Piparmey, piparkerling, piparjónka eru orð sem við heyrum ekki lengur. Ástæðan er sú að það er nákvæmlega ekkert að því að vera einhleyp kona. Árið 1986 birtist umdeild grein í Newsweek þar sem því var lýst yfir að líkur einhleyprar konu yfir fertugt að ná sér í eiginmann væru minni en að hún væri myrt af hryðjuverkamanni. Hræðileg samlíking en engu að síður fróðleg. Viljandi eða ekki var Newsweek að lýsa því yfir að líf einhleypra kvenna væri dauðadómur – sambærilegt við að vera myrtur.
Nýútgefin bók (sem nú þegar er komin á metsölulista) eftir Rebeccu Traister: All the Single Ladies: Unmarried Women and the Rise of an Independent Nation hefur vakið verðskuldaða athygli. Rebecca hefur rannsakað niður í kjölinn einhleypar konur og hvaða áhrif þær eru að hafa – að breyta landslagi menningar og samfélags. Bókin skiptist í rannsókn hennar og sagnfræðihluta.
Sagt er frá konum frá 17 öld, þar sem litið var á ógiftar konur yfir 23 ára sem „piparkerlingar” og voru þær tortryggðar – það hlaut nú eitthvað að vera að! – til 21. aldarinnar þar sem Beyoncé söng um„All the Single Ladies” og fagnaði frelsinu og þeim konum sem falla ekki í hið hefðbundna hjónabands/sambandsform og fagna því – eiga sitt eigið sjálfstæða líf óháðar öðrum.
Rebecca hóf skrifin árið 2010, ári eftir að hlutfall giftra kvenna í Bandaríkjunum féll undir 50 prósentin – í fyrsta skipti í sögunni. Konur voru líka að gifta sig seinna en áður, um 46 prósent fólks yngra en 34 ára var ógift. Einhleypar konur eru nú fleiri en giftar í Bandaríkjunum, um 53% kvenna.
Rebecca hefur sagt að hún vilji koma ákveðnum boðskap á framfæri með bókinni og segja sögu kynslóða kvenna og hvernig fjölskylduformin hafa verið í gegnum tíðna og hvernig samfélagið sá þessar ógiftu. Svo beinir hún sjónum að 21.öldinni: Nútímanum. Konur eru í auknum mæli að fresta eða sleppa því að gifta sig og það er að breyta landslagi vestrænna þjóða, allt frá stjórnmálum til barneigna.
Nú þegar hafa einhleypu konurnar haft gríðarleg áhrif, meðal annars áttu þær stóran þátt í að koma Barack Obama í Hvíta húsið. Uppundir 67% ógiftra kvenna kusu hann á meðan giftar konur kusu Mitt Romney.
„Við erum nýtt afl með nýrri tegund kvenna, og ef við eigum að vaxa og dafna þarf að gefa okkur pláss. Það þarf að gera breytingar á hagkerfinu og samfélaginu öllu til að mæta okkar þörfum – að breyta þeirri hugsun að kona sé einskis virði eða ekki samþykkt sé hún ekki gift,” segir Rebecca.
Fresti konur því að ganga í hjónaband snemma geta þær einnig notið lífsins betur, segir í bókinni. Þær fá þannig tíma til að elta draumana sína, mennta sig, koma fjárhagslega undir sig fótunum, stunda kynlíf með fleiri en einum og byggja upp dýrmæt vináttusambönd við vinkonur sínar.
Í bókinni er lítið dvalið við ókosti þess að vera ógift kona og er hún sem ferskur andblær inn í nýja og spennandi tíma. Vestrænar konur geta nú gift sig þegar þær vilja, búa eins og þeim sýnist. Rebecca segir að lokum:„Byltingin felst í fleiri tækifærum…einhleypa lífið er ekki kvöð, heldur þvert á móti: Frelsun.”
Heimildir: Daily Beast/Women of the World og Guardian