KVENNABLAÐIÐ

„Afeitrandi“ DETOX-boltar fyrir leggöng kvenna sagðir valda alvarlegum sýkingum

Mikill urgur ríkir meðal bresku heilbrigðisstéttarinnar og ekki að ástæðulausu, en nýverið kom á markað svonefndur „detox-pakki” fyrir leggöng kvenna með þurrkuðum jurtum, sem að sögn söluaðila, á að afeitra leggöngin og skilja út eiturefni.

Jurtapokarnir, sem kosta á bilinu 9.700 og 62.500 íslenskar krónur, eru seldir á alþjóðavísu gegnum bandaríska fyrirtækið Embrace Pangaea og kallast einfaldlega The Herbal Womb Detox Pearls. Talið er að þær konur sem kjósa að hagræða jurtapokunum uppi í leggöngunum, eigi bráðaofnæmisviðbrögð á hættu eða í það minnsta slæma sýkingu og það í besta falli.

Þetta þvertaka framleiðendur fyrir og segja „afeitrunar-perlurnar” gegna því hlutverki að draga úr blöðrum á eggjastokkum, sveppasýkingu og svæsnum tíðaverkjum. Þá er konum uppálagt að nota þrjá jurtapoka í einu, í allt að 72 klukkutíma. „Perlurnar,” segja framleiðendur, „hreinsi leggöngin og legið sjálft og jafni sýrustigið með því að skola út eiturefnum.”

Svona líta jurtaperlurnar út; þrír pokar eiga að fara upp í einu lagi
Svona líta jurtaperlurnar út; þrír pokar eiga að fara upp í einu lagi og  afeitra leggöngin

Þá er einnig hægt að kaupa sérstaka pakka sem innihalda jurtir sem eiga að lækna gigt og móðurlífsbólgur, ásamt því sem perlurnar eru sagðar ráða niðurlögum sveppasýkinga, en að síðustu má nefna að einnig er hægt að kaupa sérstakar „jurtaperlur” sem „þrengja leggöngin og auka á kynferðislegan unað.” Þó segir á upplýsingasíðu fyrirtækisins að konur sem enn eru með ósnortið meyjarhaft, svo og þær sem eru óléttar og / eða eru með barn á brjósti skuli ekki notast við jurtaperlurnar.

Þessu hafna læknar alfarið og hafa mótmælt hástöfum vegna framleiðslunnar, sem sérfræðingar segja að geti valdið ómældum skaða á innri kynfærum kvenna. Kvensjúkdómalæknirinn Dr. Jen Gunter skrifar þannig pistil um málið sem hún birti á bloggsíðu sinni fyrir fáeinum dögum og segir hún að jurtaperlurnar geti verið stórhættulegar:

Að stinga jurtapokum upp í leggöngin í allt að 72 tímum getur hreint út sagt verið hættulegt, að ekki sé talað um óþefinn sem þessu fylgir.

Skýringarmynd sem sýnir ætlaða útskolun eiturefna að lokinni notkun
Stórundarlegar myndir er að finna á vefsíðunni sem ætlað er að sýna afeitrunarferlið

Þá bendir Dr. Gunter einnig á að fari mánaðarlegar blæðingar úr hófi fram eða verði óbærilegra móðurlífsverkja vart, jafnvel í hverjum mánuði – eigi konur umsvifalaust að snúa sér til læknis. Þá séu kynfæri kvenna búin sjálfhreinsandi búnaði frá náttúrunnar hendi og að það eitt að notast við jurtapoka til að afeitra legið, sé til þess eins fallið að raska viðkvæmu sýrustigi líkamans. Góðu bakteríurnar geti verið bornar ofurliði og að kláði, sýking og roði geti myndast á viðkvæmasta svæði líkamans.

Fjölmargar afurðir úr jurtaríkinu, að ekki sé minnst á þykkni og mixtúrur, geta valdið bráðaofnæmi og svo sannarlega er hvergi hægt að vísa í rannsóknir sem votta um gæði  jurta sem afeitra sjálf kynfæri kvenna. Guð einn veit hvað er í þessum jurta sem eiga að þrengja sjálf leggöngin. Ég dreg þá ályktun að innihaldsefnin vadi þurrk eða lýsi jafnvel yfirborð legganga – sem er skelfilegt.

Þá segir Dr. Gunter að lokum að engin kona með réttu viti eigi að stinga nokkrum aðskotahlut inn í leggöngin og geyma þar í þrjá heila sólarhringa:

Slíkt veldur hreinum bakteríugróðri og það er alls ekki gott.

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu marga túrtappa ég hef fjarlægt á löngum ferli en yfirleitt er lyktin svo hryllileg að við verðum að opna alla glugga á læknastofunni og viðra út það sem eftir lifir dags. Svo já, það er rétt – slæmur bakteríugróður lyktar skelfilega og vond lykt frá leggöngum er alltaf merki um að eitthvað alvarlegt er að gerast.

Þessa skýringarmynd má sjá á vefsíðu fyrirtæksins; notaður, afeitrandi jurtapoki
Þessa skýringarmynd má sjá á vefsíðu fyrirtæksins; notaður, afeitrandi jurtapoki

Í viðtali við breska miðilinn Independent segir Tamieka Atkinson, sem á og rekur Embrace Pangaea, að jurtaperlurnar væru ekki lyf og að hvergi stæði ritað að notkun þeirra gæti unnið bug á sjúkdómum, stutt við sjúkdómsgreiningu eða jafnvel meðhöndlað sjúkdóma af neinu tagi.

Embrace Pangaea er fyrirtæki sem sérhæfir sig í heildrænum lækningum og býður upp á framúrskarandi jurtablöndur sem afeitra líkamann og við leggjum okkur fram við að upplýsa viðskiptavini okkar um heilbrigða og náttúrulega lífshætti. Við erum einfaldlega að bjóða upp á náttúrulegan valkost sem konur geta valið að njóta á meðvitaðan og upplýstan máta.

Óhætt er að segja að aldrei sé of varlega farið, sérstaklega ef um óþægindi í móðurlífi er að ræða, en á vef Doktor má lesa fjölda fróðlegra umfjallana um kynheilsu kvenna. Biður ritstjórn lesendur að fara varlega við val á meðferðarúrræðum og bendir allt til að jurtapokar þeir sem rætt er um í þessari grein, geti ollið meiri skaða en gagni.

/ Daily Mail greindi frá

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!