Netflix aðdáendur á Íslandi geta nú tekið gleði sína, en kvikmyndaveitan er nú aðgengileg á landinu og það eftir löglegum leiðum. Þessi tímamót í sögu kvikmyndaunnenda runnu upp í gær, þann 6 janúar 2016, en hingað til hafa þeir íslendingar sem vilja njóta aðgengi að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum gegnum Netflix þurft að fara krókaleiðir sem í stórum dráttum hafa snúist um að notast við erlendar IP-tölur og jafnvel viðbætur á borð við Hola! sem gerir Netflix áhorf gerlegt í þeim löndum þar sem þjónustan hefur ekki verið aðgengileg.
Þetta er þó ekki allt, því nú geta sólstrandarþyrstir Íslendingar einnig fest kaup á Netflix aðgangi og notið sjónvarpsþáttaáhorfs í spænskum baðstrandarbæjum svo framarlega sem fartölvan verður með í för þegar sól tekur að hækka á lofti, en Netflix var áður óaðgengilegt á Spáni. Í stuttu máli sagt tilkynnti fyrirtækið þannig að auk þeirra 60 heimsríkja sem áður höfðu aðgang að kvikmyndaveitunni, næði Netflix til flestra landa heims – þar á meðal Spánn og Ísland.
Rétt er þó að benda á að úrval kvikmynda og sjónvarpsþáttaraða er misjafnt eftir landsvæðum og takmarkast við leyfishafa kvikmyndaréttar í hverju landi fyrir sig. Þannig verður ekki sama úrval á Íslandi og í Bandaríkjunum, svo dæmi séu tekin, en sannarlega hefur stórt skref verið stigið.
Mánaðaráskrift að Netflix á Íslandi verður kringum 8 evrur eða því sem nemur 1.150 íslenskum krónum, en fyrsti mánuðurinn er hins vegar gjaldfrír í áskrift. Hægt er að kynna sér efnisúrvalið og áskrift á vefsíðunni http://www.netflix.com/is og þá sitja þessar spurningar eftir:
Hver er uppáhalds sjónvarpsþáttaröðin þín og ætlar þú í áskrift?