KVENNABLAÐIÐ

Avókadó-bollar með bráðnum osti, beikonkurli og sjávarsalti – Uppskrift

Avókadó er fæða guðanna ef svo má að orði komast; sneisafullt af bráðhollum fitusýrum og einstaklega milt á bragðið. Vinsæl viðbót á salatdiska og líka ljúffengt eintómt.

En avókadó má hæglega baka í ofni líka, að ekki sé minnst á hversu ljúffengt aldinkjötið er með steiktu beikonkurli og innbökuðu eggi, rifnum osti og klípu af sjávarsalti. Uppskriftin sem hér fer að neðan er örlítið laugardags ef ætlunin er að reiða fram á morgunverðarborðið, en getur líka hæglega hentað sem léttur kvöldverður á virkum degi.

Sáraeinfalt, pakkað af næringarefnum og svo er það líka guðdómlega ljúft á bragðið!  

U P P S K R I F T:

1 meðalstór avókadó

2 egg

1 msk af smátt skornu beikonkurli, meðalsteiktu

1 msk af rifnum osti

Klípa af sjávarsalti

L E I Ð B E I N I N G A R:

#1 – Forhitið ofninn í 220 gráður Celcius

#2 – Helmingið avókadóaldinið og fjarlægið steininn, skafið varlega úr miðjunni með ágætri matskeið svo rými verði fyrir eggið.

#3 – Ágætt er að tylla avókadóaldininu á múffuform svo verði stöðugt í ofninum meðan á bökun stendur.

#4 – Brjótið eggið og hellið í miðjuna á aldinkjötinu, stráið rifnum osti yfir eggið og látið gjarna klípu af salti fylgja með. Toppið með steiktu beikonkurli.

#5 – Eldið í 14 – 16 mínútur. Berið fram heitt.

Verði ykkur að góðu!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!