Trönuber eru stútfull af andoxunarefnum; hægt er að kaupa þau frosin í matvöurverslunum og ekki bara eru þau sneisafull af C-vítamíni og trefjum heldur eru þau einnig sögð dásamlega heilandi og vinna gegn þvagfærasýkingum.
Því er ekki úr vegi að kasta í einn íðilgrænan með trönuberjum og grænkáli meðan skammdegið herjar á landann, þess utan eru trönuber hitaeiningasnauð og styðja við góða kólestrólið samhliða því sem þau draga úr slæma kólestrólinu.
Einu berin sem innihalda jafn mikið magn af andoxunarefnum og trönuberin, eru bláber, en báðar berjategundirnar geta dregið úr líkum á hjartaáfalli, innihalda mótefni gegn umgangspestum og ef marka má fræðin geta trönu- og bláber einnig dregið úr æxlamyndun ákveðinna gerða krabbameins.
U P P S K R I F T:
2 bollar af fersku grænkáli
1 bolli kalt vatn
1 bolli trönuber (fersk eða frosin)
2 vænar appelsínur, afhýddar og smátt skornar
2 ágætir bananar, frosnir eða ferskir
A Ð F E R Ð:
Byrjið á því að þeyta saman grænkálið og vatnið þar til blandan er orðin silkimjúk áferðar og kálið er smátt skorið í blandaranum. Bætið því næst öllum hinum ávöxtunum saman við blönduna og þeytið þar til blandan er orðin áferðarfalleg og kekkjalaus.
*ATH: Hvíta hýðið innan í appelsínunni er mjög hollt, leyfið því að fara með í blandarann til að auka enn á næringargildið. Blandan gæti orðið fjólublá á lit vegna trönuberja-viðbótarinnar, en hér er andoxunarefna-bomba sem nærir og bætir í skammdeginu.