Í dag, þann 6 janúar, lýkur jólum. Þrettándinn, sem haldinn er hátíðlegur í dag bar nafnið epiphania til forna og var haldinn hátiðlegur til minningar um skírn Krists. Skemmtilegt er frá því að segja að orðið epiphania er úr grísku komið og merkir opinberun, en tyllidagurinn hefur tekið talsverðum breytingum á undanförnum öldum og er í dag talað um þrettándahátíð.
Á vef Wikipedia segir að fram til ársins 1770 hafi hvílt á þrettándanum helgi og var dagurinn almennur frídagur allt fram til þess árs en þrettándinn var afhelgaður það sama ár og hefur, þrátt fyrir að standa undir nafni fram til dagsins í dag, verið almennur dagur.
Hérlendis er þrettándinn enn haldinn hátíðlegur sem lokadagur jóla og þrammar þannig Kertasníkir síðastur íslensku jólasveinanna til heimkynna sinna á fjöllum í dag og lýkur þar með jólahátíðinni. Skemmtilegt er að segja frá því að ýmsar þjóðsagnir tengjast bæði nýársdegi og þrettándanum; í dag öðlast kýr þannig mannamál, selir kasta af sér hamnum og einnig þykir tilvalið að sitja á krossgötum, leita spásagna og eitthvað er um vistaskipti álfa og huldufólks í dag.
Algengt var áður fyrr að gera sér dagamun á þrettándann og hefur sá siður haldist allt fram á þennan dag, en ætla má að þrettándabrennur verði haldnar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Dans og söngur, álfaklæði og þjóðvísur verða því væntanlega uppi á pallborðinu þegar rökkva tekur í kvöld – einhverjir skjóta upp síðustu flugeldunum frá áramótum og því tilvalið að grípa kyndla, dusta rykið af vísnaheftinu og kveðja jól sem áramót með álfasöngvum og kveðja jólasveinana með stæl, þar til desember rennur upp að nýju.
Þrettándahátíð Vesturbæjar í Reykjavík má lesa um á vef borgarinnar: Smellið HÉR