Anna Kristín Magnúsdóttir vinnur í athvarfi fyrir vændiskonur í Kaupmannahöfn, Reden International. Hún er þriggja barna móðir, menntuð sem grunnskólakennari, námsráðgjafi og kláraði nýlega kanditatsnám í mannfræði með áherslu á menntun og alþjóðavæðingu.
En af hverju Danmörk og hvernig stóð á því að hún fór í þessa vinnu?
„Við fluttum hingað, í annað sinn, fyrir tæpum 5 árum og öllum líður vel hér. Maðurinn minn er með góða vinnu, unglingsstúlkan að fara í framhaldsskóla, og bræðurnir bráðum 6 og 8 ára.
Það var Danmörk sem dró okkur út, maðurinn minn fann sér nám til þess að við hefðum leið út. Að hluta til vildum við komast burt frá Íslandi, en að hluta til erum við líka frekar rótlaus og viljum bara að öllum líði vel.“
Anna sá íslenskt viðtal við Svölu Heiðberg sem vann í Reden International og hafði samband við hana fyrir ári síðan: „Ég sagði henni að ég hefði mikinn áhuga en þá vantaði ekki fólk. Hún hringdi svo í haust og þá vantaði og ég fékk vinnuna. Mannréttindamál eru mér afar mikilvæg og skiptir mig miklu að gera mitt besta við að fræða börnin mín sem og aðra um þessi mál.” Reden International er fyrir erlendar vændiskonur, Reden Kaupmannahöfn fyrir þær dönsku.
Reden er tveimur mínútum frá Hovedbanegården og hinum megin við lestarstöðina er Tivoli.
„Við erum staðsett í miðborginni, rétt við Istedgade sem hefur alltaf verið þekkt sem „hórugatan” en hefur upp á margt annað að bjóða eins og flott hótel, veitingastaði, kaffihús…staði þar sem fólk með peninga kemur. Það er skrítinn heimur að labba um og sjá inn um gluggana á öllum þessum fínu stöðum þar sem fólk nýtur lífsins, og utan við gluggann er fólkið sem mun aldrei fara þarna inn.“
Athvarfið sem Anna Kristín starfar er í raun kjallaraíbúð sem er afar lík litlu heimili, með litlum eldhúskrók, sófum og borðum, sjónvarpi og baðherbergi. Svo er læknastofa þar sem Anna segir ekki vera vanann á heimili en þar starfar heilbrigðisfólk í sjálfboðavinnu.
Næturvinnan og baráttan gegn mansali
Anna vinnur frá 23 á kvöldin til 5 á morgnana. Annars er opið í eftirmiðdaginn og þrjú kvöld, en þá er einnig ráðgjöf og læknastofan starfandi.
Hvers konar fólk vinnur í athvarfinu? „Við sem erum þarna á nóttunni erum flestar með mannfræðimenntun. Það er engin krafa en það einkennir ef til vill áhugasvið okkar varðandi mannréttindi og baráttuna t.d. gegn mansali.
Aðspurð segist Anna aldrei verða ónæm fyrir hryllingnum sem þessar konur þurfa að upplifa: „Daginn sem ég verð ónæm þá er ég hætt. En ég held að það gerist ekki. Maður venst hins vegar því að sögurnar eru ekki fallegar, lífið er enginn dans á rósum og það kannski hjálpar okkur að koma okkur að kjarnanum þegar spjallað er.“
Hver kona er margar konur
„Það er erfitt að þekkja þessar konur persónulega,“ segir Anna. Hún þekkir þó sumar orðið nokkuð vel: „Þær ganga undir a.m.k. tveimur nöfnum, sumar fleirum. Það er nafnið sem þær nota hjá okkur, sem er stundum hið rétta, eða hluti af því – þær eiga kannski þrjú nöfn „að heiman” og velja eitt þeirra eða útgáfu af því. Svo er götunafnið þeirra, og svo er stundum enn annað sem er notað þegar mætt er til læknis. Svo breyta þær útlitinu mikið með hárkollum. Eru flestar alveg stuttklipptar og oft „nýtt hár”, sem oft gerir þær að algjörum drottningum. Þegar mest er fíflast, eða slegist, þá fara þær í hárið á hvor annarri. Í góðu þykir voða fyndið að grípa í hárið, eða jafnvel taka það af sér, en svo þegar þær eru ósáttar er þetta notað í rifrildi.“
„Þær eru margar sögurnar, allt of margar. Desember fannst mér erfiður mánuður, því ég tók mikið eftir baráttunni hjá konunum. Þær voru að berjast um og fyrir hverri krónu. Margar eiga börn heima, heima er svo afstætt hugtak, og vildu auðvitað allar taka peninga með heim. Sagan er nefnilega þannig hjá flestum: „Þær eru hér að vinna, við þrif, hárgreiðslu, barnapössun” til að afla tekna. Og samkvæmt þeim er skrítið þegar maður er í burtu að vinna að maður komi svo ekki heim með peninga og gjafir, eða a.m.k. peninga fyrir jólagjöfum. Í einu samtali spurði ég hvernig börnunum fyndist þeirra líf hér og þá svaraði hún: „Þetta er leyndarmál lífs míns, þau skulu aldrei fá að vita hvað ég er að gera. Það deyr með mér”.
Er mikið um ofbeldi eða fá konurnar einhverja „vernd“?
„Það er klárlega goggunarröð, sumar eru hærra settar, oft eldri. En það er ekki endilega þannig að þær stjórni þeim yngri, það er líka mikið þannig að þær eru í „auntie” hlutverki og eru að kenna þeim ýmislegt – eins og til dæmis hvernig þær eigi að haga sér hjá okkur. Þær eldri hafa lært umgengnisreglurnar hjá okkur og vita að við erum þar fyrir þær á þeirra forsendum, en það vita þær yngri ekki fyrst og geta virkað frekar. Það er ekki frekja, það er baráttuþörfin í lífinu og að vita ekki hvernig á að haga sér/eða koma fram innan um fólk sem ætlar ekki að gera manni neitt.“
Konurnar koma, flestar frá Nígeríu og í litlum hópum. „Hóparnir stjórnast af hvenær þær komu til landsins, aldri, búsetu í Kaupmannahöfn, þeirra yfirmönnum/konum. Þegar við förum út á nóttinni og skoðum göturnar, og sjáum hverjar eru á ferðinni og hverjir aðrir eins og til dæmis dópsalar, þá sjáum við þær oft í litlum hópum líka. Sumar eiga vini sem hugsanlega eru þeim innan handar en eru ef til vill líka að selja sína vöru.“
Aðra vernd fá þær ekki. Lögreglan fylgist með, talar við þær og stundum eru rassíur þar sem er ”hreinsað til” á götunni og konur handteknar sem ekki eru með skilríki á sér.
Stöðug fræðsla er nauðsynleg
Önnu er mikið í mun að uppfræða fólk um mansal og þennan heim í því skyni að sporna við erfiðri stöðu þessara kvenna. Allir ættu að fræðast um mansal að mati Önnu og sérstaklega fullorðið fólk: „Fullorðið fólk þarf að fræða því það veit í alvöru oft ekki af vandanum. Það eru svo ótrúlega margir sem hafa efast við mig og dregið úr því sem ég segi: „Neeeiii – ekki er fólk selt í alvöru? Bara svona eins og sykur eða kaffi!“ Ég skil í raun þegar fólk segir þetta og ég hugsa alltaf að viðkomandi hljóti að lifa öruggu einföldu lífi án frétta, alvöru frétta. Fólk sem býr í Danmörku, í Kaupmannahöfn, á Vesterbro þar sem ég vinn, veit sumt ekki af þessu og ég hef heyrt: „En þær brosa alltaf til mín og eru voða glaðar! Já, en veistu? Vændiskona í fýlu selur ekkert!“
Anna myndi vilja fá fræðslu í skólum um mansal: „Tilvalið væri að veita fræðslu í skólunum, þar sem börnin eru saman komin með kennurum sínum, fólki sem þau treysta. Síðan kæmu aðilar með fræðslu, bæði fyrir nemendur og kennara, hugsanlega líka foreldra. Það er samt gríðarlega mikilvægt að ekki verði úr einhver múgæsingur og hræðsluáróður. Mansal er skelfilegt, en það er líka staðreynd eins og svo margt annað slæmt í lífinu.“
„Svo eru fjölmiðlarnir mikilvægir og geta hjálpað mikið,“ segir Anna. „Sem kennari veit ég að við getum ekki alltaf bent á skólana og hent ábyrgðinni þangað, enda væri ekki nóg að hafa einn fyrirlestur/fund og halda þá að allt væri gott. Íslendingar eru snillingar í forvörnum, en við vitum líka að það má ekki slaka á og það má ekki vera of mikið. Það þarf að vera stöðug fræðsla. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum langflest góðar manneskjur sem viljum öðrum vel, viljum frið án ofbeldis, og bara fá að lifa góðu lífi. En þetta er svipað og með ísjakann, minnihlutinn er svo ansi áberandi.“
Munum að enginn getur allt en allir geta eitthvað, og ef við tökum höndum saman og gerum öll eitthvað þá getum við haft mikil áhrif.
Nú hefur Amnesty samþykkt tillögu um afglæpavæðingu vændis, hver er þín skoðun á því?
„Það er svo einfalt að sitja og koma með yfirlýsingar um hvað ætti að gera.Vændi er gömul „starfsgrein” eða misnotkun á fólki: Fólki, já, því við erum ekki bara að tala um ofbeldi gegn konum því það eru karlar og ekki minnst mikilvægt er að það eru börn sem eru látin stunda vændi.“
Ég held í alvöru að við þurrkum aldrei út vændi.
„Við höfum mikið rætt þetta: Á sala og kaup að vera lögleg, á annað að vera löglegt (og þá salan), eða á bæði að vera ólöglegt? Mín skoðun er oftast að ef salan er lögleg en ekki kaupin þá fái konurnar frekar vernd og séu réttu megin varðandi lögin. En hér eru konur beittar ofbeldi, þær eru lamdar, skornar, sparkað í, nauðgað og svo mætti lengi telja og það er ekki eins og þær rölti til lögreglunnar að kæra. Þannig að hver er þá breytingin? Stundum held ég næstum að það skipti engu hver lögin eru, það verða áfram glæpamenn sem stunda það að fjarlægja fólk og selja það, til vændis og annarra athafna.
Ég er mjög hrædd um að lagasetning breyti litlu, nema í sumum tilvikum, til dæmis ef bæði væri ólöglegt að gera málin verri og hættulegri þar sem enginn væri með lögin með sér. Vegna þessa held ég að fræðslan skipti mestu máli.“
Mansal er þriðji stærsti ólöglegi gróðaiðnaður í heimi, stærri eru vopna- og eiturlyfjasmygl.
Anna segir: „Á heims“markaði” er reiknað með að hagnaður af mansali séu um 25 milljarðar evra á ári. Mér reiknast til að þetta séu: 3.579.500.000.000,00. Ég kann ekki einu sinni að segja þessa tölu, held þetta séu þrjúþúsund, fimmhundruð sjötíu og níu milljarðar og fimmhundruð milljónir.“
Er einhver leið til að vita hvort konurnar séu fórnarlömb mansals eða ekki? Nú segir þú að þær þori ekki að segja til aldurs síns, munu fórnarlömb ekki alltaf þegja af ótta við refsingar dólganna?
„Stundum þegar þær eru þreyttar missa þær út úr sér: „Æ, ég hata þetta…er ég enn að vinna við þetta…ég er orðin of gömul fyrir þetta…ég get ekki keppt við þessar stelpur lengur…” og við gerum allt til að grípa þær akkúrat þarna. En það er rétt, þær eru ekkert að gaspra um þessi mál. En það eru leiðir til að spyrja og við gerum allt og gefum allt í að ná góðum samtölum. En þeim er ekki stillt upp við vegg og við þvingum þær ekki. Við viljum að þær komi til okkar og líði vel hjá okkur.“
Óttinn er mikill
„Það hefur nokkuð verið talað um og skrifað um að þær sem koma til dæmis frá Afríku sverja svokallaðan juju eið þar sem þær lofa að hlýða öllu annars verði kannski fjölskylda þeirra fjölskyldan drepin. Trúin á þennan eið er sterkari en flest,“ segir Anna Kristín.
Anna vonast til að halda áfram í baráttunni gegn mansali og segir að þetta sé einungis byrjunin: „En þetta er slagur við sterk og hættuleg öfl. Það endist enginn lengi í svona vinnutíma, en ég vona að meira eða aðrar leiðir bætist fljótlega við. Það virðist vera vakning hér og það þarf að nota. Mörg samtök og athvörf eru í boði og margt spennandi. Að fara inn í skólana hér væri líka spennandi verkefni, í samstarfi við aðra flotta einstaklinga eða samtök. Svo væri hægt að færa fræðsluna yfir á íslensku!“