Blóðappelsínur eru dásamlegar í baksturinn og gefa unaðslegan keim. Ekki einungis er liturinn fallegur; aldinkjötið er rúbínrautt þó appelsínuávöxturinn líti næsta venjulega út að utan – þær eru líka bráðhollar.
Ekki er verra ef hægt er að koma höndum yfir ferskar blóðappelsínur í ágætri matvöruverslun, kreista safann og nota beint í baksturinn, heldur er C-vítamínmagnið líka meira en þegar hellt er úr fernu. Ilmandi kardimommur fara vel með innbökuðu vanilluþykkni og blóðappelsínusafinn sem fer ferskur í kökuna, gefur þessari undursamlegu uppskrift einmitt þá upplyftingu sem krókloppnir fingur þurfa á að halda við uppábúið kaffiborð meðan snjónum kyngir niður fyrir utan.
U P P S K R I F T:
2 egg
2 bollar strásykur
8 matskeiðar ósaltað, mjúkt smjör
1 teskeið vanilluþykkni
½ bolli sýrður rjómi
Ferskur safi úr tveimur ágætum blóðappelsínum
¼ bolli blóðappelsínudjús úr fernu
2 bollar hveiti
2 teskeiðar lyftiduft
½ teskeið matarsódi
1 teskeið malaðar kardimommur
½ tsk salt
G L A S S Ú R:
½ bolli flórsykur
1 matskeið hunang
1 matskeið ferskur blóðappelsínusafi
¼ teskeið malaðar kardimommur
Klípa af sjávarsalti
L E I Ð B E I N I N G A R:
Forhitið ofninn í 180 gráður.
Byrjið á því að þeyta saman egg og sykur í stórri skál, bætið svo sýrðum rjóma út í blönduna og því næst smjöri, vanilluþykkni og blóðappelsínusafanum.
Takið nú fram aðra skál og sigtið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda, malaðar kardimommur og salt. Bætið þurrefnum smám saman við blönduna og haldið áfram að þeyta saman.
Smyrjið því næst kökumót sem er ca. 20 cm að stærð (þvermáli), hellið deiginu í og bakið í u.þ.b. 40 – 45 mínútur. Takið úr ofninum þegar kakan er tilbúin og látið kólna á borði.
Glassúrinn er gerður með því að blanda saman flórsykri, hunangi, blóðappelsínusafa, möluðum kardimommum og salti í litla skál og þeyta saman þar til glassúrinn er orðinn jafn og áferðarfallegur. Dreypið að lokum yfir kökuna áður en hún er borin fram.