KVENNABLAÐIÐ

Af hverju getum við ekki sagt orðið PÍKA upphátt?

Sykur hitti þrjár dásamlegar leikkonur á kaffihúsi á dögunum. Þær vilja breyta heiminum og fá fólk til að segja PÍKA upphátt…án skammar.

Píkusögur voru settar upp fyrir 20 árum síðan í Borgarleikhúsinu. Í dag leika þær Vanessa Andrea Terrazaz, Guðrún Bjarnadóttir, Sigríður Björk Sigurðardóttir, Monika Ewa Orlowska og Jóhanna Lind Þrastardóttir verkið í Gamla Bíói undir leikstjórn Guðrúnar Helgu Sváfnisdóttur.

Sýningin sem fer fram 4. apríl klukkan 20:00 er styrktarsýning og rennur allur ágóði til Kvennaathvarfsins. Leikhópurinn hefur einu sinni sett upp verkið áður og var það í september síðastliðnum. Rann þá allur ágóði til Stígamóta.

 

Píkusögur er verk eftir bandaríska leikskáldið Eve Ensler og hefur það verið kallað mikilvægasta og pólitískasta leikverk síðari ára. Óhætt er að segja að það hafi hreyft við áhorfendum þegar það var frumsýnt árið 1996. Verkið samanstendur af einræðum kvenna sem allar hafa sögur að segja um píkur, ýmist sínar eigin eða annarra kvenna píkur. Sumar skoplegar og stundum drepfyndnar. Aðrar eru nístandi dramatískar og sorglegar.

Eftir velgengni leikverksins stofnaði höfundurinn Eve Ensler, ásamt fleirum, V-dags samtökin sem hafa það að markmiði að vinna gegn ofbeldi gegn konum.

Allur ágóði af Píkusögum mun renna til Kvennaathvarfsins.

Píka er líkamshlutinn sem við nefnum sjaldnast upphátt og helst ekki sínu rétta nafni. Hvers vegna ekki að byrja núna?

Miðasala HÉR

Ingunn Ásdísardóttir þýddi verkið sem þær stöllur styðjast við núna.

Leikkonan Monika var kasólétt síðast þegar þær sýndu verkið. Nú hefur hún eignast drenginn sinn sem er að verða 5 mánaða. Aðspurð segist hún sennilega flytja sína einræðu á annan hátt – frá því að vera með barni og svo að eiga barn. Þetta hlýtur að vera athyglisvert fyrir unga móður. Flutti hún einræðu um fæðingu og lofsamar hana.

Stelpurnar vilja fara víðar með Píkusögur enda ekki vanþörf á að fræða landann um píkuna. Viljum við samt benda fólki á að sýningin fjallar um allt sem píkan lendir í….bæði gott og slæmt þannig börn undir 15 ára aldri ættu ekki að sjá sýninguna.

 

sogur

Verkið inniheldur 10 einræður og reiknast það svo til að ein leikkona fari með tvær einræður í verkinu. Textarnir gæða píkuna lífi og telja þær ekki þörf á að fara í gervi til að sýna: „Textarnir sjá um það sjálfir. Ef þeir eru nógu sterkir teikna þeir “fötin” á leikkonuna,” segir Monika.

Monika hyggst búa til 30 daga áskorun sem hún vill nefna: Frelsum píkuna! Hvetur hún fólk til að nota orðið “píka” í 30 daga til að afnema þá furðulegu leynd af píkunni. „Við erum með allskonar byltingar í gangi….Beauty Tips byltingin, Ég er ekki tabú….við þurfum aðra byltingu til að aflétta skömm af orðinu „píka.” Að fólk geti sagt „typpi” án þess að blikna en að „píka” sé eitthvað of mikið….þessu þurfum við að breyta!

 

Stelpurnar segja: „Konur munu breyta þessu, það er engin spurning. Íslenskar konur eru þær frjálslegustu í heiminum –  sofa hjá þeim sem þeim sýnist og viljum við taka þetta alla leið.“

 

Af hverju skömmumst við okkar fyrir að fá lánaðan túrtappa?

Af hverju eru kvennasjúkdómar ekki jafn mikið rannsakaðir og þeir sem herja á karlmenn?

 

Svona breytum við þessu stelpur! Með umræðu….með því að deila þessari frétt og mæta í Gamla bíó annað kvöld!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!