KVENNABLAÐIÐ

Sjúkraþjálfarinn segir … hreyfum okkur!

„. . . ef við fáum hæfilega hreyfingu verðum við heilbrigðari, þroskumst betur og eldumst hægar, en ef við lifum kyrrsetulífi verður líkaminn viðkvæmari fyrir sjúkdómum, þroskast verr og eldist hraðar…“

Aukin hreyfing í daglegu lífi minnkar líkurnar á að fá ýmsa langvinna sjúkdóma, segja Jóhanna M. Konráðsdóttir og Sólrún Jónsdóttir úr faghóp um hjartaendurhæfingu, sem fjalla hér um nauðsyn daglegrar hreyfingar.

Eitthvað á þessa leið mælti gríski læknirinn og heimspekingurinn Hippókrates fyrir margt löngu. Orð hans eiga ekki síður erindi til okkar í dag. Niðurstöður rannsókna nýrra sem gamalla sýna svo að ekki verður um villst hvert gildi regluleg hreyfing hefur fyrir heilsu okkar.

Hreyfing sem hluti af daglegu lífi

Með því að hreyfa okkur reglulega og nota stóra vöðvahópa, svo sem að synda, dansa eða ganga í a.m.k. 30 mínútur á dag samtals, getum við dregið úr hættu á að fá ákveðna sjúkdóma, t.d. hjartasjúkdóma. Í dag fara flestir allra ferða sinna í bíl. Vinna margra krefst lítillar hreyfingar og að vinnu lokinni tekur oft kyrrseta við. Hvers vegna hreyfum við okkur ekki meira en raun ber vitni? Er það af einskærri leti eða er hreyfingin leiðinleg, tímafrek, sársaukafull eða jafnvel kostnaðarsöm? Ef við gefum okkur að hreyfingin sé ekki sársaukafull, þá ættu hin atriðin ekki að þurfa að koma í veg fyrir að við hreyfum okkur. Til þess að hreyfingin nái að draga úr hættu á ákveðnum sjúkdómum er ekki talið að hún þurfi að vera samfelld lengi í einu. Við getum hreyft okkur meira í daglega lífinu. Í stað þess að taka lyftuna eigum við að velja stigana, ganga eða hjóla styttri vegalengdir og leika við börnin og/eða barnabörnin. Hreyfingin þarf því hvorki að vera tímafrek, framkvæmd á afmörkuðum stað ákveðinn tíma dagsins né vera kostnaðarsöm. En ef við viljum bæta úthaldið þurfum við að hreyfa okkur rösklega og samfellt í a.m.k. 30-40 mínútur 2-3 í viku. Þannig er gerður greinarmunur á hreyfingu sem eykur þrek og þol og hreyfingu sem dugar til að minnka áhættuþætti sjúkdóma.

Erum við orðin of sein?

Þjálfum við þrek okkar og þol sem ung búum við á ýmsan hátt að því alla ævi. Það er auðveldara að byrja að hreyfa sig á ný, hafi maður einhvern tíma stundað reglubundna þjálfun. En til þess að gott úthald vari þarf að viðhalda því. Það er ekki nóg að þjálfað sé stíft í ákveðinn tíma og láta svo þar við sitja. Regluleg hreyfing skilar árangri, hvenær sem fólk byrjar að stunda hana. Hæfileg regluleg hreyfing getur: lækkað blóðþrýsting hjá fólki með of háan blóðþrýsting, haft jákvæð áhrif á blóðfituna (kólesteról) þ.e. aukið hlutfall góðu blóðfitunnar, aukið sykurþol hjá sykursýkissjúklingum, viðhaldið og aukið færni hjá öldruðum og gert þá seinna háða eða jafnvel óháða umönnun annarra, bætt almenna líðan.

Mikilvægt er að við frá unga aldri lærum að meta jákvæð áhrif hreyfingar. Ef skólabörn koma með það veganesti úr leikfimitímum að hafa gaman af því að hreyfa sig og reyna á sig hefur verið lagður mikilvægur grunnur að heilbrigðu lífi. Því er best að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í. Við þá sem eru að hugsa sér til hreyfings eftir langvarandi kyrrsetu viljum við segja: Það er aldrei of seint að byrja. Hvort sem þið viljið breyta ykkar daglega lífsmynstri eða fara út í reglulega þjálfun; ekki ætla ykkur um of og reyna að bæta fyrir langvarandi kyrrsetu á einum degi. Farið varlega af stað, hafið ánægju af hreyfingunni svo þið haldið áfram og gefist ekki upp. Gangi ykkur vel og gleðilegt nýtt hreyfingarár!

Jóhanna M. Konráðsdóttir er yfirsjúkraþjálfi á Vífilsstaðaspítala og sjúkraþjálfi á Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga. Sólrún Jónsdóttir er sjúkraþjálfi á hjartadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga.

Regluleg hreyfing í hvaða mynd sem er skilar árangri!

Grein þessi birtist fyrst á vef DOKTOR:

doktor_is_logo (1)

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!