Jenna Kristín Jensdóttir hefur alltaf verið mjög grönn og hefur hún orðið fyrir fordómum þess vegna alla tíð og verður enn. Hún fékk hugmyndina að lokaverkefni sínu vegna þess og skilaði lokaverkefninu í janúar á þessu ári. Heitir verkefnið Birtingarmynd útlitsdýrkunar og staðalímynda í lífsstílsgreinum á íslenskum netmiðlum og ákváðum við að taka Jennu tali því við viljum frekar stuðla að jákvæðri og heilbrigðri líkamsmynd kvenna en hitt!
Telur Jenna það mikilvægt að allir, og þá sérstaklega fréttamiðlar, sjái þessa neikvæðu þróun og átti sig á hversu alvarleg hún getur verið.
Fitufordómar og “slut-shaming” o.s.frv. Hvaða birtingarmynd hefur þetta í fjölmiðlum og hvaða áhrif telur þú að umtal, t.d. í kommentakerfum geti haft áhrif á fólk?
Þetta hefur gríðarleg áhrif og sérstaklega fyrir fólk með lélega sjálfsmynd. Kommentakerfið er eitthvað sem ég tel vera mjög slæmt þegar það kemur að lífstílgreinum. Það getur verið nóg að sjá grein þar sem er talað niður til manneskju en ef þu tengir við manneskjuna eins og t.d. ert í sömu líkamsþyngd þá getur það verið mun erfiðara og að sjá kanski fólk sem þú þekkir eða kannast við rakka greinina niður getur haft mjög slæm áhrif og tel ég því miður að fólk geri sér ekki grein fyrir því áður en það notar kommentakerfið.
Kaflar í ritgerðinni þinni fjalla um vöðva-og líkamsræktarfíkn, átraskanir o.fl. Hvað er mikilvægast í því að sporna við útlitsdýrkun og að koma í veg fyrir að fólk fari á þessa hættubraut?
Það sem ég myndi telja mikilvægast er að nýta lífsstílsgreinarnar í að tala um kosti sem fólk hefur í stað þess að hjálpa einstaklingum sem lesa þessar greinar að finna meira að sínum líkama.
Hvaða áhrif hafa samfélagsmiðlar/vefsíðurnar sem þú tókst fyrir á sjálfsmynd fólks?
Fjölmiðlar geta oft á tíðum haft mikil áhrif á samfélagið með efni sem þeir birta auk þess sem þeir eru einnig virkir þátttakendur á samfélagsmiðlum. Þegar þeir setja upp frétt af þekktri manneskju þá hafa þeir mikil áhrif á það hvernig hún birtist lesendum fyrir sjónir og hvort að umfjöllunin sé góð eða slæm. Allir fimm fréttamiðlarnir settu reglulega inn lífsstílsgreinar og í flestum tilvikum settu miðlarnir tengla af þeim fréttum á fésbókina.
Mikið af þeim lífsstílsgreinum sem birtast í fréttamiðlum geta talist skaðlegar ungmennum og þá sérstaklega þeim ungmennum sem hafa lélega sjálfsmynd þar sem þau eru mótttækilegri fyrir þeirri gagnrýni sem lífsstílsgreinarnar innihalda. Með tilkomu samskiptamiðla þá eru lífsstílsgreinar mun fljótari að berast á milli manna. konur hafa ávallt orðið fyrir áhrifum kvenna í óraunhæfum stærðum hvort sem það er í tímaritum, sjónvarpi eða í kvikmyndum. En með tilkomu samfélagsmiðla eins og fésbókarinnar þá virðast konur velta sér meira upp úr félagslegum samanburði við jafnaldra sína sem leiðir til frekari áhuga á að vera grannur.
Einnig mátti líka sjá að þeir sem voru tilfinningalega tengdir fésbókinni voru frekar með lélegt sjálfsálit og höfðu áhyggjur af útliti sínu til samanburðar við þá sem voru vinamargir sem virtust vera með mun betra sjálfsálit.
Telur þú að lífsstílsgreinar kunni að hafa skaðleg áhrif á ungmenni á viðkvæmum aldri?
Fjölmiðlar eru stór partur af daglegu lífi fólks og fyrir einstakling með lélega sjálfsmynd þá geta fjölmiðlar spilað stórt hlutverk í að ýta undir óraunhæfa sýn á raunveruleikann og eru þeir oft á tíðum áhrifavaldar og fyrirmyndir. Sérstaklega eftir að allir fréttamiðlarnir komu á facebook þá eru lífstílsgreinarnar mun fljótari að berast á milli manna og erfiðara verður fyrir ungmenni sem eru viðkvæm fyrir að líta fram hjá þeim.
Hví/hví ekki?
Ungmenni geta verið mjög duglega að líta niður á sjálfan sig og einblína á galla sína og þegar það skoðar mikið af greinum sem fjalla um hinn ”fullkomna” líkama þá er það ekki að hjálpa þeim.
Er einhver leið að sporna við þessari þróun eða telur þú að þessi “áróður” sé of inngróinn í huga fólks að erfitt sé að snúa þróuninni við?
Það er allt hægt en svo er bara spurning hvort að það sé gert eitthvað í því 😉
Þyngd og útlit – verður þetta einhverntíma “úrelt” eða að við hættum að nenna að pæla í þessu?
Ég held að það sé bara innbyggt í okkur að vera ávallt að hugsa um útlit okkar en svo er bara undir okkur komið að kenna komandi kynslóð að meta sinn líkama eins og hann er
Nú er fólk stöðugt að fitna – ef við tölum bara hreint út. BMI stuðullinn er hálf-úreltur, fólk er orðið svo feitt í þessum vestræna heimi.
Að mínu mati tel ég BMI stuðulinn ekki vera rétti staðallinn til að fara eftir, fólk kemur í öllum stærðum og gerðum og þú getur verið í yfirþyngd samkvæmt BMI stuðlinum þó að þú sért í flottu formi.