KVENNABLAÐIÐ

Íslenska sveitin Kaleo slær í gegn í Nashville og lofuð í hástert á síðum Rolling Stone

Íslenska sveitin Kaleo hefur algerlega slegið í gegn vestanhafs með þáttöku sinni í bandarísku þáttaröðinni Vinyl. Þannig fer tónlistartímaritið Rolling Stone fögrum orðum um félagana sem stigu á stokk í Nashville fyrir skemmstu og fluttu rokksmellinn No Good í beinni útsendingu.

Upptökur fóru fram í hljóðveri United Record Pressing, sem jafnframt er stærsti vinylpressu framleiðandi í Bandaríkjunum, en grípandi flutningurinn hefur farið eins og eldur í sinu um tónlistarbransann ytra.

Í viðtali við Rolling Stone segjast þeir félagar frá sér numdir af gleði yfir valinu, en þáttaröðin Vinyl er framleidd af ekki ómerkari mönnum en þeim Mick Jagger og Martin Scorsese. Þannig segist Júlíus, sem er gítarleikari sveitarinnar og er nefndur Julius Son á síðum RS að um gífurlegan heiður sé að ræða:

Við erum alveg í skýjunum yfir valinu og því að eiga lag á Vinyl útgáfunni, en það var alveg frábær upplifun að gera myndbandið við lagið. Við féllum samstundis fyrir verkefninu þegar við heyrðum fyrst af Vinyl og ákváðum að láta þetta tækifæri ekki úr greipum okkar ganga. Ég lít á þetta sem heiður, bæði fyrir mig sjálfan og svo einnig að fá að vera hluti af þessari merku þáttaröð.

Þá sagði Kevin Weaver, sem er einn af meðframleiðendum þáttaraðarinnar að tónninn í flutningi Kaelo hafi samstundis fangað huga framleiðenda:

Kaleo skaraði fram úr fjölda umsækjenda og frá fyrstu hlustun fannst mér gítarhljómurinn og hrár raddflutningurinn í laginu No Good smellpassa eins og flís við rass. Hljómsveitin er flott ásýndar; Jafnvel þó hljómsveitin sé ný af nálinni og fæstir bandarískir hlustendur þekki sveitina, gerðum við okkur strax grein fyrir því að upptökurnar færu vel í kynningarstiklur og sjónvarpsauglýsingar.

Alla umfjöllun Rolling Stone um flutning Kaleo má lesa HÉR en þess má geta að tónlistin kom út í gær, þann 12 febrúar og er fáanleg gegnum vef Amazon. Auk Kaleo, sem flytja rokksmellinn No Good er meðal annars að finna tónlist eftir uppspunnu rokksveitina Nasty Bits, sem kemur fram í þáttaröðinni og sonur James, sonur Mick Jagger fer fyrir. Þess má að lokum geta að þáttaröðin verður sýnd a Stöð Tvö en flutningur Kaleo er sýndur í stiklum HBO sem kynna þættina sjálfa.

Hér má sjá framúrskarandi flutning íslensku sveitarinnar Kaleo í Nashville:

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!