Saltkjöt, baunir og væntanlega táknrænn túkall verða á borðum þjóðrækinna nú í kvöld, en í dag er Sprengidagur – sá dagur ársins er menn eiga að borða á sig gat og troða sig út af alefli.
Uppruna dagsins má rekja til lönguföstu, sem er sjö vikna fasta fyrir páska og á rætur að rekja til kaþólskra siða – en þá séu trúaðir hreinir og iðrandi fyrir páska. Eitthvað á þá leið segja gamlir siðir til um í það minnsta, en Sprengidagur er því matarveisla mikil sem er síðasti almenni veisludagur fyrir lönguföstu.
Kjötkveðjuhátíðin í Rio De Janiero – Mynd: Gigapica
Erlendis eru kjötkveðjuhátíðir haldnar – þekktust þeirra er Kjötkveðjuhátíðin sem haldin er í Rio hvert ár – en hérlendis halda Íslendingar sambærilega veislu; nefnilega Sprengidag. Dagurinn ber líka heitið „Mardi Gras” upp á franska tungu – sem kann að hljóma kunnuglega, en orðin merkja einfaldlega „Feiti Þriðjudagurinn” og vísar til þess að Sprengidag ber alltaf upp á þriðjudegi, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim og það þó dagsetningarnar séu misjafnar eftir landsvæðum.
Mardi Gras hátíðarhöld í Lousisiana – Mynd: Bigfishpresentations
Á vef Wikipedia segir jafnframt um Sprengidag:
Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá árunum 1752-57 segir að „Kveld hvíta Týsdags heitir sprengikveld því þá fékk allt vinnufólk svo mikið að eta af hangikjöti sem framast gat í sig látið en ket var síðan ekki etið fyrr en á páskum.“ Hangikjöt var lengstum helsti veislukosturinn enda salt af skornum skammti. En frá síðasta hluta 19. aldar er vitað um saltkjöt og baunir á sprengidag og er sú hefð nú almenn.
Hverju sem því líður belgja Íslendingar sig út af saltkjöti, baunum og táknrænum túkall eins og vísan kveður á um í kvöld þegar landsmenn setjast að snæðingi – en þá er um að gera að draga upp gamlar uppskriftabækur þar sem kveðið er á um veislumat, ætluðum til snæðings á íslenskum Sprengidegi.
Njótið dagsins og verði ykkur öllum að góðu!