Hönnuðurinn Susan McLeary sameinar tvær ástríður sínar í nýjasta verkefni sínu en hún býr til skartgripi úr lifandi plöntum! Hefur hún vakið þó nokkra athygli í skartgripaheiminum fyrir afar frumlegar hugmyndir. Hún notar eingöngu plöntur sem hún ræktar í gróðurhúsi fjölskyldunnar. Býr hún þannig til hárspangir, hálsmen, hringa, armbönd og fleira fallegt.
Línan hennar sem hún kallar ‘Passionflower’ inniheldur plöntur og jurtir og er hægt að ganga með hvern grip í tvær til fjórar vikur áður en þær fara að vaxa úr málminum sem ber þær. Þá er hægt að taka plöntuna úr, setja hana í pott og leyfa henni að dafna. Hægt er að bera skartgripinn án plöntunnar en hefur þann möguleika að hægt er að endurnýja plöntuna.
Telur Susan að skartgripirnir henti sérstaklega við hátíðleg tækifæri, svo sem brúðkaupum. Hefur hún unnið með fremstu blómaskreytingameisturum í Bandaríkjunum í mörg ár: „Áður en ég varð blómaskreytingameistari bjó ég til skartgripi fyrir vini mína. Þegar ein vinkona mín gifti sig bað hún mig sérstaklega um að hanna einhverskonar blómaskreytingu með skartinu sínu. Þarna rann upp fyrir mér ljós og ég hafði fundið mína hillu!“
Brátt tóku pantanirnar að streyma inn og hún elskar sérstaklega að hanna fyrir brúðkaup. „Þetta er engin fjöldaframleiðsla, ég geri hvern einasta grip í höndunum. Ég vanda mig mjög og vel litina og tegundirnar vandlega.“
Er þetta ekki fallegt?