Ferskt ávaxtavatn í kæli er undursamlegur svaladrykkur og vatnsmelónu-kókosvatn með kreistu af ferskum limesafa er alger dásemd. Ef gosdrykkirnir taka sinn skammt af buddunni og þú vilt efla heilsuna, er alveg frábært að leggja sykurinn á hilluna og laga þess í stað heilsudrykk fyrir alla fjölskylduna sem gælir við bragðlaukana og inniheldur gnægð bætiefna.
Vatnsmelónu / Kókosvatn með dass af lime:
1 steinlaus vatnsmelóna (niðursneidd)
4 bollar vel kælt kókosvatn
2 msk af ferskum limesafa
L E I Ð B E I N I N G A R:
Byrjið á því að skera vatnsmelónuna í litla bita og setja í blandarann. Athugið að sniðugt getur verið að kaupa heila vatnsmelónu; hreinsa steina úr ef vatnsmelónan er ekki steinlaus – og frysta melónubitana, sem svo fara beint í blandarann.
Þegar vatnsmelónan hefur verið vel maukuð í blandaranum, er best að sía vökvann gegnum ágætt sigti – í væna könnu og hræra kókosvatninu og limesafanum saman við. Allt aldinkjöt ætti að sía frá – frábært er að setja fáeina klaka í drykkjarkönnuna, geyma í ísskáp í klukkutíma og bera svo fram.
Drykkurinn er dísætur og svalandi frá náttúrunnar hendi og gersneyddur aukaefnum!