KVENNABLAÐIÐ

Björkin Ljósmæður bjóða fæðingu í heimilislegu umhverfi með ljósmóður sem foreldrar þekkja og treysta

Heimilisleg fæðingarstofa í Reykjavík opnar brátt fyrir þjónustu við verðandi foreldra og stendur nú yfir fjáröflun á Karolina Fund fyrir innanstokksmunum svo gera megi upplifun foreldra og barna eins hlýlega og kostur er á. Áætlað er að fæðingarstofan hefji starfsemi í vor eða byrjun sumars, en að baki standa ljósmæðurnar Arney Þórarinsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir.

Þær Arney og Hrafnhildur hafa starfrækt fyrirtæki sitt, Björkin ljósmæður, allt frá árinu 2009 en megin þjónusta þeirra felst í aðstoð við heimafæðingar í Reykjavík og nágrenni við höfuðborgina. Þá bjóða þær einnig upp á mæðraskoðun á meðgöngu, heimaþjónustu fyrstu dagana í lífi barnsins, fræðslufyrirlestra fyrir verðandi foreldra og nálastungumeðferð fyrir verðandi mæður.

796828ee12cfd19618e542d2128cebc9

„Náttúruleg fæðing í heimilislegu umhverfi er mikilvægur valkostur og okkur finnst vöntun á fæðingarstofu sem þessari og það finnst konum líka,” segir Arney og bendir jafnframt á að með hagræðingu á Landspítalanum hafi lagst af sú þjónusta sem Hreiðrið bauð upp á, þar með fækkað valkostum fæðandi kvenna. „Við horfum þannig til fæðingarheimila í nágrannalöndum okkar og styðjumst mjög við leiðbeiningar um fæðingarhjálp og mæðraskoðun á meðgöngu frá Bretlandi, en þarlendir sérfræðingar mæla t.a.m. með því að hraustar konur sem upplifa áfallalausa meðgöngu og þá sérstaklega þær konur sem hafa fætt eðlilega áður, fæði utan spítala með aðstoð ljósmóður annað hvort á fæðingarheimili eða heima hjá sér.”

Á einungis fimm árum hafa ljósmæðurnar tvær aðstoðað við yfir 200 heimafæðingar gegnum þá þjónustu sem Björkin veitir. Þær vilja nú færa út kvíarnar með því að bjóða upp á fæðingarstofu svo enn fleiri fjölskyldum verði gert kleift að njóta fæðingar barns í hlýlegu umhverfi sem ber meiri keim af heimili en spítala, í návist ljósmóður sem foreldrar þekkja og treysta.

2cfc5699f29f13ae1b65899baa5a4ea4

Arney segir þjónustuna skorta á Íslandi í dag og að mikil þörf sé á aðstöðu fyrir þær mæður sem séu hraustar á meðgöngu og kjósi náttúrulega fæðingu utan spítala. „Það er kominn tími til að láta þetta verða að veruleika og að geta boðið verðandi foreldrum upp á þennan valkost, þeim nær að kostnaðarlausu. Pabbarnir borga örlítið gjald fyrir dvölina í dag á spítalanum og við komum einnig til með að innheimta lágt aðstöðugjald, en sjúkratryggingarnar munu greiða fyrir þjónustu okkar eins og raunin er með heimafæðingar í dag. Þetta á að vera þannig að allir geti valið kostinn algjörlega óháð fjárhag.”

Fæðingarstofan verður staðsett í Síðumúla 10 í Reykjavik, þar sem Björkin er staðsett. Þá vilja Arney og Hrafnhildur bjóða öllum heilbrigðum mæðrum sem upplifa eðlilega meðgöngu, sér í lagi þeim konum sem ekki eru búsettar á höfuðborgarsvæðinu, að njóta þess að fæða í hlýlegu og heimilislegu umhverfi. Í dag er staðan slík að ófáar verðandi mæður sem eru búsettar á landsbyggðinni þurfa að ferðast um langa vegu til höfuðborgarinnar, þar sem enga slíka þjónustu er að finna í heimahéraði þeirra, þær hafa því ekki sömu valkosti og þær konur sem búa á höfuðborgarsvæðinu og geta valið heimafæðingu.

e7bd0bb2e23f7454b78510502b04f642

Aðspurð segir Arney verkefninu miða vel áfram. „Við erum að hefja framkvæmdir, en þó um minniháttar breytingar á húsnæði væri að ræða þurftum við þó byggingarleyfi sem við höfum nú fengið. Við höfum þegar fjármagnað framkvæmdirnar en þegar breytingum á húsnæði er lokið, þarf að innrétta sjálfa fæðingarstofuna og gera hana fullbúna. Um það snýst fjársöfnunin um; að festa kaup á sjálfum fæðingarbúnaðinum og öllu sem til þarf til að gera aðstöðuna sem besta.“

Þá segir Arney einstaklega góðan anda ríkja í húsinu. „Búseti á húsið og við leigjum aðstöðuna af þeim, en fyrsta skrefið var að fá leyfi Búseta sem var auðfengið. Þá er Búseti með skrifstofu á efri hæðinni, en þau hafa verið mjög jákvæð og stutt mikið við verkefnið. Fyrir þann stuðning erum við ógurlega þakklátar. Okkur langar að vera í þessu húsnæði, því þetta er góður staður og staðsetningin sjálf felur í sér svo marga og góða möguleika.”

1ce059c8694722bd8602399639ad5305

Þá ítrekar Arney að verðandi mæður, sem búsettar eru á höfuðborgarsvæðinu, verði einnig hjartanlega velkomið að nýta þjónustu Bjarkarinnar. Gjaldtöku verði haldið í algeru lágmarki þar sem Sjúkratryggingar Íslands greiði meginkostnaðinn, en Björkin mun bjóða upp á mæðraskoðun frá 32 vikna meðgöngu og einnig bjóði ljósmæðurnar upp á heimaþjónustu fyrstu vikuna í lífi barnsins.

Þegar liggja teikningar fyrir að breytingum á húsnæði Bjarkarinnar, en leyfi byggingaryfirvalda fékkst fyrir skömmu og hefur sá hluti verið fjármagnaður að fullu. Þá standa yfir framkvæmdir á byggingu milliveggja, endurnýjun pípulagna og gera ljósmæðurnar ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið til notkunar í maí á þessu ári.

1f9533ba30aaf8e126edb8b3fbdacc69

„Til að byrja með verðum við með þessa einu stofu, en við viljum og vonum sannarlega að þjónustan muni vaxa og dafna. Að okkur verði gert kleift að færa enn út kvíarnar í framtíðinni, fjölga fæðingastofum og ljósmæðrum. Það tel ég að sé fyllilega raunhæfur valkostur.”

Fjáröflun ljósmæðranna sem að baki fæðingarþjónustu Bjarkarinnar snýr því að innanstokksmunum sem þarf til að gera fæðingarstofuna hlýlega. Brugðu þær Arney og Hrafnhildur því á það ráð að setja upp söfnun á Karolina Fund, svo kaupa mætti notarlegt rúm fyrir fæðinguna sjálfa og sængurleguna, fæðingarlaug og þann útbúnað sem nauðsynlegur er fyrir ljósmæður til að taka á móti barni í heiminn. Fari söfnun fram yfir sett markmið, verða peningarnir nýttir til að hanna fallega setustofu fyrir fjölskyldur.

f72b8bf66da728425fc68d8a7547b636

Að endingu segist Arney bjartsýni og jákvæðni vera ríkjandi. „Við vonum að stofan verði tilbúin í maí á þessu ári, svo fyrstu börnin geti komið í heiminn í nýju húsnæði okkar í vor eða byrjun sumars. Sú þjónusta sem við bjóðum upp á er samfelld frá meðgöngu og fram yfir fæðingu, við kynnumst verðandi foreldrum vel á meðgöngu og förum með þeim gegnum fæðinguna sjálfa, bjóðum upp á heimaþjónustu fyrstu vikuna og svo tekur heilsugæslan við ungbarnaeftirlitinu. ”

Fjáröflunarsíðu Björkin Ljósmæður á Karolina Fund má skoða HÉR en hér fer gullfallegt kynningarmyndband sem varpar skýru ljósi á starfsemina:

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!