Sif dýralæknir skrifar: Til að geta átt betri samskipti við hundinn okkar er mikilvægt að reyna að skilja þeirra mál, líkamstjáninguna eða það sem við köllum merkjamál. Í þessarri grein langar mig til að fjalla um merkjamál tengt streitu. Mörg atferlisvandamál eiga bakgrunn sinn í kvíða og streitu og það er algengt að eigendur eigi erfitt með að átta sig á því hvort hundurinn sé að sýna merki um streitu. Sum þessarra merkja eru augljós fyrir eigendum en önnur alls ekki.
Streita er hluti af eðlilegum varnarviðbrögðum líkamans bæði hjá fólki og öðrum dýrum. Streituviðbrögð stjórnast af ósjálfráða taugakerfinu og gera dýrum kleift að vera á varðbergi og bregðast hratt við aðsteðjandi hættu. Skammvinn streituviðbrögð eru því fullkomlega eðlileg og geta bjargað dýri frá hættulegum aðstæðum. Dýr sem búa í flóknum félagslegum kerfum eins og hundar hafa líka þróað með sér allskonar líkamstjáningu sem gefur til kynna streitu eða undirgefni til annarra einstaklinga í hópnum og dregur þannig úr líkum á átökum.
Ef upp kemur ágreiningur byrja samskipti vanalega á allskonar merkjamáli þar sem einstaklingar takast á og/eða reyna að sættast. Ef ekki verður komið á sættum verða viðbrögðin og merkin sífellt ákafari og á endanum getur soðið upp úr og átök orðið. Hvort það gerist fer mikið eftir því um hvað ágreiningurinn snérist (t.d. hvort það var matur eða gamall og óáhugaverður bolti sem rifist var um) og hversu mikil verðmæti eru í húfi þá og þegar (til dæmis hvort hundur er svangur eða þreyttur). Það er mikill misskilningur að goggunarröð hjá hundum í hópum sé alltaf föst og að einn aðili sé alltaf ráðandi yfir öðrum, heldur fer það allt eftir aðstæðum hverju sinni hver verður ofaná ef til ágreinings kemur. Hundar og önnur dýr sem lifa í hópum forðast alltaf átök þar sem átök geta leitt til áverka sem skerða getu til að afla sér fæðu og lifa af.
Langvarandi streita getur vegar verið mjög skaðleg fyrir hunda, ekki síður en fólk. Kvíði er ástand þar sem streita og hræðsla heldur áfram innra með einstaklingi jafnvel þótt enginn streituvaldur sé til staðar í umhverfinu og engin ógn sjáanleg. Einstaklingar hafa mjög misjafna tilhneigingu til að stressast upp. Hjá hundum eru kvendýr almennt örlítið meira stressuð en karldýr, það er einnig munur á milli hundategunda og einstaklingsmunur innan tegunda. Uppeldi og umhverfi hefur einnig mikil áhrif á það hvort einstaklingur sé stressaður að eðlisfari eða ekki.
Nokkur merki um streitu hjá hundum:
Geispa og sleikja útum
Hundar geispa þegar þeir eru þreyttir en oftast er geispi merki um að þeir séu pínulítið stressaðir. Geispinu fylgir oft smjatt og að sleikja útum/sleikja á sér trýnið. Þannig gefa þeir til kynna að þeir séu óöruggir í aðstæðunum. Hér eru tvær myndir af Sunnu að sýna dæmigerð, væg streitueinkenni.
Másar
Hundar kæla sig með því að anda í gegnum munninn en þegar þeir eru stressaðir þá mása þeir með opinn munn og víð munnvik. Oft stoppa þeir inn á milli og læsa saman kjálkunum.
Lítur undan
Hundur sem er hræddur eða óöruggur við eitthvað, til dæmis ókunnuga manneskju eða hund, lítur oft undan en gýtur augunum á viðkomandi til að sjá hvað hann/hún gerir næst. Þá er oft hægt að sjá hvítuna í augunum og er stundum kallað “hvalaaugu” (whale eyes á ensku). Oft myndast hrukkur í andlitinu, bæði á kinnum og á milli augna. Hér fyrir neðan eru tvær myndir af Sunnu minni að sýna þessi merki, á vinstri myndinni sést að hún horfir ekki á ókunnugu manneskjuna sem heldur á henni og sést í hvítuna í augunum (hvalaaugu) en á hægri myndinni lítur hún undan starandi augnaráði.
Hárlos
Mikið hárlos er oft merki um streitu. Þú hefur kannski tekið eftir því að hundurinn fari óvanalega mikið úr hárunum þegar hann fer til dýralæknis en það er oft eins og þeir séu hreinlega að losa sig við feldinn á borðið hjá dýralækninum. Ef hundurinn þinn er með óvenju mikið langvarandi hárlos sem ekki finnst nein skýring á og lagast ekki við fóðurbreytingu skaltu velta því fyrir þér hvort það gæti verið útaf streitu.
Lág líkamsstaða, skott á milli lappanna
Flestir þekkja þessi merki um hræðslu eða óöryggi hjá hundum, þeir beygja sig niður og setja skottið á milli lappanna. Stundum standa þeir kyrrir í smá stund á meðan þeir eru að ákveða hvort þeir eigi að færa sig í burtu eða snúast til varnar (fight or flight response). Á myndinni sést Sunna færa sig undan aðstæðum sem hún var óörugg í, takið eftir að höfuðið er lágt niðri og eyrun lafandi, skottið sömuleiðis í lágri stöðu.
Færir sig undan
Ef það virkar ekki að sleikja útum og geispa þá reynir hundurinn vanalega næst að færa sig undan streituvaldinum. Stundum ber það ekki árangur, t.d. ef hundurinn er fastur í taumi eða streituvaldurinn (oft barn eða manneskja) hundsar streitumerki og kemur nær.
Mikið gelt
Hundar sem gelta mjög mikið við hvert hljóð sem þeir heyra eða alltaf þegar þeir sjá eitthvað nýtt eru oft með undirliggjandi streitu.
Á erfitt með að einbeita sér
Hundar sem eru stressaðir eiga erfiðara með að einbeita sér og að læra nýja hluti. Þess vegna er best að þjálfa nýjar skipanir í kunnuglegu umhverfi.
Þetta er ekki tæmandi listi um öll streitumerki en gefur þér vonandi aukinn skilning á líkamstjáningu hundsins þíns. Auðvitað er ekki ástæða til að grípa til ráðstafana í hvert skipti sem hundurinn þinn sýnir merki um streitu, þar sem skammvinn streita er ekki hættuleg og þessi líkamstjáning er eðlilegur hluti af tjáningu hundsins. Flestar myndirnar í greininni að ofan tók ég til dæmis af Sunnu og fékk hana til að sýna öll þessi streitumerki bara með því að stara á hana, hegðun sem þykir eðlileg hjá fólki en er mjög ágeng gagnvart hundum. Þetta varði auðvitað bara í skamma stund og hún hlýtur engan skaða af því. Það er hins vegar mikilvægt að þekkja einkenni streitu hjá hundum og sjá hvenær streitan er mikil því þá getum við gert eitthvað til að hjálpa þeim að minnka streituna og jafnvel komið í veg fyrir slys.
Hundur sem er hræddur byrjar á því að sýna allskonar kvíðamerki áður en hann fer að sýna merki um yfirvofandi árás (glefs eða bit) en algeng ástæða þess að hundur glefsar í manneskju er að manneskjan hundsar öll viðvörunarmerki sem hundurinn gefur og heldur áfram með áreiti þar til hundurinn sér enga aðra leið til að sleppa úr aðstæðunum en að bíta frá sér.
Ef þú vilt læra meira um atferli hunda þá getur þú skráð þig á póstlistann hjá mér og fengið vikulegt fréttabréf með bæði fróðleik, skemmtifréttum og tilboðum.
Höfundur Sif Traustadóttir, dýralæknir og atferlisfræðingur
Sif er dýralæknir að mennt en hefur lengi haft brennandi áhuga á atferlisfræði dýra og sótti sér sérmenntun í faginu. Hægt er að skrá sig á póstlista hjá henni með því að smella hér og fá vikulega sent fræðsluefni og fréttir um gæludýr. Sif býr á Ítalíu með hundinum sínum, henni Sunnu og þær er hægt að finna á snapchat undir heitinu drsif.