Jafnvel kæruleysisleg athugasemd foreldris getur haft sterk neikvæð áhrif á huga ungs barns. Þetta segir fjölskyldusálfræðingurinn Svetlana Merkulova. Hún telur mikilvægt að þú, sem foreldri, sért vakandi fyrir þeim orðum og setningum sem þú notar í daglegu tali við barnið.
„Þegar ég var á þínum aldri gekk mér mjög vel“
Frá 0-6 ára aldri eru foreldrar barna „guð“ í þeirra augum: Þau vita og geta allt. Mótunin byrjar snemma og ekki má læða að barninu einhverskonar hugmynd um samkeppni. „Þú nærð mér aldrei!“ „Allt sem þú gerir geri ég betur!“ Börn sem alast upp við slíkar setningar fá ákveðnar hugmyndir um frama – að þau þurfi að sanna sig fyrir fjölskyldunni. Auðvitað er gott að hafa keppnisskap en slíkt uppeldi ýtir aðeins undir að þau séu að sanna sig fyrir foreldrunum, til að sýna að þau séu ástar þeirra verð. Þetta getur orsakað óhamingju með allt sem þau afreka í framtíðinni því þau telja að hamingjan sé undir samþykki foreldranna komin.
„Þessum gekk betur en þér í prófinu“
Meirihluti foreldra vill að börnunum þeirra gangi vel í lífinu. Þau gætu hinsvegar sagt hluti sem eru skaðlegir litlum sálum: „Ekki hafa áhyggjur af þessu, þetta kom líka fyrir mig og þú sérð að það er allt í lagi með mig í dag.“ Ef þú miðar árangur barna þinna við önnur er það hinsvegar sársaukafull reynsla sem getur fylgt börnum fram á fullorðinsár og eru þau sífellt að bera sig saman við aðra. Ef um systkini er að ræða sem borin eru saman getur það skaðað samskipti þeirra til frambúðar.
„Ef þú gerir þetta aftur hætti ég að elska þig“
Sambærileg setning við þessa gæti verið: „Ég skal elska þig ef þú gerir […] fyrir mig.“ Með slíku elur þú kvíða með barninu þínu sem óttast minnstu mistök í nálægð við þig af ótta við að missa ást þína. Barnið leggur allt upp úr að uppfylla óskir þínar og verður kvíðið og „fullorðið“ of fljótt, fer að þóknast öðrum og setur sig sjálft í annað sæti.
„Ekki verða mér til skammar“
Börn eiga ekki að þurfa að heyra slíka setningu frá foreldrum sínum því hún getur valdið þeim miklum vanda: Þau þróa með sér sterka þörf fyrir að sýna öðrum að þau séu góðar og gildar mannverur og vilja fá allar tegundir athygli. Þau vita ekki hvernig þau eiga að höndla slíkt því þeim líður alltaf eins og þau séu foreldrum sínum og sjálfum sér til skammar.
„Þú ert alveg eins og pabbi þinn/mamma þín“
Fái börn að heyra slíkt sagt í reiði eða á neikvæðum nótum er augljóst að foreldrið sem tekur sér slík orð í munn er ekki hrifið af hinu foreldrinu og tekur gremju sína út á barninu. Barnið fer að halda að eitthvað sé að hinu foreldrinu og fer annaðhvort í vörn eða samsinnir þessum umkvörtunum.
„Ef þú borðar ekki matinn þinn verðurðu aldrei stór og sterk/ur“
Börn geta þróað með sér óheilbrigð viðhorf til matar sé alltaf verið að nota hann til að hóta þeim. Þetta er viss tegund stjórnunar hjá foreldrum en geta haft þveröfug áhrif þar sem þau geta orðið of meðvituð um hvað þau láta ofan í sig og getur það leitt til þess að þau þrói með sér átraskanir eða offitu svo eitthvað sé nefnt.
„Ég vil hvorki heyra þig né sjá“
Þetta er einfaldlega eitthvað sem ekkert foreldri ætti að láta sér detta í hug að segja við barnið sitt. Það þýðir í eyrum barnsins: „Þú hefur eyðilagt líf mitt, ég vil að þú hverfir. Þú ættir ekki að vera til.“ Barnið þróar með sér sektarkennd og finnst eins og það sé þess valdandi að foreldrarnir eru óhamingjusamir.
„Þér verður refsað seinna“
Með slíkum orðum getur barninu fundist foreldrið hafa ægivald yfir lífi þess og geti gert hvað sem þeim dettur í hug. Ímyndið ykkur óttann og tilfinningu þess að vera einskis virði. Ótti er ekki sama og virðing og slík setning ber með sér yfirvald. Foreldrar eru ekki „yfirmenn“ barnanna sinna heldur eiga að gæta þeirra.
—
Þessar setningar eru auðvitað ekki algildar í öllum tilfellum en leiða hugann að því að best er að vanda sig í samskiptum við börnin sín, því foreldrar eru jú uppalendur og geta ósjálfrátt verið að valda börnunum sínum skaða, sem er það síðasta sem langflestir foreldrar óska. Vöndum okkur!