KVENNABLAÐIÐ

Hvað veldur höfuðverkjum?

Í lang flestum tilvikum höfuðverkja má skipta í tvo flokka eftir orsökum. Algengastur er spennuhöfuðverkur, sem 70% alls fólks fær einhvern tíma á ævinni. Hann stafar oftast af röngum vinnustellingum, álagi eða streitu. Hann má lækna eða lina með því að breyta eða fjarlægja orsakavaldinn. Hin tegundin er mígreni, sem þarfnast yfirleitt aðstoðar læknis. Í langflestum tilvikum er höfuðverkur einkenni góðkynja krankleika en hann getur gefið vísbendingar um alvarlega sjúkdóma.

Eftirtalin einkenni þarfnast læknisskoðunar:

Leitið læknis eins fljótt og auðið er: Ákafur höfuðverkur, sem kemur skyndilega. Höfuðverkur, sem hefur í för með sér meðvitundarskerðingu, ógleði, uppköst, háan hita, hnakkastífni, krampa, sjóntruflanir og skerta tilfinningu eða stjórn á útlimum.

Leitið læknis við fyrstu hentugleika: Stöðugur höfuðverkur, sem ekki dregur úr. Höfuðverkur, sem hefur í för með sér minnistruflanir, einbeitingarleysi, þreytu og geðrænar breytingar.

Hvernig greinir læknirinn höfuðverk?

Nákvæm sjúkrasaga er grunnatriði greiningar en einnig er framkvæmd taugaskoðun og mældur blóðrþýstingur svo það helsta sé nefnt. Læknir tekur svo  afstöðu til þess hvort þörf sé á frekari rannsóknum og hvaða meðferð sé rétt byggt á þessum athugunum..

Hvað er til ráða?

Hafi læknirinn lokið rannsókn án þess að finna beina og alvarlega orsök
fyrir höfuðverknum er hægt að gera eftirfarandi til þess að fyrirbyggja að höfuðverkur komi aftur:

  • Forðast ofneyslu áfengis og tóbaks.
  • Slaka á  öxlum, jafnvel fá nudd.
  • Skipta oft um vinnustellingar, gæta vel að réttum vinnustellingum við störf.
  • Nota vinnuhlé til að gera léttar slökunaræfingar.
  • Gæta vel að svefni.
  • Borða reglulega og forðast sykurfall.
  • Reyna að forðast streitu.

Hver er rétta meðferðin og hvaða lyf er hægt að gefa?

Það fer algerlega eftir því hvað orsakar höfuðverkinn. Við vægum höfuðverk má nota verkjastillandi lyf á borð við parasetamól og bólgueyðandi lyf ef grunur leikur á vöðvabólgu.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!