París, höfuðborg elskenda, geymir ófá leyndarmálin; allt frá katakombunum sem AirBnB bauð út til næturgistingar á sjálfa Hrekkjavöku og lúxusíbúðarinnar sem lúrir í sjálfum Eiffel turninum.
Einmitt. Eiffelturninn er ekki allur þar sem hann er séður; reyndar er þessi listasmíði svo margslungin að enn eru að koma í ljós leynd skúmaskot sem hönnuður gerði ráð fyrir og hafa vart komið fyrir augu almennings allt frá árdögum helsta kennimerkis Frakklands, sem reis árið 1889.
Það var arkitektinn Gustave Eiffel sem hlaut þann heiður að mega hanna sjálfan turninn og byggði hann inn í risavaxna smíðina sem gnæfir yfir alla höfuðborg Frakklands, leynilega íbúð sem hann ætlaði sér sjálfum, en íbúðin sjálf er á þriðju hæð eða í nær 300 metra hæð yfir Champ Du Mars og leikur enginn vafi á því að útsýnið er nær ójarðneskjulega fagurt.
Smá er íbúðin í sníðum og segja einhverjir að rýmið líkist meira vinnuherbergi, en Eiffel lét ferja glæst viðarhúsgögn upp í turníbúðina, veggirnir voru klæddir með litríku veggfóðri og tígurlegt píanó trónir í miðju rýmisins. Einnig er að finna örsmáa rannsóknar- og vinnustofu í íbúðinni, sem enn er útbúin háþróuðustu tækni þess tíma er var við lýði þegar turninn reis fyrir hartnær 130 árum.
Litla íbúðin í Eiffelturninum, sem skírður er í höfuðið á skapara sínum, Gustave, hefur þó aldrei verið opin almenningi. Það sem meira er, ekki einu sinni franska elítan hefur notið útsýnisins yfir höfuðborg ástarinnar. Þegar yfirstéttin komst á snoðir um leyniathvarf Gustave, grátbáðu ófáir arkitektinn sérlundaða um að fá að njóta dagstundar í leyniathvarfinu en allt kom fyrir ekki. Háar fúlgur fjár sem ýmsir buðu fram fyrir dagleigu voru ekki boðlegar vísindamanninum. Gustave gaf engum færi á að njóta dýrðarinnar og sat sem fastast á eigin sköpunarverki. Enginn skyldi opna dyrnar nema hann sjálfur.
H A L L O W E E N: AirBnB leigir út HRYLLILEGT gistirými í frönsku katakombunum í París
Enn þann dag í dag, 92 árum eftir andlát Gustave, gæta verðir Eiffelturnarins best geymda leyndarmáls Parísarborgar eins og sjálaldri auga síns og hafa örfáir stigið fæti inn í guðdómlegt athvarf Eiffel. Íbúðin er þó örsjaldan til sýnis fyrir valda einstaklinga og þá einungis í skamman tíma í einu.
Hrífandi, ekki satt og fyllilega vert að hafa í huga næst þegar leiðin liggur til Parísar.
Nánari upplýsingar: Atlas Obscura