Þá er hið árlega baðfatatölublað Sports Illustrated komið í blaðarekka verslanna og blaðsíðurnar loga hreinlega af kynþokka. Mjúkar og ávalar línur kvenna í eðlilegri þyngd og á öllum aldri bera höfuð og herðar yfir útgáfuna og þvert á það sem hefðbundið mætti telja, eru það ekki þvengmjóar fyrirsætur í örsmáum bikiníum sem tröllríða tölublaðinu, heldur silfurhærðar drottningar og mjúkar ofurfyrirsætur í yfirþyngd, ef svo má að orði komast.
Dásamlegust alls er þó herferðin «SwimSexy sem er á vegum baðfatafyrirtæksins Swimsuits for All sem einmitt, býður upp á sundfatnað fyrir konur í yfirstærð, en hafir þú einhverju sinni efast um að konur í mýkri kantinum eigi ekkert erindi í efnislítil bikiní, né þær sem eru komnar á efri ár, skaltu hugsa þig tvisvar um því þessar ofurbombur taka af allan vafa. Kynþokki kemur í öllum stærðum og svo sannarlega er aldur engin fyrirstaða þegar kvenleiki er annars vegar.
Ashley Graham, sem er þekkt Plus Size fyrirsæta prýðir meðal annars blaðsíður Sports Illustrated, löðrandi í kynþokka og íklædd logagylltu bikiníi:
Nicola Griffin, sem er orðin 56 ára gömul, er elsta baðfatafyrirsætan sem hefur prýtt glanssíður Sport Illustrated og tekur af allan vafa; konur á miðjum aldri geta verið glæstar ásýndum og silfurgrátt hárið er guðdómlegt:
Philomena Kwao er ekki einungis eftirsótt baðfatafyrirsæta, heldur einnig menntaður viðskiptafræðingur, femínisti fram í fingurgóma og hefur barist hart fyrir auknum réttindum kvenna í vesturhluta Afríku, svo eitthvað sé nefnt:
Þetta mun ekki í fyrsta sinn sem baðfatarisinn Swimsuits for All ríður á vaðið með ögrandi og uppbyggilegri herferð sem miðar að því einu að stuðla að jákvæðri líkamsvitund kvenna, en hér má sjá auglýsinguna sjálfa. Fyrir neðan má svo skoða annað myndband, sem sýnir tökur að tjaldabaki.
Skilaboðin eru skýr: Allar konur geta klæðst bikiníi og kynþokki er ekki bundinn við eina stærð: