KVENNABLAÐIÐ

Adele í nýjasta Vogue: Rekin af rauða dreglinum og tók berfætt við Grammy

Adele prýðir forsíðu bandaríska VOUGE í mars og segir í einlægu viðtali frá hráum aðstæðum í uppvextinum, tónlistarkennaranum sem bjargaði henni frá glötun á unglingsaldri og rifjar upp þegar hún var rekin af rauða dreglinum, sama árið og hún hreppti fyrstu GRAMMY verðlaunin.

enhanced-19783-1455290388-1

Annie Leibovitz tók ljósmyndirnar sem sjá má hér, en þetta er í annað skipti sem Adele situr fyrir hjá stjörnuljósmyndaranum og birtist fyrri serían einnig á síðum VOUGE, sama ár og Adele vann fyrst til Grammy verðlauna sem besti nýliðinn, en það árið var breiðskífa hennar einnig tilnefnd til verðlauna.

enhanced-31184-1455290529-1
Ljósmynd: Annie Leibovitz / Vogue

Öfugt við það sem mætti halda hefur líf litlu stúlkunnar með stóru röddina ekki verið neinn dans á rósum. Adele ólst upp í bæjaríbúð ásamt móður sinni í lágstéttarhverfum Tottenham og Brixton innan marka London og reis upp úr sárri fátækt til þess eins að höndla heimsfrægð fyrir hæfileika sína.

Skólaganga Adele var þá ekki upp á marga fiska framan af, tónlistarkennari hennar í grunnskóla var alveg laus við hvatningu og innblástur en Adele lét ekki deigan síga, tónlistin átti allan hug hennar og þannig smaug hún gegnum nálarauga lista-akademíunnar í London þegar hún var orðin fjórtán ára að aldri og sótti um inngöngu í listaskóla.

Ljósmynd: Annie Leibovitz / Vogue
Ljósmynd: Annie Leibovitz / Vogue

Að því er Adele greinir frá á síðum Vogue, er hún enn þakklát yfirkennara tónlistardeildarinnar, Tony Castro, sem gerði þá skýlausu kröfu að nemendur hans flyttu frumsamin verk.

Ef ekki væri fyrir Tony, þá hefðu lögin Daydreamer og Hometown Glory aldrei fæðst. Í mínum augum er merkilegast alls í heimi að vera kennari. Ef ég brenn út á sviði og legg hlutverk poppstjörnunnar á hilluna, þá ætla ég að gerast kennari. Það er alveg á hreinu.

Þá kemur blaðamaður Vouge einnig inn á fyrstu kynni Adele af rauða dreglinum, en hún var hunsuð af ljósmyndurum þegar hún mætti á Grammy verðlaunin árið 2009. Svo dónalegir voru ljósmyndararnir við Adele, að einn þeirra sagði henni að snauta burt svo hann gæti ljósmyndað Kate Beckinsale í bak og fyrir þar sem hin síðarnefnda stóð grafkyrr í seiðandi og kolsvörtum síðkjól.

screenshot-www vogue com 2016-02-12 20-03-01
Ljósmynd: Annie Leibovitz / Vogue

Kvöldið var þó rétt að hefjast fyrir Adele, sem sló vopnin úr höndum heimsbyggðarinnar þegar verðlaunaafhendingin sjálf rann upp; hún hreppti Grammy verðlaunin sem Besti nýliðinn í bransanum og gerði bókstaflega allt vitlaust á sviði þegar hún flutti elífðarsmell sinn, Chasing Pavements.

Svo undrandi varð Adele þegar hún var kölluð upp á svið að nýju til að taka við verðlaunum sem Besta poppsöngkonan að hún steingleymdi að smeygja sér í Manolo pinnahælana og þrammaði berfætt gegnum salinn, með munninn troðfullan af tyggjói og fráhneppt mittisbelti við annars gullfallegan síðkjólinn.

screenshot-www vogue com 2016-02-12 20-08-33
Ljósmynd: Annie Leibovitz / Vogue

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan Adele þáði Grammy verðlaun, berfætt með fráhneppt belti og munninn troðfullan af tyggjói, en stjarnan gaf út aðra breiðskífu tveimur árum seinna, sem átti eftir að seljast í 30 mlljónum eintaka um alla veröld. Adele státar af þremur tilnefningum og tíu Grammy verðlaunum í dag, því er óhætt að áætla að ljósmyndarinn sem stjakaði við stórstjörnunni forðum daga, nagi sig í handabökin yfir eigin mistökum í dag.

Þess má einnig geta að fyrsta smáskífa Adele, HELLO, af nýútkominni breiðskífu hennar, 25, hlaut yfir 50 milljónir í áhorf á YouTube á fyrstu 48 klukkustundum frá útgáfu og sér ekki enn fyrir endann á tölum. Viðtal Adele í nýjasta tölublaði Vogue má lesa HÉR en að neðan má sjá skot af myndatökunni sjálfri ásamt því sem stjarnan ræðir um röddina, eigin heilsu og viðhorf hennar til ótta:

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!