KVENNABLAÐIÐ

Olíubornir og þrekvaxnir Tyrkjar snúa niður andstæðinga á hreðjataki – Þvílík þjóðaríþrótt!

Þá að þjóðaríþrótt Tyrkja; hinni alræmdu olíuglímu, sem gengur í megindráttum út á að koma hendi niður í buxnastreng andstæðingsins til að geta njörvað hann niður við jörðina.

Ritstjórn barst þessi skemmtilegi menningarmoli, sem sjá má í formi myndbands hér að neðan, fyrr í dag og ákváðu stúlkurnar að fara á stúfana í þeirri von að fletta mætti ofan af því hvað, í raun, mennirnir eru að gera.

Tyrkneskur olíuglímukappi í vígaham
Tyrkneskur olíuglímukappi í vígaham á vellinum

Við nánari grennslan kom í ljós að íþróttin ber heitið Yağlı güreş eða einfaldlega olíuglíma á íslensku, en heitið hlaut íþróttin af ólívuolíunni, sem keppendur löðra á líkama sinn áður en út á leikvanginn er haldið. Glímukapparnir, sem nefnast Pehlivan sem er persneska og merkir hetja á íslensku, klæðast handsaumuðum leðurbuxum sem gerðar eru af kostgæfni; ýmist af skinni vatnabuffalóa eða kálfa.

Hart tekist á; sá sigrar sem kemst niður í buxurnar
Hart tekist á; sá sigrar sem kemst niður í buxurnar

Sjálfar buxurnar bera heitið kisbet og gengur íþróttin út á það eitt að ná járntaki á kisbet andstæðingsins, allra helst með því að þrykkja hnefanum niður fyrir buxnastrenginn og grípa þannig traustataki um líkama mótherjans, um leið og hann er snúinn niður í jörðina. Að fara með sigur af hólmi með þessu móti heitir þá paça kazık á tyrknesku, en uphaflega voru keppninni engin tímamörk sett. Var þá ekki óalgengt að þrekin karlmenni, löðrandi í ólívuolíu og íklæddir engu nema hnausþykku buffalóleðri frá mitti og niður úr, veltust um í fangbrögðum í allt að tveimur sólarhringum þar til annar hafði betur og það með hnefann á kafi ofan í buxum hins.

Ekki er ólíklegt að keppendur missi buxurnar niður á vellinum
Ekki er ólíklegt að keppendur missi buxurnar niður á vellinum

Samkvæmt því er kemur fram á vef Wikipedia, voru þjóðarsportinu settar ákveðnar skorður árið 1975 og getur hver viðureign aðeins staðið yfir í 40 mínútur, þar til annar er kveðinn upp sem sigurvegari.

Keppendur eru alla jafna heljarmenni og hart er tekist á
Keppendur eru alla jafna heljarmenni og hart er tekist á

Sjálf íþróttin er ævagömul og á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1362 en olíuglímur eru einnig háðar víðsvegar um norðurhluta Grikklands og hefur þjóðarsport Tyrkja átt vaxandi vinsældum að fagna í Hollandi og Japan á síðustu árum.

Þvílík og önnur eins þjóðaríþrótt!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!