Margrét Nilsdóttir listmálari skrifar:„Núna eru rétt um fjögur ár síðan að ég horfðist í augu við kynvitund mína og hætti að afneita því hvernig ég er. Ég ætla ekki að reyna að lýsa hræðslunni og sjálfsfyrirlitningunni sem ég glímdi við í felum öll þessi ár þar á undan en ég ætla að reyna að lýsa léttinum sem fylgdi því að uppgötva loksins að ég var ekki ein og það var til fólk sem leið svipað og mér. Mér leið ekki lengur eins og geimveru í mannbúningi, stöðugt að reyna að fullkomna leik minn án þess að geta lesið handritið. Það magnaðasta var svo að uppgötva að til er fólk sem þiggur ást eins og ég get gefið hana og getur gefið mér ást eins og ég get móttekið hana. Sú sannfæring mín að ég væri óhæf til að elska var loks brotin á bak aftur og ég áræddi aftur að reyna að slá á hjartans strengi, óæfð og hikandi en allavega ekki með þá alla rammfalska.
Ég er enn hrædd en núna er ég ekki lengur hrædd við sjálfa mig, heldur eingöngu fordóma annara. Ég neita að láta hræðsluna stjórna lífi mínu og bít á jaxlinn og skrifa þennan pistil, þó að ég viti að margir sem lesa hann yfir muni dæma mig hart og óvægilega. Ég er BDSM-hneigð. Ég er eins og ég er og elska eins og ég elska. Mín leið til að mynda djúpa tengingu við aðra manneskju er í margra augum undarleg en hún virkar fyrir mig. Þessi hluti af mér er eins og gefur að skilja mjög persónulegur og fólk þarf ekki að óttast að ég troði þessari hlið á mér framan í það eða geri eitthvað „afbrigðilegt“ þegar ég er úti á meðal fólks. Ef hinsvegar einhver er forvitinn og vill ræða þetta við mig er ég meira en fús til þess. Ranghugmyndir um BDSM eru sífellt matreiddar og bornar fram með tómatsósu dægurmenningarinnar og það er líklegt að þú vitir mun minna um BDSM en þú heldur.
Á laugardaginn halda Samtökin ’78 aðalfund. Á þeim fundi verður gengið til atkvæða um hvort við sem erum BDSM-hneigð fáum skjól undir regnbogaregnhlífinni góðu. Þegar það ferli alltsaman fór af stað var ég mjög bjartsýn um að okkur yrði tekið opnum örmum. Mér fannst það einhvernveginn svo augljóslega jákvætt fyrir alla að við sem ekki pössum í staðlaða kassann stæðum saman, að mér var eiginlega fyrirmunað að sjá að nokkur gæti haft eitthvað á móti því… tja, nema kannski Gylfi Ægis, því hann er á móti flestu sem ekki telst hefðbundið sjúddirarirei.
Það hefur því miður skyggt nokkuð á bjartsýnissól mína undanfarnar vikur og mánuði.
Hitt hinsegin fólkið virðist nefnilega vera jafn hrætt við okkur og allt venjulega fólkið. Glíman við eigin kynáttun eða kynhneigð virðist ekki endilega hafa gert það opnara fyrir annars konar fjölbreytileika. Það hefur sömu fordóma og sömu ranghugmyndir.
Það sér fyrir sér gagnkynhneigt fólk að leika sér með leðurgrímur og skilur ekki hvaða erindi við eigum við samtökin. Við höfum reynt að útskýra mál okkar en það er erfitt þegar fólk er sannfært um að það viti allt sem það þarf að vita og er ekki tilbúið að uppfæra þekkingu sína og endurskoða hugmyndir sínar. Þetta gildir að sjálfsögðu ekki um alla, margir eru jákvæðir og skilningsríkir en þessi neikvæða afstaða er mun útbreiddari en ég hefði haldið.
Ég veit að ég á einhverja vini hér inni sem eru meðlimir í samtökunum ’78. Ég skora á þá að mæta á aðalfundinn og segja já við umsókn okkar um hagsmunaaðild að samtökunum ’78. Ég skora líka á þá að spyrja aðra félaga um afstöðu þeirra og vekja umræðu um málið, því af tvennu illu er skárra að fá upplýst nei en forpokað nei. Best væri auðvitað að fá já, því ég er sannfærð um að það sé best að allir hópar hinsegin fólks standi saman. Nú reynir á hvort innistæða er fyrir slagorðum samtakanna „Fögnum fjölbreytileikanum.““