Stundum vinnst einfaldlega enginn tími til að fara í ræktina. Einhverjir eru á sífelldum þönum allan daginn, aðrir hafa hreinlega ekki efni á mánaðarkorti og svo eru það þeir sem hafa einfaldlega enga löngun til að hamast í tækjasal til þess eins að brenna kaloríum.
En náttúran er dásamleg úr garði gerð og þannig fela fjölmörg dagleg verkefni okkar í sér líkamlega áreynslu og það jafnvel án þess að við höfum hugmynd um að líkaminn sé að erfiða; allt frá því að bera innkaupapoka upp tröppur til þess að hlæja vel og innilega. Jafnvel það eitt að ráða erfiða krossgátu eða streða við próftöku getur brennt hitaeiningum.
Sé ofangreint haft í huga, er nær ótrúlegt að hugsa til þess hversu nýtilegar annir hversdagsins í raun eru. Þó verður samtímis að hafa hugfast að fólk sem stundar kyrrsetuvinnu getur ekki treyst á hláturmilda kaloríubrennslu né heldur reiknað með því að klukkutímasprettur bæti upp fyrir 6 klukkutíma setu á stól. En safnast þó þegar saman kemur og hér fara þær, tíu skemmtilegustu leiðirnar til að brenna kaloríum án þess að fara í ræktina:
.
#1 – HLÆÐU MEIRA!
Ekki bara er hláturinn besta meðalið, heldur er langt og hressilegt hláturskast albesta leiðin til að brenna fleiri kaloríum án teljandi áreynslu. Bara það eitt að hlæja að fyndnum uppstandara í litlar 15 mínútur getur hjálpað þér að brenna milli 10 og 40 kaloríum. Að ekki sé minnst á að hláturinn leysir vellíðunarboðefnið serótónín úr læðingi, sem einmitt dregur úr matarlyst.
#2 – DILLAÐU ÞÉR!
Hvort sem þú elskar að dansa við dynjandi diskó eða þolir ekki meiri áreynslu en einfaldan vangadans bak við luktar dyr, er óumdeilanlegt að dans er frábær líkamsrækt. Bara það eitt að hlaupa með vinkonum út á dansgólfið og taka hressilega á því við skemmtilegan danstakt getur brennt allt að 450 til 600 kaloríum, allt eftir því hversu hversu líflegur dansinn er. Bara það eitt að dilla sér við tónfall á skemmtilegum tónleikum getur brennt allt að 250 kaloríum á klukkustund, sem jafngildir hitaeiningafjölda í litlum hamborgara!
#3 – SLEPPTU AF ÞÉR BEISLINU Í RÚMINU:
Kynlífsiðkun og rúmleikir eru ein besta líkamsrækt sem hægt er að hugsa sér, ef undan eru talin hressileg átök í æfingasalnum. Ástarleikir sem spanna að meðaltali hálftíma geta þannig brennt allt að 160 kaloríum. Sé forleikur reiknaður inn í dæmið bætast aðrar 55 kaloríur við …
#4 – VERSLAÐU AF ÞÉR KÍLÓIN:
Já, í bókstaflegri merkingu. Innkaup geta verið grennandi. Bara það eitt að ganga milli verslana, hlaupa inn í mátunarklefa, burðast með innkaupapoka og renna fingrunum eftir rekkunum getur brennt allt að 180 kaloríum á klukkustund. Matvælainnkaup sem standa yfir í heilan klukkutíma, tilheyrandi pokaburður og brölt getur brennt allt að 260 kaloríum á klukkustund. Gættu þess bara að narta ekki í millimál meðan þú verslar inn í matinn … því þá ertu að bæta kaloríum ofan á þær sem þú ert að brenna.
#5 – STATTU BEINNI Í BAKI:
Konur og karlar í yfirþyngd ættu að prófa að standa upprétt við vinnu sína alltaf þegar því er komið við, sé ætlunin að missa nokkur kíló. Líkaminn brennir að meðaltali 2 kaloríum til viðbótar á mínútu í standandi stöðu og þannig getur það eitt að standa við vinnu sína á hverjum degi leitt til þess að líkaminn missir 7 kíló á ársgrundvelli, ef hollt mataræði verður ofan á. Fólk í skrifstofuvinnu ætti líka að prófa að taka stutta göngutúra um skrifstofuna á hverjum degi, sem örvar efnaskiptin.
#6 – SYNGDU HÁSTÖFUM!
Já! Ekki vera hrædd við að syngja af öllum kröftum með uppáhaldslaginu þínu, alla vega í bílnum eða heima við … þar sem þú getur verið örugg/ur um að valda ekki almennu ónæði. Það eitt að syngja hástöfum brennir að meðaltali 136 kaloríum á klukkustund og ekki er verra ef þú tekur danssporið með!
#7 – ELDAÐU HEIMA:
Einmitt. Veldu holl hráefni og sneiddu hjá fituríkum afurðum. Það er kannski einfaldara að kippa upp skyndibita á leiðinni heim – en það eitt að standa og elda sjálf/ur heimatilbúinn mat í eldhúsinu í hálftíma brennir allt að 100 kaloríum. Hugsaðu þér bara!
#8 – TAKTU FAGNANDI MÓT VETRI!
Þetta hljómar undarlega, en rannsóknir hafa sýnt fram á að það eitt að skjálfa örlítið í kulda brennir kaloríum og hindrar líkamann í því að safna fitu. Nýleg rannsókn, sem að vísu var smá í sniðum, sýndi þannig fram á að einstaklingar sem eyddu deginum í 15 gráðu hita, brenndu að meðaltali 430 fleiri kaloríum en þeir sem eyddu deginum í 27 stiga hita. Svo taktu fagnandi á móti vetri og hafðu hugfast að vægur kuldahrollur getur örvað efnaskiptin!
#9 – SKELLTU ÞÉR Í HÚSVERKIN:
Já, þetta er ekkert ægilega spennandi en skúringar og uppvask geta falið í sér ágæta hreyfingu. Þannig brennir meðalkarlinn um 110 kaloríum við það eitt að ryksuga og skúra gólfin á hálftíma, meðan konur að meðaltali brenna um 95 kaloríum við sömu verk.
#10 – EINBEITTU ÞÉR AF ALEFLI:
Heilabrot geta örvað efnaskiptin og það eitt að takast á við erfitt verkefni eða próf, getur brennt allt að 1.5 kaloríum á mínútu. Heilinn er sannkölluð orkusuga samanborið við öll önnur líffæri og krefst þannig u.þ.b. 20% alls orkuforða sem líkaminn býður upp á hvern einasta dag. Þegar þú einbeitir þér því af alefli, kallar heilinn eftir enn meiri orku en venjulega og þannig fer brennslan á flug. Svo það er hollt að hugsa eftir allt saman!
Heimild // CNN