Derek Zoolander er sjóðheitur í augnablikinu, en karlmódelið, sem gerði garðinn frægan með Blue Steel hér um árið – prýðir nýjustu forsíðu bandaríska Vogue ásamt leikkonunni Penelope Cruz.
Reyndar er Derek, sem er leikinn af Ben Stiller, ekki alls ókunnur hátískuheiminum (né Önnu Wintour, ritstjóra Vogue, ef því er að skipta) því karlmódelið tróð upp ásamt kollega sínum – Hansel, á pöllunum fyrir Valentino á tískuvikunni í París fyrir skemmstu.
Svo það sé þó haft á hreinu, er Derek Zoolander uppspuni frá rótum – leikin sögupersóna sem Ben Stiller gerði heimsfræga hér um árið í fyrstu myndinni um fáránlega myndarlega karlmódelið með munnstútinn. Engu að síður og það í tilefni af frumsýningu Zoolander 2, sem kemur í kvikmyndahús á sjálfan Valentínusardag, prýða þau Stiller og Cruz forsíðu febrúarheftis Vogue sem kemur út þann 26 janúar nk.
Parið sýnir hátískufatnað frá Dolce & Gabbana, Ralph Lauren, Tom Ford og Oscar de la Renta svo eitthvað sé nefnt, en myndataka var í höndum Annie Leibovitz.
Hér má að lokum sjá nýjustu kynningarstikluna sem er í raun fáránlega flott ilmvatnsauglýsing og við hér á ritstjórn spennum greipar með bíómiða – popp og kók í hönd!