Ingibjörg Ýr skrifar um íslenskar hefndarklámssíður: „Þar sem þessi ógeðs-síða er að poppa upp aftur á netinu langar mig að segja nokkur orð. Þetta er líka í tilefni þess að hér er verið að biðja um nektarmyndir af mér, sem þó ekki eru til – en góð tilraun hjá viðkomandi samt sem áður.“
Frá því að ég var í grunnskóla hef ég þekkt stelpur sem hafa orðið fyrir barðinu á hefndarklámi og myndum af þeim dreift í leyfisleysi. Stelpur sem hafa lent í þessu hafa alltaf bókstaflega fengið ALLA skömmina:
„Af hverju voru þær að taka þessar myndir?“
„Þetta er bara athyglissýki“
„Þær hefðu bara ekki átt að taka þessar myndir ef þær vildu ekki að þær myndu dreifast“
Einstaklingurinn sem dreifði þeim slapp samt alveg, það pældi enginn í honum – „Þær hefðu bara átt að sleppa þessu ef þær vildu ekki að fólk myndi sjá þetta“ Þessi lógík er svipuð og: „Ef þú vilt ekki vera rændur ekki eiga neitt!“
Þetta ógeðslega victim blaming hugarfar er ennþá við völd, og stelpur eru enn fórnalömb hefndarkláms.
(Ekki misskilja samt, strákar eru líka fórnalömb þess en á þessari síðu sem um er að ræða eru stelpur í algjörum meirihluta)
En af hverju má ég, og allir, ekki gera nákvæmlega það sem mig langar til að gera með MINN líkama? Af hverju yrði hlegið að MÉR og ÉG niðurlægð ef nektarmynd af mér færi á netið? Af hverju á ÉG að skammast mín? Af hverju fær einstaklingurinn sem BRAUT á MÉR enga skömm?
Um leið og maður skoðar þessar myndir er maður þátttakandi. Um leið og maður sendir þær áfram er maður þátttakandi og gerandi.
Hættum að skoða þessar síður, hættum að halda þeim lifandi, hættum að body-og slutshame-a stelpur og færum skömmina á réttan stað.
Færsla birt með góðfúslegu leyfi Ingibjargar Ýrar Smáradóttur