Þessi heimalagaða teuppskrift er öflugur slenbani og vinnur gegn bólgum í líkamanum, hefur sterk afeitrandi áhrif og hressir í haustsvalanum. Að ekki sé talað um þegar snjórinn byrjar að falla og kuldinn fer að nísta, þá er gott að hafa rótsterkt túrmeríkte með ferskum sítrónusafa við hendina.
Túrmerik:
Þetta krydd er af engiferrótarfjölskyldunni og er þekkt fyrir bólgueyðandi áhrif sín. Á Indlandi er kryddið notað til að draga úr gigt og liðverkjum; ekki hvað síst vegna verkjastillandi áhrifa sinna. Fjölmargar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að virka efnið í túrmerik, kúrkúmin, er stútfullt af andoxunarefnum og getur haft fyrirbyggjandi áhrif á vöxt krabbameinsæxla. Þess utan býr túrmerik yfir hreinsunarmætti og getur orkað afeitrandi fyrir lifrina.
Engifer:
Sefar og róar bólginn og auman maga, en engifer hefur einnig öflug bólgueyðandi áhrif. Engifer örvar blóðrásina og hefur um aldaraðir verið notað í Asíu í náttúrulækningum til að auka blóðflæði til útlima.
Kanill:
Kanill lækkar blóðsykurinn, en kryddið eykur glúkósamagnið í meltingarfærum og styrkir einnig háræðakerfi líkamans. Kanill býr einnig yfir afeitrandi og bólgueyðandi eiginleikum.
Utan þess hversu heilnæmur drykkurinn er, bragðast hann ótrúlega vel og því ekki einungis harðasta tedrykkjufólk sem fellur fyrir þessum. Heilsuáhrifin eru óumdeild, svo ef almennur slappleiki fer að skjóta upp kollinum, skaltu fyrir alla muni drekka glas af blöndunni á hverjum degi í nokkra daga. Vittu til, það virkar!
U P P S K R I F T:
1 bolli vatn
⅓ tsk malað túrmerik
¼ tsk malaður kanill
¼ tsk malað engifer
½ – 1 tsk lífrænt hunang (eftir smekk og sætuþörf)
1 msk ferskur sítrónusafi
Hitið vatn að suðumarki í litlum potti. Þegar vatnið hefur náð suðu, skaltu lækka á hitanum og bæta kryddunum ásamt sítrónusafanum og hunanginu út í blönduna og hræra vel þar til allt er komið saman.
Takið nú pottinn af hellunni og setjið lok á pottinn. Leyfið blöndunni að kólna í ca. 10 mínútur, þar til kryddin hafa aðlagast og drykkurinn er orðinn hæfilega heitur til drykkju. Kryddin munu falla til botns meðan þú drekkur úr bollanum, svo hrærðu reglulega í með skeið meðan þú drekkur afeitrandi kryddblönduna.