KVENNABLAÐIÐ

Einkenni þungunar og útreikningur – Er ég ólétt?

Hver eru einkenni þungunar?

Fyrsta örugga merki þungunar er að blæðingar falla niður. Það er þó ekki fullkomlega öruggt því blæðingar geta fallið niður af mörgum öðrum ástæðum. Ef við bætist þensla og eymsli í brjóstum og ógleði á morgnana eru sterkar líkur á að um þungun sé að ræða.

Hvernig fæ ég staðfestan grun um þungun?

Þú getur gengið úr skugga um hvort þú ert þunguð með því að fara með þvagprufu á heilsugæslustöð eða kaupa þungunarpróf til heimanota og kanna málið sjálf. Nútíma þungunarpróf, sem fást í öllum lyfjaverslunum, sýna svörun örfáum dögum eftir að blæðingar hafa fallið niður ef um þungun er að ræða.

Hvernig er væntanlegur fæðingardagur reiknaður út?

Tímalengd þungunar er reiknuð frá byrjunardegi síðustu blæðinga – þó að getnaður eigi sér stað tveim vikum síðar. Meðgangan er u.þ.b. 40 vikur, talið frá fyrsta degi síðustu blæðinga. Meðgöngutími er þó breytilegur um 2 vikur og talið jafn eðlilegt að fæða við 38. viku eða 42. viku, eins og að fæðing eigi sér stað í 40. viku.

Það er ekki mjög erfitt að reikna út væntanlegan fæðingardag

  • Þú telur frá fyrsta degi síðustu blæðinga, t.d. ef það var 1. apríl.
  • Þá bætir þú við einni viku. Þá er það 7. apríl.
  • Síðan dregurðu 3 mánuði frá og færð út fæðingardaginn 7. janúar næsta ár.

Forsenda þess að dæmið gangi upp er að þú hafir reglulegar blæðingar á u.þ.b. 4 vikna fresti. Konur, sem hætta á pillunni og verða barnshafandi innan 1. – 2. mánaða þurfa að reikna með vissri óvissu um fyrsta egglos. Margar konur fá engar eða óreglulegar blæðingar eftir að hætt er taka pilluna. Ef þú hefur ekki fengið blæðingar eftir síðustu pillublæðingar en ert samt barnshafandi, gæti skeikað 1-2 vikum þegar þú reiknar út meðgöngulengd.

Hvernig fæst nákvæm staðfesting á meðgöngulengd?

Sé kvenskoðun gerð 10 til 12 vikum eftir síðustu blæðingar er yfirleitt hægt að sjá á stærð legsins hversu langt meðgangan er komin. Einnig er með ómskoðun hægt að sjá stærð fóstursins og áætla út frá henni meðgöngulengdina af talsverðri nákvæmni.

doktor_is_logo (1)

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!