Það fylgir því mikil ábyrgð að vera húðflúrari. Það fékk hinn 29 ára gamli Didier Jacquemin að reyna, svo sannarlega. Hann sá loksins draumahúðflúrið á netinu – falleg mynd af skógi með fuglum fljúgandi í bakgrunni. Hann prentaði myndina út og fór með á tattoostofu.
Húðflúrmeistarinn samþykkti myndina en útkoman var því miður ekki eins og hann óskaði sér: Útkoman var eins og leikskólabarn hefði teiknað á hann: „Ég vildi fallega mynd af fuglum á flugi í skógi. Í staðinn fékk ég nokkra máva og dautt tré!“ Hann segist hafa borið of mikið traust til húðflúrarans: „Hún notaði ekki myndina til að undirbúa sig en ég hugsaði ekki út í það því hún hafði sett tattoo á vin minn og það heppnaðist vel. Þannig ég hafði ekki minnstu áhyggjur.“
Þegar hún gerði uppkast að myndinni á framhandlegg Didier sagði hann við hana að þetta væri ekki eins og hann hefði óskað sér. Hún sagði að þetta væri eðlilegt, greinarnar myndu „lifna við“ í ferlinu. Þegar á leið varð Didier smám saman ljóst að draumahúðflúrið var að breytast í martröð.
Nú þarf Didier að vera með óafmáanlegt húðflúr af dauðu tréi á framhandleggnum. Það er kannski óþarfi að taka það fram að hann hefur þurft að þola mikla stríðni frá fólkinu í kringum hann: „Meira að segja mamma er búin að gera grín að mér. Hún sagði að ég ætti að bera einhvern áburð á tréið því það liti hræðilega illa út,“ segir hann.
Hann gekk að sjálfsögðu á listamanninn en hún sagðist ekki hafa haft nægilegan tíma til að gera nákvæma eftirmynd. Svo gaf hún sig að lokum og greiddi honum það sem hann hafði borgað, til baka.