KVENNABLAÐIÐ

Að missa vinnuna er öllum áfall – eðlilegar tilfinningar við óeðlilegar aðstæður

Ýmsir hafa þurft að standa frammi fyrir þeirri sorglegu og erfiðu staðreynd að hafa verið sagt upp störfum sínum og misst þannig lífsviðurværi sitt. Uppsögn er mikið áfall og getur kallað fram sárar tilfinningar, sorg og höfnunarkennd sem eru eðlilegar tilfinningar við starfsmissi. Geðlæknirinn Kübler-Ross rannsakaði um árabil reynslu og tilfinningar fólks sem greinst hafði með ólæknandi sjúkdóm. Hún greindi mismunandi stig í sorgarferlinu sem einnig má sjá við aðrar aðstæður þar sem fólk fær slæm tíðindi. Stigin eru:  afneitun, reiði, sorg og samþykki.

Fyrsta stigið: afneitun

Fyrstu viðbrögð þess sem er sagt upp starfi geta oft verið að horfast ekki í augu við staðreyndirnar og afneita þeim. Þetta eru varnarviðbrögð sem hjálpa okkur að draga úr þeim sársauka sem skilaboðunum fylgja.  Athugasemdir eins og  ,,Nei, þetta getur ekki verið satt“ koma fram. Við trúum einfaldlega ekki að við séum stödd í þessum aðstæðum.

Annað stigið: reiði

Þegar við gerum okkur grein fyrir ástandinu koma oft aðrar tilfinningar eins og gremja og reiði sem geta beinst að yfirmanninum, fyrirtækinu eða hinu ytra umhverfi. Reiðin getur tekið á sig ýmsar myndir þar sem við m.a.  leitum að blóraböggli sem hlýtur að eiga sök á uppsögninni.

Þriðja stigið: sorg.

Þegar okkur rennur reiðin beinast tilfinningarnar yfirleitt inn á við og sjást ekki eins augljóslega og þegar við erum reið. Við verðum þögul, viðkvæm, döpur og niðurdregin og að okkur sækja hugsanir eins og: ,,Það er örugglega af því að ég er ekki nógu góður starfskraftur”.

Fjórða stigið: samþykki

Þegar við erum komin á þetta stig höfum við meðtekið skilaboðin og á vissan hátt sætt okkur við þau. Þetta skref í sorgarferlinu einkennist oft af praktískum spurningum sem varða framtíðina, eins og t.d.: ,,Hvað er hægt að gera í minni stöðu?“ Nú fyrst erum við tilbúin að leita lausna og ræða framtíðina.

Höfum í huga að starfsmissir er mikið reiðarslag sem við erum mislengi að jafna okkur á og ferlið er langt frá því að vera það sama hjá öllum. Hin ólíku stig, afneitun, reiði, sorg og samþykki birtast á afar mismunandi hátt hjá fólki. Mikilvægt er að átta sig á því að þetta eru eðlileg viðbrögð við þeirri erfiðu reynslu sem starfsmissir er.

En lífið heldur áfram og manneskjan hefur ótrúlega aðlögunarhæfileika. Við kunnum að spyrja: ,,Hvað á ég að gera?“ Mikilvægt er að huga að heilsunni og viðhalda daglegri rútínu.

Nokkur mikilvæg ráð:

Hreyfing og slökun. Það er afar mikilvægt að hreyfa sig reglulega og reyna að slaka vel á. Algengt er að þetta sé vanrækt þegar manni líður illa.

Mjög mikilvægt er að tryggja nægan svefn og hvíld.

Þá er einnig mikilvægt að huga vel að mataræðinu og gæta að hollustunni og nærast reglulega.

Æðruleysi. Gott getur reynst að glöggva sig á hverju maður getur breytt og setja stefnuna á það. Það hefur lítið að segja að hafa áhyggjur af einhverju sem maður getur ekki haft nein áhrif á.

Ræddu opinskátt við aðra um líðan þína og sæktu þér stuðning og eflingu hjá þeim sem þú treystir best t.d. fjölskyldu, vinum eða starfsfélaga. Skömm yfir því að hafa ekki staðið sig eða hafa valdið öðrum skaða eða þjáningu er hættuleg því hún ýtir undir einangrun og sjálfsásakanir. Það er óhollt að byrgja tilfinningar sínar inni. Sumum finnst gott að skrifa niður á blað hvernig þeim líður og aðrir sækja sér styrk í útivist eða trú sína.

Takmarkaðu áreiti á þig og heimilið ef það á við.Veldu þér einn eða tvo fjölmiðla og ákveddu sjálf/-ur hvenær þú hlustar á eða lest fréttirnar. Það er mikilvægt að fylgjast með, en með þessum hætti missir þú ekki af neinu mikilvægu.

Farðu mjög varlega með áfengi. Það er algengt að áfengisnotkun aukist með álagi og fólk reyni að draga úr kvíða og vanlíðan með því að fá sér í glas en uppsker enn meiri vanlíðan í kjölfarið. Auk þess dregur áfengi úr dómgreind inniheldur mikið af hitaeiningum og truflar svefn.

Mundu að styðja og hvetja aðra og sýna samkennd.

Guðrún Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur

doktor_is_logo (1)

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!