KVENNABLAÐIÐ

Að kenna hundi eða hvolpi að ferðast í bíl

Sif dýralæknir skrifar: Eitt af grunnatriðum hvolpauppeldis á flestum heimilum er að kenna hvolpinum að ferðast í bíl án þess að verða stressaður. Fyrir suma gengur þetta eins og í sögu, hvolpurinn er ánægður með að ferðast með eigandanum og lætur sér vel líka að vera í bílnum. En stundum koma upp vandamál og þá er gott að hafa góð ráð til að takast á við þau.

Í þessarri grein ætla ég að fara yfir grunnatriði varðandi það að kenna hvolpi að ferðast í bíl og hvernig við getum leyst vandamálum tengdum bílferðum eins og bílveiki og gelt.

Oft er fyrsta reynsla hvolpsins af því að vera í bíl fyrsti dagurinn sem hann er tekinn frá mömmu sinni og gotsystkinum og fer í bíl á nýja heimilið. Lítill hvolpur sem hefur aldrei áður komið í bíl og ferðast í fyrsta skipti með ókunnugu fólki getur orðið hræddur og/eða bílveikur. Það er því mikilvægt að reyna fljótlega að venja hvolpinn hægt og rólega við bílinn þannig að hann venjist honum og tengi hann ekki við eitthvað slæmt.

Byrja hægt og rólega

Best er að byrja að fara með hvolpinn út í bíl án þess að ætlunin sé að fara af stað. Takið góðbita eða leikfang með í bílinn og venjið hvolpinn við öryggisbúnaðinn sem þú hefur valið, t.d. búr, bílbelti eða grind. Það er ágætt að sitja í smá stund í bílstjórasætinu og hlusta á útvarpið í nokkrar mínútur áður en þú ferð inn aftur. Ef hvolpurinn á að vera í búri eða bakvið grind aftast í bílnum og verður órólegur geturðu þurft að sitja nálægt honum í fyrstu skiptin og gefa honum góðbita, tala rólega við hann eða leika aðeins við hann. Þegar það er búið að endurtaka þetta í nokkur skipti og hvolpurinn er orðinn rólegur er sniðugt að ræsa vélina og sjá hvernig hvolpurinn bregst við. Stundum er ágætt að láta vélina bara ganga í smá stund og hætta svo æfingunni en ef hvolpurinn er alveg rólegur geturðu keyrt í einn hring og hætt svo. Það er oft gott að leyfa hvolpinum að viðra sig aðeins úti eftir að hafa verið í bílnum í smá stund.

Ef hvolpurinn er bílveikur 

Ef hvolpurinn slefar mikið eða ælir í bílnum er það merki um að hann sé bílveikur og með ógleði. Það er hægt að fá ógleðilyf fyrir hunda sem virkar mjög vel og hjálpar hvolpinum að komast yfir bílveikina. Best er að fá sérstakt ógleðilyf sem ætlað er hundum en það er hægt að kaupa hjá dýralækninum þínum og fá nánari leiðbeiningar þar um skammtastærðir og fleira. Hvolpar með bílveiki þurfa oft líka smá meiri tíma til að venjast lyktinni í bílnum og hreyfingunni þannig að þá er ágætt að taka sér góðan tíma í þjálfunina.

Ef hvolpurinn er hræddur í bílnum

Ef hvolpurinn er órólegur, vælir, geltir, ýlfrar og másar mikið getur verið að hann sé hræddur við bílinn og/eða með bílveiki. Þá er um að gera að bakka aðeins með þjálfunina, fara aftur í að fara bara inn í bíl í nokkrar mínútur án þess að fara neitt og ef til vill prófa ógleðilyf. Annað sem kemur að gagni hjá mörgum er að nota hundaferómón spray. Hundaferómón (Adaptil) er náttúrulegt efni sem dregur úr kvíða hjá hvolpum og hundum. Efnið er hægt að fá sem úða og þá er sniðugt að úða því inn í bílinn nokkrum mínútum áður en hvolpurinn fer inn. Ekki úða efninu beint á hvolpinn eða þegar hann er í bílnum því sumir hvolpar og hundar eru hræddir við úðbrúsann sjálfan.

Ef hvolpurinn geltir þegar eigandinn fer útúr bílnum

Stundum lendir fólk í vandræðum vegna þess að hvolpur eða hundur geltir mjög mikið í bílnum eða þegar eigandinn fer útúr bílnum. Hvolpar og hundar eru félagsverur og þeim líkar ekki að vera einum í bíl. Sumir hundar stressast líka upp við að sjá ókunnugt fólk í kringum bílinn og þeir gelta til að reka ókunnuga fólkið í burtu. Vanalega þegar hundur geltir í bíl þá fer fólk í burtu eða það er að labba framhjá og stoppar ekki. Hundurinn heldur þá að honum hafi tekist að reka viðkomandi í burtu og hegðunin heldur áfram. Til að stoppa þetta þarf að velta ákveðnum hlutum fyrir sér. Ef hundurinn geltir bara á ókunnuga þegar eigandinn er ekki í bílnum er erfitt að koma við þjálfun og betra að einbeita sér að því að breyta umhverfinu. Stundum er möguleiki á því að minnka stress hjá hundinum með því að nota adaptil og láta hundinn hafa eitthvað til að naga, til dæmis hrátt stórgripabein sem er bragðgott og endist lengi.

Einnig getur verið sniðugt að setja eitthvað fyrir rúðurnar þannig að hundurinn sjái ekki fólk sem fer framhjá. Ef þú telur að hundurinn þjáist af aðskilnaðarkvíða þá þarf að vinna í því sérstaklega, líka við aðrar aðstæður en í bílnum. Ef hundurinn er í búri getur verið nóg að draga teppi yfir búrið til að hundurinn geti verið rólegur. Ef hundurinn geltir á ókunnugt fólk líka þegar eigandinn er í bílnum er hægt að nota þjálfun til að draga úr eða fá hundinn til að hætta að gelta. Þetta gerum við með því að leggja bílnum þar sem við vitum að fólk er á ferli, setjast nálægt hundinum (t.d. í aftursæti ef hundurinn er í skottinu) og bíða eftir að einhver labbi framhjá bílnum eða fá einhvern til að leika ókunnugan og nálgast bílinn þegar við erum að þjálfa. Þegar hundurinn byrjar að gelta gerum við ekki neitt og bíðum bara eftir að geltið hætti. Um leið og hundurinn hættir að gelta fær hann verðlaun og rólegt hrós.

Alveg eins og heima þá þýðir ekkert að skamma hundinn eða hrópa á hann, það eykur bara stressið og þar með geltið. Þú gætir þurft að vera með heyrnahlífar þegar þjálfunin byrjar ef það eru mjög mikil læti í hundinum. Ef þú ert með aðstoðarmanneskju er gott að biðja viðkomandi um að bíða fyrir utan bílinn þar til hundurinn hættir að gelta og fær verðlaunin og fara þá í burtu. Þá ertu líka að brjóta upp þá hugsun hjá hundinum að gelti fái manneskjuna til að fara. Flestir hundar átta sig fljótlega á því að þeim mun fyrr sem þeir hætta að gelta þeim mun fyrr fá þeir verðlaunin.

Eitt sem hundaeigendur þurfa að athuga er að skilja hvolp eða hund aldrei eftir einan í lokuðum bíl á sólríkum degi. Hitastigið í bílnum getur hæglega orðið hættulega hátt, jafnvel þótt hitinn úti sé ekki hár. Það eru fjölmörg dæmi um það á Íslandi að hundur hafi fengið hitaslag og það getur verið lífshættulegt.

Ef þú hefur áhuga á að fá vikulega send fleiri góð ráð um hundauppeldi og skemmtilegt efni sem tengist gæludýrum getur þú skráð þig á póstlistann minn hér.

___

Höfundur Sif Traustadóttir, dýralæknir og atferlisfræðingur

Sif er dýralæknir að mennt en hefur lengi haft brennandi áhuga á atferlisfræði dýra og sótti sér sérmenntun í faginu. Hægt er að skrá sig á póstlista hjá henni með því að smella hér og fá vikulega sent fræðsluefni og fréttir um gæludýr. Sif býr á Ítalíu með hundinum sínum, henni Sunnu og þær er hægt að finna á snapchat undir heitinu drsif.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!