Hvaða nöfnum sem þú kýst að kalla breytingar á lífsstíl, er ein staðreynd deginum ljósari. Mataræði hefur mikið að segja um líkamlega velferð og jafnvel andlega heilsu. Detox, afeitrun, fæðubreytingar, átak. Heitin eru nær óteljandi og þess utan hentar ekki það sama fyrir alla.
Þó sú kenning að hægt sé að skola út eiturefnum með réttu fæðuvali, sé umdeild og jafnvel vafasöm, er ekki úr vegi að renna yfir matseðilinn, jafnvel skrifa niður hvað er á borðum – ef þú ert að glíma við eftirfarandi einkenni.
ÞUNGLYNDI:
Það er löngum þekkt að óhóflegt sykurát og sætindaásókn getur ýtt undir vægt þunglyndi og líkamlega vanlíðan. Sumir halda því fram að þunglyndi sé merki um líkamlegt ójafnvægi; eiturefni sem hafa safnast upp í lifur, þörmum og jafnvel í heila. Þó ávallt sé ráðlagt að leita læknis ef þunglyndið keyrir úr hófi fram, er ekki úr vegi að bæta sítrusávöxtum í mataræðið og reiða fram feitan fisk í kvöldverðinn.
SVEFNTRUFLANIR:
Andvökunætur geta haft skelfileg áhrif á frammistöðu í daglegu lífi. Stundum er ójafnvægi á hormónakerfinu um að kenna; estrógenframleiðslu og jafnvel röskunar á starfsemi skjaldkirtils. Mjólkurþistill, sem er sagður styrkjandi fyrir lifrina og hægt er að kaupa í töfluformi í heilsuverslunum, getur komið að gagni. Grænir morgundrykkir, sem eru sneisafullir af næringarefnum, hjálpa líka.
SÍÞREYTA:
Síþreyta er óhjákvæmilegur fylgifiskur svefntruflanna. Ef þú ert að glíma við síþreytu, er sennilegt að þú þurfir að bæta hreyfingu inn í dagskipulagið. Stuttir göngutúrar, hófleg líkamsrækt þrisvar sinnum í viku og fráhald frá hvítum sykri er ráðlegt. Smærri skammtar á diskinn, ávextir og grænmeti í stað millimáls og það að sneiða hjá unnum matvælum getur dimmu í dagsljós breytt. Jafnvel getur algert glútenfráhald verið ráðlegt.
ÞANINN MAGI:
Meltingartruflanir geta verið andstyggð að eiga við. Þaninn magi, jafnvel hægðatregða og vægir verkir geta hreint út sagt eyðilagt annars ágætan dag. Ef þú ert að glíma við þaninn maga, getur aukin vatnsdrykkja bætt úr líðan þinni. Bættu grænum morgundrykk á matseðilinn, borðaðu trefjaríkan hafragraut (hægt er að fá glútenlaust haframjöl) og auktu við próteininntökuna.
STREITA:
Krónísk streita og kvíði getur myndast sökum lélegs mataræðis. Þó hæfileg streita geti örvað hugann og hvatt þig áfram til góðra verka, er engum hollt að vera í stöðugri togstreitu við umhverfi sitt og glíma við krónískan kvíða. Líkaminn er einfaldlega að segja þér að eitthvað sé að. Hér þarftu að spyrna við fótum og stokka upp daginn. Hversu upptekin/n sem þú ert, skaltu gefa þér tíma til að iðka jóga – allra helst á hverjum einasta degi. Úrval byrjendatíma er talsvert og þú þarft ekki að byrja á því að kaupa rándýran æfingabúnað, sækja flókna framhaldstíma og gefast svo upp innan viku. Byrjaðu hægt. Dragðu fram gamla æfingagallann, bókaðu byrjendatíma og mundu að tileinka þér einfalda hugleiðslu í kjölfarið.
VOND LÍKAMSLYKT:
Ef þú ert að glíma við sterka og jafnvel vonda líkamslykt er mataræðinu að öllum líkindum um að kenna. Prófaðu að halda matardagbók, farðu yfir þær fæðutegundir sem þú innbyrðir daglega og stokkaðu upp hreyfiáætlun dagsins. Farðu út að ganga, drekktu meira vatn, sneiddu hjá sælgæti og taktu allar dýraafurðir út úr mataræðinu. M.ö.o. – prófaðu grænmetisfæði í heila viku og vittu hvort líðanin og lyktin tekur breytingum!
ÓÚTSKÝRÐ ÞYNGDARAUKNING:
Ef þú hefur ekki gert neinar breytingar á mataræðinu, en þyngist engu að síður, getur skjaldkirtlinum verið um að kenna. Hæg efnaskipti geta ollið óútskýrðri þyngdaraukningu, en þetta getur líka verið merki um að konur séu að nálgast breytingaskeiðið. Þú ættir að byrja á að ræða við heimilislækninn og óska eftir blóðprufu sem sker úr um hormónaframleiðslu líkamans, en þú ættir líka að bæta grænum drykkjum og aukinni vatnsdrykkju á matseðilinn. Sneiddu hjá kolvetnaríkum mat, sérstaklega brauðmeti. Farðu út að ganga á hverjum degi – iðkaðu jóga eða skokkaðu létt. Sundsprettur getur líka verið prýðilegur.
MINNISTRUFLANIR:
Er skammtímaminnið að hrekkja þig? Minnistruflanir eru ekki óalgengur fylgifiskur efnaskiptatruflanna. Ef ójafnvægi er á hormónastarfseminni getur skammtímaminnið farið út um gluggann, en streita getur líka ollið gleymsku. Enn og aftur; byrjaðu ávallt á því að biðja heimilislækni að mæla hormónaframleiðslu líkamans. En þó augljósar truflanir séu á starsfemi líkamans og til lyfja þurfi að grípa í einhverjum tilfellum, getur Spírulína, mulin Ginseng-rót, grænir morgundrykkir og aukin vatnsdrykkja hjálpað líkamanum að ná jafnvægi að nýju. Gættu þín á kolvetnainntökunni og taktu glúten út úr fæðunni.
~
Detox, fæðufráhald, glútenlaust mataræði, átak og kolvetnalaus matseðill. Nöfnin eru jafn mörg og aðferðirnar, sem eru æði misjafnar. Meðan einum hentar að fara á hinn alræmda djúskúr getur það eitt að taka glúten út úr fæðunni gert gæfumuninn fyrir þann næsta. Einhverjir taka út mjólkurvörur, aðrir sneiða hjá sykri og svo eru það þeir sem drekka einfaldlega te og skrúfa tappann á áfengisflöskuna.
Hvað sem verður fyrir valinu er eitt næsta víst; órjúfanleg tengsl eru milli mataræðis og líkamlegrar heilsu. Sért þú að glíma við ofantalin einkenni er því ekki úr vegi að fara yfir hvaða úrræði eru í boði, skrifa niður eigin matseðil í heila viku og renna svo yfir hvað í fæðunni getur verið að valda vanlíðan.
Hér má sjá David Avocado Wolfe fjalla um gildi afeitrandi mataræðis; hvað gerist þegar unnar matvörur, kjöt, mjólkurvörur, áfengir drykkir og brauðmeti er tekið af matseðlinum í 2 – 4 vikur: