KVENNABLAÐIÐ

Dagur elskenda er runninn upp – Hver var þessi Valentínus?

Saga Valentínusardagsins – og dýrlingsins sem við hann er kenndur – er sveipuð dulúð. Valentínusardagur í þeirri mynd sem við þekkjum í dag á rætur að rekja jafnt til kristinnar trúar og Rómar til forna. Ef svo er, hver var þá þessi Valentínus eiginlega og hvernig í ósköpunum tengist hann þessum fornu siðum?

Ein goðsögn hermir að Valentínus, sem var prestur og þjónaði til altaris á þriðju öld í Róm hafi brugðist Kládíus keisara, sem ákvað að einhleypir karlmenn væru betur gerðir til að verða hermenn en þeir sem áttu eiginkonur og börn. Kládíus gerði ungum mönnum óheimilt að ganga í hjónaband í þeim eina tilgangi að hindra brottfall hermanna, en Valentínus, sem gerði sér ljósa grein fyrir þeim órétti sem ungmenni Rómar voru beitt, ögraði Kládíusi keisara og framkvæmdi hjónavígslu ungra elskenda á laun í yfirgefinni kirkju.

Orðið af afreki Valentínusar barst fljótlega út og fleiri pör leituðu á náðir Valentínusar í þeirri von að samband þeirra mætti njóta blessunar Guðs. Fyrr en varði framkvæmdi Valentínus ófáar hjónavígslur í óþökk yfirvalda og leituðu sífellt fleiri á náðir hans í nafni ástarinnar. Valentínus lagði blessun sína yfir óskir og þrár ófárra ungra elskenda án umhugsunar og galt á endanum fyrir með lífi sínu, en þegar upp komst um gjörðir Valentínusar, fyrirskipaði Kládíus aftöku hans.

Sagan hermir að Valentínus hafi sent fyrsta „Valentínusarkortið“ sjálfur. Meðan á fangelsun hans stóð varð Valentínus ástfanginn af ungri stúlku – dóttur böðulsins – sem heimsótti hann meðan presturinn beið aftöku. Stuttu áður en hann var tekinn af lífi skrifaði hann stúlkunni bréf sem hann undirritaði „Frá þínum einlægum – Valentínus“, en sú undirskrift er enn við lýði á Valentínusardaginn sjálfan. Þó sannleikurinn að baki goðsögninni um Valentínus sé að hluta á huldu, er sagan sjálf sveipuð dulúð, hugrekki og umfram allt rómantískum ljóma.

Dag elskenda ber upp á aftökudegi heilags Valentínusar, sem framkvæmdi hjónavígslur ástfanginna ungmenna á laun af fádæma hugrekki til að rísa gegn órétti auðvaldsins, sem beitti lýðinn harðræði og heraga. Heilagur Valentínus var tekinn af lífi að skipan Kládíus keisara þann 14 febrúar 270 E.Kr. en þann dag halda elskendur um allan heim enn hátíðlegan með tákni hjartans, sem er samkvæmt fornum kaþólskum siðum, tákn sálarinnar og miðstöð allra mannlegra tilfinninga.

Goðsögn heilags Valentínusar er langt frá því að vera jafn einfölduð og hér er drepið á. Píslarvotturinn sem lagði lífið að veði svo ungir elskendur mættu unnast og aldrei skilja að nýju, gerði sér að öllum líkindum enga grein fyrir því að um ókomnar aldir ættu elskendur um gjörvalla heimsbyggðina eftir að hefja afrek hans í nafni ástarinnar til vegs og virðingar með súkkulaði, blómum og sönnum ástarjátningum.

Að því sögðu óskar ritstjórn öllum lesendum innilega til hamingju með dag elskenda.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!