Norsk kynfræðslumyndbönd, sem gefin voru út á vegum norska ríkissjónvarpsins á síðasta ári, hafa farið stórum á vefnum undanfarna daga, en þar má meðal annars bera kynfæri augum; konu sem leiðir þáttinn áfram og sviptir handklæði af karlmanni sem er nýstiginn úr sturtu, frjálsar blæðingar ungrar stúlku, hreyfingar sæðisfruma gegnum smásjá og áhrif ísmola á eistu fullvaxins manns.
Þáttaröðin ber heitið Newton og er ætlað að fræða börn og unglinga um eðli kynþroska, áhrifa gelgjuskeiðsins og svo hvernig börn verða til. Alls eru þættirnir átta talsins og bera einfaldlega yfirheitið KYNÞROSKASKEIÐIÐ (eða Pubertet upp á norska tungu) og er farið ítarlega í saumana á raddbreytingum, vexti líkamshára, þungun og kynlífi.
Þá hafa þættirnir vakið athygli á heimsvísu fyrir það eitt að vera blátt áfram, aðgengilegir fyrir alla aldurshópa og óþvingaðir í nálgun. Reyndar eru þættirnir afar óþvingaðir í nálgun og í upphafi hvers kafla má sjá viðvörun þess eðlis að sumir foreldrar kunni að fara hjá sér við áhorfið. Þeir hafi hér með verið varaðir við.
Í yfirlýsingu sem Erling Normann, framleiðandi og ábyrgðarmaður fræðsluþáttana sendi frá sér, segir hann meðal annars að auðveld nálgun og afslappað viðhorf skipti öllu:
Við notum raunverulegar fyrirsætur í þáttunum, en ekki kennslumódel. Þannig getum við á einfaldan og aðgengilegan hátt best útskýrt hvaða breytingum líkami barns tekur þegar viðkomandi kemst á gelgjuskeiðið og breytist í fullorðna manneskju.
Erling þvertekur fyrir að efni þáttaraðarinnar sé klámfengið eða óviðeigandi:
Nei, það er af og frá. Hér er enga kynferðislega tilvísun að finna. Við erum að fjalla um kynþroskaskeiðið og þurftum að geta talað tæpitungulaust um eðli líkamans.
Hér má alla seríuna eins og hún leggur sig, en ritstjórn tekur undir með orðum NRK sem segir foreldra þurfa að gæta fyllstu varúðar við áhorfið, þar sem frjálsleg umræða um kynþroska barna þeirra geti gert eldri kynslóðina vandræðalega: