Viktor Sigursveinsson og Berglind Sveina Gísladóttir eru einstakt par og einstök hjón. Hvar á að byrja? Þau kynntust árið 2010 og hafa verið óaðskiljanleg síðan…og við meinum óaðskiljanleg!
Berglind Sveina er snyrtifræðingur sem hefur verið í eigin rekstri frá því hún útskrifaðist. Viktor er nuddari, söngvari í þungarokkshljómsveit og býr til leikföng/safngripi á netinu og selur.
Saman hafa þau opnað snyrtistofuna Fegurð á Linnetsstíg 2 í Hafnarfirði fyrir skömmu og vinna saman að því að láta fólki líða betur.
Við tókum þau tali í tilefni af opnun nýju stofunnar sem er einungis um mánaðargömul á nýjum stað þrátt fyrir að stofan hafi verið til í um 11 ár.
Hvenær kynnstust þið og hvernig?
„Við kynntumst árið 2010 og giftum okkur 07.09.´13. Tvíburarnir okkar Adrían Evan og Amelía Eva fæddust svo í ágústmánuði árið 2012. Við byrjuðum svo fljótlega að vinna saman,” segir Viktor. “Berglind var með stofu áður en nú í nýju húsnæði að Linnetsstíg byrjuðum við að vinna fyrir alvöru saman árið 2014 og hefur samstarfið gengið alveg ótrúlega vel.”
Óvenju samhent hjón
Á snyrtistofunni Fegurð sjá þau hjónin um sitt hvort hlutverkið: Viktor nuddar og sér um allar líkamsmeðferðir á snyrtistofunni, s.s. Trimform meðferðir og sogæðameðferðir ásamt heilnuddi.
Berglind sér um allar snyrtimeðferðir og snyrti-sérmeðferðir. Hún er bæði með meistararéttindi og kennararéttindi frá HÍ. Í meðferðum stofunnar má meðal annars nefna húðbyltinguna Dermatude og varanlegar vaxmeðmeðferðir. Einnig sér hún um fætur og fótameðferðir.
Þau eru alls fjögur á stofunni – annar snyrtifræðingur og annar nuddari. „Það erum ekki bara við tvö,” segir Berglind og hlær.
Það er óneitanlega sérstakt að hjón vinni saman á vettvangi sem þessum en þau Viktor og Berglind finna aldrei fyrir neinum vandkvæðum í samstarfinu: „Nei, við rífumst aldrei! Við viljum bara alltaf vera sama og það hefur aldrei verið neitt vesen!”
Blaðamann fýsir að vita hvort þetta sé framhaldið, hvort þau ætli að gera þetta það sem eftir er?
„Jú, ætli það ekki bara?” segja þau og líta á hvort annað hamingjusöm. „Við erum auðvitað með margt annað í bígerð annað en stofuna,” segir Berglind og vísar aðallega til listsköpunar hennar og eiginmannsins.
Afar sérstæð aukabúgrein
Þau Berglind og Viktor eru miklir Star Wars aðdáendur og hafa þau m.a. eitt herbergi í húsinu sínu sem undirlagt er af Star Wars fígúrum og dóti.
Það hlýtur þó að vera toppurinn á Star Wars aðdáuninni að í brúðkaupi þeirra var í stað brúðarmarsins spilað lag úr Star Wars! „Við erum ekkert trúuð og vildum ekki prestabrúðkaup. Við giftum okkur heim og þegar Berglind labbaði inn var fyrst brúðarmarsinn spilaður…svo greip bróðir hennar inn í og Star Wars lagið dunaði í staðinn!”
Þetta var afskaplega skemmtilegt og eftirminnilegt brúðkaup. Það var Star Wars þema í brúðkaupinu, servíettur og þegar þau voru gift var lokalag Star Wars spilað undir: „Brúðkaup eiga að vera skemmtileg. Þau eru ekki jarðarfarir!” segja þau og hlæja. Börnin þeirra hafa nú þegar fengið að kynnast áhuga foreldranna og hafa mikinn áhuga. „Þau vita hvað allir heita, við horfum reglulega á myndirnar og þau eiga alla kallana!” segja þau hjónin.
Tónlistin dró þau saman
Berglind fór oft á tónleika með hljómsveitinni Endless Dark án þess að vera að „pæla” í söngvaranum. „Ég fílaði bara tónlistina og var svona „laumuþungarokkari” segir Berglind. „Ég var kannski að djamma með vinkonum mínum, stakk af á tónleika og kom svo aftur.”
Viktor tók eftir Berglindi sem var oft framarlega á tónleikum. Svo sá hann hana kommenta á mynd af einhverjum í hljómsveitinni og þá fóru þau að tala saman á Facebook.
„Við fórum að tala saman og smullum svo svona ofboðslega vel!” segja þau bæði hlæjandi.
Viktors Vintage
Viktor hefur svo allsérstætt áhugamál sem hann dundar sér í heima ásamt öllum hinum störfunum. „Ég panta hráefni frá útlöndum og bý til nýjar fígúrur, svokölluð leikföng handa söfnurum. Það er mikið af fólki í útlöndum sem safnar þessu og pantar frá okkur.”
Þetta myndi sennilega kallast listleikföng, þar sem „nostalgíuleikföngum” er skeytt saman. Viktor notar resin plast til að skeyta saman ýmsum útlimum og öðru ásamt He-Man fígúrum og fleirum.
„Ég held ég sé sá eini sem er að vinna með þetta hér á landi, ég held að ekki sé kúltúr fyrir þessu eins og er. Ég talaði við listsafnara og spurð hvað verið væri að borga fyrir þessar fígúrur og hann nefndi himinháa upphæð og ég fór að hugsa hvernig ég gæti komið minni sköpun á framfæri,” segir Viktor.
Þau Berglind sjá saman um að skapa þessa skemmtilegu hönnun: „Já, Berglind fær dásamlegar hugmyndir að mönnum. Til dæmis kom hún með hugmyndina að „Puffin Man” sem er smá ádeila á „lundabúðirnar“ niðrí bæ. Lundarnir eru löngum orðnir heimsþekktir en við ákváðum að hafa hann massaðan, loðinn og úr plasti með mannslíkama. Þetta er allt He-Man eða Star Wars í grunninn og það er nostalgía í þessu!”
Þau hafa einnig skapað Louis-He-Vouitton manninn. Hann var hálfpartinn He-Man en með Louis Vuitton skikkju (ekta með efni frá gömlu veski sem Berglind átti). Þau seldu þann kall í 24 eintökum eða fleirum. Hráefnið kaupa þau erlendis frá en þessi kall (nafn) stækkaði „fan-base-ið“ þeirra stórkostlega).
Berglind og Viktor eru nú á leið til LA Power Con hátíð í júní. Blaðamaður spyr hvort þau ætli að vera í búningum en þau hafa hugsað þá hugmynd og hafa ákveðið að gera það ekki! Stærsti hópurinn sem kaupir vörur Viktors Vintage eru Bandaríkjamenn og þau giska á að í öðru sæti séu Þjóðverjar. Verslun Viktors fer aðallega fram á Instagram og hægt er að tengjast söfnurum og tilvonandi kaupendum auðveldlega á þann hátt. Mesta vinnan fer þar fram og svo á netverslun Viktors.
Hjónin ætla að halda áfram að vera í Hafnarfirði sem þau elska og finnst besti og geggjaðasti staðurinn. Þau hafa til sölu á snyrtistofunni Janssen vörurnar sem þau mæla mikið með og vilja endilega fá hafnfirskar konur (og bara allar konur) til að kíkja á þau og sjá hvað þau hafa að bjóða!
Eins og áður segir er Snyrtistofan Fegurð til húsa að Linnetsstíg 2 í miðbæ Hafnarfjarðar. Vefsíðan er fegurd.is og er opnunartími milli 9-18. Pantanir eru annað hvort í gegnum Facebooksíðuna þeirra eða í síma 567-6677.