getur keypt sér sportbíl…hljótum við nú að geta gert hvað sem er!