Margir þekkja það að vera ýmist í ofáti eða megrun, árum og jafnvel áratugum saman, en aukakílóin koma jafnharðan aftur og jafnvel gott betur.
Það bitnar óneitanlega á lífsgæðunum þegar einstaklingur festist í stöðugum hugsunum um mat og megranir. Rétt eins og alkóhólismi og aðrar fíknir, hefur matarfíkn mikil áhrif á fjölskyldu fíkilsins. Sumir átfíklar verða mjög feitir en aðrir ná að halda sér grönnum með ýmsum „vafasömum” aðferðum s.s. ofurlíkamsrækt, svelti eða uppköstum. Flestir líta á anorexíu og búlimíu sem sjúkdóma, en þó eru enn margir sem ekki líta á ofátsfíkn sem sjúkdóm. Þó eru einkennin nánast hin sömu og mjög algengt er að átfíklar séu á tímabilum haldnir búlimíu og jafnvel anorexíu.
„Orðabókarskilgreiningin á sjúkdómi er sú að það sé „ástand lifandi dýrs eða plöntu eða hluta hennar sem skaðar mikilvæga virkni”. Ég held að flest okkar geti verið sammála um að ofát skaði virkni okkar verulega. Við vitum öll hvað mikil offita getur haft alvarleg áhrif á heilsu okkar og mörg okkar hafa fundið fyrir því. Reyndar hafa flestir átfíklar heyrt varnaðarorð læknisins: ,,Ef þú grennist ekki færðu of háan blóðþrýsting, hjartveiki, verki í liði, bakverki…” Mörg okkar voru farin að finna fyrir nokkrum þessara einkenna.
Tilfinningalíf okkar skaðaðist líka vegna ofátsins. Það var geðveikin sem fólst í því að hugsa um fátt annað en mat og þyngd og svo vonbrigðin sem við urðum fyrir þegar okkur tókst ekki að grennast. Það var ekki nóg með að við brutum okkur niður heldur máttum við sæta útskúfun í þjóðfélagi sem óttast fitu eins og pláguna. Við máttum þola að á okkur væri starað, uppnefni, háðsglósur og erfiðleika við að fá vinnu og allt íþyngdi það okkur ofan á alla okkar líkamsþyngd. Sum okkar eru hrædd við orðið sjúkdómur. Maður heldur að það sé eitthvað sem maður getur smitast af. Mörg okkar hafa kosið að kalla vanda okkar öðrum nöfnum.
En orðavalið skiptir ekki máli. Það skiptir ekki máli hvort við köllum hömlulaust ofát sjúkdóm, vandamál, átröskun eða hvað sem er. Staðreyndin er sú að þetta er alvarlegt mál sem hefur valdið okkur öllum ómældum erfiðleikum og sársauka.
En hvað er þessi sjúkdómur sem kallast átfíkn? Hvernig er hægt að meðhöndla hann? Í OA lærði ég að hömlulaust ofát er átröskun sem er lævís, óútreiknanleg og voldug. Þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á líkamlega, andlega og tilfinningalega heilsu fólks. Að öðru leyti er ekki til nein opinber skilgreining af hálfu OA-samtakanna. Samtökin láta vísindamönnunum það eftir og huga þess í stað að því að hjálpa fórnarlömbunum að ná bata. Einn átfíkillinn orðaði þetta svona: ,,Það skiptir ekki máli hvort ég er með gölluð gen eða hvort ég hata foreldra mína. Það sem skiptir máli er að ég er með átröskun sem getur lagt líf mitt í rúst. Ég verð að takast á við hana þar sem enn er ekki til nein lækning.”
Eitt vitum við þó og það er að við getum hætt að kenna öðrum um ofát okkar. Við verðum að bera ábyrgð á eigin bata. Þegar allt kemur til alls vorum það við sem tókum upp matinn og lögðum hann okkur til munns. Það var enginn sem batt okkur niður og neyddi mat ofan í okkur.”
Úr bókinni „Matarfíkn – leið til bata” eftir Jim A.
Reynslusaga matarfíkils
,,Komið þið sæl, ég heiti F… og er hömlulaus ofæta!”
Þessi setning er orðin hluti af mér, og einhvern vegin fannst mér viðeigandi að byrja þessa frásögn svona.
Ég er 27 ára gömul og hef verið ofæta svona nokkurn veginn síðan ég man eftir mér. Matur hefur alltaf verið mín leið til að verðlauna mig og/eða refsa mér. 12 ára fór ég fyrst í „megrun“ þar sem ég var vigtuð einu sinni í viku og fékk klapp ef ég léttist. Síðan hef ég annað hvort verið á leiðinni í megrun, í megrun eða ný hætt í megrun. Ég hef lést og þyngst um fleiri hundruð kíló á minni stuttu ævi. Fyrir u.þ.b. 3 árum komst ég á botninn, ég var nýbúin að eignast barn og fannst að ég ætti að vera hamingjusöm. En ég var það alls ekki. Ég var 125 kg og át allan sólarhringinn, skyndibitamat og sælgæti. Dofinn, sem ég hlaut af því að éta og éta, var mín leið til að forðast það að finna fyrir nokkru. Ég var með með barnið mitt á brjósti og hafði stöðugt samviskubit yfir því að næra barnið mitt á rusli en var algjörlega vanmáttug til að gera nokkuð í því. Í september 1998 fór ég á minn fyrsta OA-fund og fann strax að þar átti ég heima. Þarna var fólk sem vissi hvað ég var að tala um og hafði sömu eða svipaða sögu að segja. Það tók mig hins vegar heilt ár að koma aftur, því mér fannst svo sárt að þurfa að viðurkenna að ég ætti við sjúkdóm að stríða og fannst að ég ætti að geta gert þetta sjálf, í eigin mætti. En eftir árangurslitlar tilraunir til að „grenna mig“ og fara í megrun gafst ég hreinlega upp. Ég fór að stunda OA-fundi og kynntist þar yndislegu fólki sem ég lít á í dag sem trúnaðarvini mína. Í dag hef ég verið í fráhaldi frá hömlulausu ofáti í 15 mánuði og hef misst rúm 30 kg og þyngdin er enn á niðurleið. En minn andlegi bati er á uppleið og það er það sem skiptir öllu máli fyrir mig, ég hef unnið sporin 12 eins og AA byggir þau upp og hef þannig getað unnið í mínum málum og sigrast á vandamálunum. Í dag stunda ég mína fundi reglulega og get tekist á við lífið með hjálp þeirra. Ég á OA samtökunum því að þakka að ég er á lífi í dag!
Takk fyrir.
OA-samtökin
OA-samtökin (Overeaters Anonymous) eru byggð á sama grunni og AA-samtökin (Alcoholics Anonymous). Hinu svokallaða tólf spora kerfi, sem reynist jafn vel við matarfíkn og við áfengis- og vímuefnafíkn. OA er félagsskapur karla og kvenna af öllum sviðum þjóðfélagsins sem hittast til að finna lausn á sameiginlegum vanda – hömlulausu ofáti. Eina skilyrðið fyrir þátttöku er löngun til að hætta þessu hömlulausa ofáti. OA eru alþjóðleg sjálfshjálparsamtök sem starfa um heim allan. OA félagar eru hvattir til að leita aðstoðar fagfólks varðandi ráðleggingar um fæðuval sem og vegna líkamlegra og tilfinningalegra kvilla.
Nánari upplýsingar um OA-samtökin er að finna á: www.oa.is
Greinin birtist fyrst á doktor.is þar sem þú getur fengið allan fróðleik um heilsu, lyf og fleira