KVENNABLAÐIÐ

Fætur og fótaumhirða

Fæturnir eru okkur mjög dýrmætir, þeir sjá um að bera allan þunga líkamans, halda jafnvægi og bera okkur úr einum stað á annan. Í hvorum fæti eru 26 bein og 30 liðamót og hver manneskja gengur að meðaltali 370 þúsund kílómetra á lífsleiðinni. Okkur mundi því svo sannarlega bregða við ef við misstum þá.  Hvers vegna hugsum við þá ekki betur um fæturnar á okkur?  Mjög margir huga ekki að fótum sínum nema rétt til að klippa táneglurnar þegar þær eru farnar að gera göt á sokkana.

Almenn fóthirða, þ.e. að halda mýkt húðarinnar, fjarlægja dauðar húðfrumur, verjast fótsveppum og fótsvita er jafn mikilvægt og dagleg umhirða líkamans. Auðveldasta leiðin er að fara á snyrtistofu og láta fagfólk sjá um verkið en einnig er hægt að gera þetta sjálfur heima.

Fyrst þarf að fara í fótabað, 1 msk. af góðu fótasalti er sett í volgt vatn og fæturnir hafðir í balanum í 15-20 mín. Þá þarf að raspa allt sigg í burtu með grófum raspi, klippa neglurnar og snyrta naglaböndin. Ekki er ráðlegt að nota svokallaðan ,,ostaskera”, sem er hnífur með beittu blaði til að skera burtu harða húð. Þetta er flugbeitt verkfæri sem auðvelt er að skera sig með og mjög erfitt að nota það á sjálfan sig því ekki er á færi allra að horfa neðan í iljarnar á sjálfum sér. Látum fagfólk um þessi verkfæri. Þegar allt sigg er horfið og neglurnar orðnar fínar er nauðsynlegt að bera á sig gott fótakrem,  það er mjög mýkjandi og fyrirbyggir að siggið komi aftur. Mjög gott er að bera á sig krem reglulega, helst á hverju kvöldi, til að halda fótunum fínum.

Það er staðreynd að margir fullorðinna einstaklinga stríða við fótamein af einhveju tagi. Það er nauðsynlegt að taka snemma á vandanum svo hann verði ekki verri og  fæturnir þurfa jú að duga þér alla ævi.

Helstu  fótavandamál sem við verðum vör við á snyrtistofum eru niðurgrónar neglur, líkþorn, vörtur og sveppir. Hér á eftir verður drepið lauslega á þessum vandamálum og hafðu í huga að gott er að láta fótaaðgerðafræðing eða heimilislækninn skoða fæturnar ef grunur vaknar um einhver slík vandamál.

Inngrónar neglur

Inngrónar neglur geta valdið gífurlegum sársauka því neglurnar vaxa niður í holdið. Mikilvægt er að láta  skoða neglurnar og ráðleggja hvað hægt er að gera, ekki er sama hvernig svona neglur eru klipptar svo láttu fagfólk ráða för.

Líkþorn

Líkþorn er oftast afleiðing ertingar eða þrýstings á ákveðið lítið svæði einnig getur hár eða sandkorn festst í efsta húðlaginu og myndað líkþorn. Líkþorn er oftast hringlótt, þykkast í miðjunni og skagar inn í neðri húðlög. Einnig getur það orðið oddhvasst og þrýst illilega á taugar og valdið miklum sársauka. Fótaaðgerðafræðingar geta fjarlægt líkþorn en mikilvægt er að huga að orsök þess og koma í veg fyrir hana, annars vill líkþornið myndast á ný.

Vörtur

Vörtur eru langvarandi veirusýking. Þær eru upphleyptir hnúðar með hrjúfu yfirborði sem líkist helst blómkáli. Allar vörtur eru hættulausar og hverfa sjálfkrafa með tímanum en þær eru smitandi og dreifast með snertingu eða húð sem flagnar af vörtu.  Hægt er að fá vörtur fjarlægðar hjá heimilislækni og eru þær ýmist frystar, brenndar eða skornar. Einnig eru til ýmis gömul húsráð við vörtum. Margir þekkja ekki muninn á vörtu eða líkþorni því þau eru oft svipuð í útliti, en þumalputtareglan er að líkþorn veldur sársauka ef ýtt er á það en vartan ef hún er kreist.

Fótasveppir

Fótasveppir eru aðallega á iljum og tám, húðin springur, verður hreisturkennd, upphleypt og oft áberandi hvítleit og vatnsblöðrur myndast. Blöðrurnar springa og þá myndast sár sem bakteríur geta sýkt, þessu fylgir kláði og óþefur. Hægt er að kaupa krem í apóteki og er það borið vel á milli tánna. Einnig getur fótasveppur breiðst út í neglurnar og étur hann sig þá undir þær, við þetta þykkna og afskræmast neglurnar og geta jafnvel dottið af. Leita þarf læknis ef sveppurinn kemst í neglurnar og fá meðferð til dæmis lyf eða laser. Fótasveppur getur borist frá manni til manns beint og óbeint, t.d. í búningsklefum, rökum gólfum í sturtu og frá óhreinum handklæðum. Mörgum reynist vel  að nota daglega fótasprey sem dregur úr svitamyndun á fótum, dregur úr lykt og er áhrifamikil sveppavörn. Einnig þarf að þurrka fæturnar vel eftir þvott, skipta oft um sokka og skó og nota skó sem lofta vel, t.d. sandala og forðast stígvél og skó sem lofta ekki.

Ef við viljum hafa heilbrigða fætur þurfum við einnig að huga að skófatnaði. Vanda þarf valið þegar keyptir eru nýir skór og ætti fólk að leggja í vana sinn að kaupa skó sem passa, ekki á að þurfa að ,,ganga skóna til”. Oft rænir tískan okkur skynseminni og ,,lætur” okkur kaupa skó sem alls ekki passa fætinum. Skór sem eru of mjóir að framan skekkja tærnar og þrýsta þeim saman svo líkþorn getur myndast á milli þeirra og of háir hælar skekkja hlutfall þyngdar á hæl og táberg sem getur leitt til verkjar upp eftir fótum og alveg upp í bak. Ef eingöngu eru notaðir skór með háum hælum getur hásinin styst og orðið erfitt fyrir viðkomandi að ganga á lágbotna skóm.

Það er jafn mikilvægt að hugsa vel um fæturnar sínar og líkamann allan, það er miklu auðveldara að halda þeim góðum heldur en að þurfa að fara að gera við þegar eitthvað hefur gefið sig.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!