Maurice White, stofnandi sálargrúppunnar heimsfrægu, Earth, Wind & Fire, andaðist á heimili sínu í Los Angeles nú á fimmtudag. White, sem var 74 ára gamall þegar hann lést, hafði glímt við Parkinsons sjúkdóminn um árabil og hafði hrakað mjög undanfarna mánuði, en tónlistarstjarnan hlaut friðsælt andlát í svefni.
Earth, Wind & Fire átti ófáa stórsmelli á sjöunda áratugnum og braut melódísk og grípandi tónlist sveitarinnar ákveðið blað í sögu popptónlistar. Af stærstu smellum Earth, Wind & Fire má meðal annars nefna September, Boogie Wonderland, Shining Star og After the Love Has Gone. Hljómsveitin hlaut heiðursess í Rock and Roll Hall of Fame árið 2000 og var White sjálfur heiðraður sem tónskáld einum tíu árum sienna, eða árið 2010, þegar hann hlaut sess meðal annarra merkra tónlistarmanna í Songwriters Hall of Fame.
White starfaði með mörgum af skærustu stjörnum í tónlistarheiminum á löngum ferli; Barbra Streisant, Cher og Neil Diamond voru meðal þeirra sem White hljóðritaði fyrir breiðskífur hinna fyrrnefndu en þakklætisorð heimsfrægra flæddu yfir Twitter þegar lá ljóst fyrir að White var látinn.
Þannig sagði Bette Midler að augljóst væri að Herrann á himnum þyrfti á hæfum tónlistarstjörnum að halda en að mikilmenni væri nú gengið. Queen Latifah þakkaði White fyrir alla tónlistina og sagði melódíur sveitarinnar vera gjöf. Lenny Kravitz vottaði White einnig virðingu sína gegnum Instagram og sagði White vera konung, leiðtoga, kennara, snilling, frumkvöðul, tónskáld, fjölhæfan hljóðfæraleikara og fyrirmynd.
Tónlistin sem hann skilur eftir sig og var flutt af sveit hans, Earth, Wind and Fire mun að eilífu lifa ásamt boðskap hans sem einkenndist af takmarkalausri ást.
Sveitin seldi yfir 90 milljón eintaka af breiðskífum sínum um víða veröld en í viðtali við Associated Press árið 2000 sagðist White sjálfur vilja að tónlist Earth, Wind & Fire yrði hlustendum hvatning fremur en einföld afþreying:
Það var alltaf heila málið; að reyna að hvetja fólk til að hlusta á innsæi sitt, trúa á eigin getu og fylgja eigin hugmyndum eftir. Að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd.
Hér má hlýða á einn stærsta stórsmell sveitarinnar – Boogie Wonderland: