Siðareglur Facebook eiga undir högg að sækja, en samskiptamiðillinn laut í lægra haldi fyrir frönskum dómstóli nú á föstudag, er dómari úrskurðaði að samkvæmt frönskum landslögum mætti ákæra Facebook.
Ákæruefnið er næsta umdeilt; fyrir að eyða reikningi fransks ríkisborgara sem birti ljósmynd af sögufrægu málverki frá nítjándu öld sem sýnir kviknakta konu. Úrskurður dómsyfirvalda í París gætu sett sögulegt fordæmi fyrir slíkum málsóknum í Frakklandi, en yfir 30 milljónir Frakka eru með Facebook aðgang.
Hægt er að áfrýja úrskurðinum til hæstaréttar, en þetta merkir þó að franski rétturinn mun taka til umfjöllunar og hlýða á mál Frederic Durand-Baissau, sem er 57 ára gamall listasögukennari, búsettur í París og einlægur listunnandi sem var útilokaður frá Facebook fyrir fimm árum síðan án nokkurra skýringa.
Sama dag og aðgangi Frederic var lokað, hafði hann deilt ljósmynd af sögufrægu málverki Gustave Courbet frá árinu 1866, sem ber heitið Uppruni heimsins og sýnir kynfæri konu.
Ljósmynd af málverki Courbet varð til þess að Facebook lokaði á Frederic:
Í ákærunni krefst Frederic meðal annars þess að aðgangur hans verði opnaður að nýju án tafar og fer fram á 20 þúsund evrur í skaðabætur, en listasögukennarinn segist jafnframt ánægður fyrir það eitt að hafa loks fengið eins konar skýringu á hegðun siðadeildar Facebook.
Í símaviðtali við Associated Press sagðist Frederic hvergi ætla að hnika:
Þetta snýst um málfrelsi og ritskoðun á samskiptamiðlum. Ef Facebook getur ekki greint þann grundvallarmun sem er á hreinni, tímalausri listsköpun og einfaldri klámmynd, getum við hér í Frakklandi komið starfsmönnum samskiptamiðilsins til aðstoðar.
Facebook hefur aftur á móti ekki enn gefið neina einhlíta skýringu á því að Frederic var útilokaður frá samskiptamiðlinum, en reglur samskiptamiðilsins kveða skirt á um að nekt verði ekki liðin, þar sem slíkar deilingar geti sært siðgæðisvitund einhverra.
Þó hefur lögfræðiteymi Facebook krafist þess að réttarhöldin fari fram í Kaliforníu og verði úrskurður kveðinn upp af sérstökum dómstól sem starfar í nágrenni við höfuðstöðvar samskiptamiðilsins, að frönsk neytendalög falli ekki undir siðareglur þeirra þar sem Facebook bjóði þjónustu sína gjaldfrjálst á alþjóðavísu.
Þessu hafnar franski áfrýjunarrétturinn og segir skilyrðin ósanngjörn, þar sem skorður þær sem Facebook setji notendum, brjóti beinlínis í bága við frönsk neytendalög. Lögmaður Frederic, Stephane Cottinaeu fagnaði úrskurðinum á föstudag og sagði ákvörðun dómara vera ánægjuefni:
Auðvitað er þetta gleðiefni eftir fimm ára baráttu fyrir dómstólum. Þetta eru sterk skilaboð til allra samskiptarisa á netinu, sem þurfa nú að svara fyrir eigin mistök fyrir frönskum dómstólum. Annars vegar hefur Facebook gengið hart mót umræðu um ofbeldi í hvers konar mynd, en hins vegar endurspeglar samskiptamiðillinn óskiljanlega spéhræðslu gagnvart líkamslögun fólks og eðlilegri nekt.
Framundan eru því fróðleg málaferli, en hér má hlýða á listakonuna Marinu Abramovic fjalla um eðli verka Courbet og þau hughrif sem málverkið laðar fram: